Í bókinni fjallar Kristín um rannsókn sína meðal WoDaaBe-fólksins í Níger og fléttar inn í frásögnina umræður fræðimanna um vettvangsrannsóknir. Höfundur bregður upp mynd úr heimi rannsókna, þar sem óvæntar uppákomur eru daglegt brauð, og gefur um leið mikilvæga innsýn í líf hirðingja í suðurjaðri Saharaeyðimerkurinnar.Í tvö ár bjó Kristín hjá WoDaaBe-fjölskyldum úti í eyðimörkinni en einnig í borgum þar sem aukin fátækt hefur neytt þá út í farandverkamennsku. Með frásögn sinni af eigin reynslu varpar Kristín ljósi á umræður síðustu ára um vettvangsrannsóknir og þær fjölþættu leiðir sem með þeim opnast til upplýsingaöflunar.