Jóhanna, íslensk kona búsett á Norður-Ítalíu, lifir einföldu og kyrrlátu lífi ásamt syni sínum og ítölskum tengdaföður. Dag nokkurn ber að garði lögreglumanninn Roberto Farro sem rannsakar lát konu þar í grenndinni – hann hefur engar vísbendingar aðrar en að símanúmer Jóhönnu finnst hjá hinni látnu. Hver er þessi kona og hvernig tengist hún Jóhönnu? Jóhanna dregst þannig ófús inn í rannsókn málsins sem berst um Ítalíu endilanga og allt til Sikileyjar. Fyrr en varir er hafin óvænt og örlagarík atburðarás. Nístandi fjölskylduleyndarmál leita dagsljóssins og á milli Jóhönnu og Robertos kvikna sterkar kenndir sem þau kunna varla að bregðast við. Fífa Larsen bjó um árabil á slóðum sögunnar og þekkir vel litróf ítalskrar þjóðarsálar. Grátvíðir er fyrsta bók hennar.
Mér fannst þessi bók reyna að vera kynslóðadrama, glæpasaga og ástarsaga allt í einni. Var samt eiginlega ekki neitt af þessu. Aðalpersónan, Jóhanna, afskaplega þunn og óáhugaverð og allt einhvern veginn frekar klént.
3.5 stjörnur - Skemmtilegt concept, vel og fallega skrifuð bók og auðvelt að lifa sig inní líf Jóhönnu og tengja við líf hennar. Smá leiðinlegt að sjá 3x stafsetningavillur (t.d. Stóð einhversstaðar “Robeto” en ekki Roberto) og svo smá óraunveruleg samtöl, t.d. samtölin við 4ja ára Benjamín eru oft alltof fullorðinsleg til að geta verið við 4ja ára krakka, og t.d. óraunverulegt að Jóhanna fari í 2ja ámanaða launað leyfi vegna verkefnaskortss (verkefnaskortur hjá bókara? Og myndi það ekki líklegast vera ólaunað leyfi?). Og svo ég minnist nú ekki á að það er ekki séns að alvöru ítölsk kona úr djúpa suðrinu eins og Beatrice myndi opna sig fyrir útlendingi, sama hversu fullkomna ítölsku Jóhanna talar (sérstaklega útaf Beatrice hefði talað óskiljanlegt suðrænt dialect). Fyrir utan svona stakar athugasemdir (sem eru jú kannski smá sérvitringa-komment) þá er Grátvíðir mjög skemmtileg bók sem er auðvelt að tengja við, og margt mjög satt um líf á Ítalíu. Ég hlakka til að sjá meira eftir Fífu Larsen, sérstaklega aðra bók sem er sett á Ítalíu - kannski næst í Róm.
Bara allt í lagi bók en ekkert tímamótaverk þannig. Gerist á Ítalíu og lofaði á tímabili góðu með spenning á milli aðalpersóna en það fjaraði óþarflega hratt út fyrir minn smekk.