Nafn Veru Hertzsch er mörgum Íslendingum kunnugt og órjúfanlega tengt Halldóri Laxness og uppgjöri hans við Sovétkommúnismann sem hann aðhylltist ungur. Veturinn 1938, þegar hreinsanir Stalíns stóðu sem hæst, var Vera tekin höndum ásamt ársgamalli hálfíslenskri dóttur sinni fyrir augunum á Halldóri sem var gestkomandi á heimili þeirra í Moskvu. Aldarfjórðungur leið þar til hann leysti frá skjóðunni um þann atburð en afdrif mæðgnanna voru áfram óleyst gáta.
Veru og litlu stúlkunnar biðu örlög sem þær deildu með milljónum Sovétborgara; ömurleg fangabúðavist, sjúkdómar, þrælkun og hungur. Þær áttu aldrei afturkvæmt og litlar sem engar fregnir bárust ættingjum og vinum sem lifðu í óvissu áratugum saman.
Þessi áhrifamikla saga er hér loksins sögð til enda. Jón Ólafsson hefur rannsakað æviferil Veru Hertzsch og rekur hann eftir torsóttum heimildum og gegnum endurminningar kvenna sem sátu í sömu fangabúðum en komust, ólíkt Veru, lífs af. Jafnframt er ljósi varpað á kynni Íslendinga af Sovétríkjum Stalíns og uppgjörið sem fram fór áratugum síðar – og ástæður þess að Vera Hertzsch varð þjóðþekkt á Íslandi löngu eftir að hún hvarf.
Appelsínur frá Abkasíu hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2012 og einnig til fræðiritaverðlauna Hagþenkis. Bókin hlaut síðarnefndu verðlaunin.
Skemmtileg og fræðandi, en fulllöng. Höfundur er að endurtaka eða endurorða sömu punkta margoft. Gefur góða innsýn í það helvíti á Jörðu sem var til undir stjórn Stalín.
Þetta var mjög athyglisverð bók um hreinsanirnar miklu í Sovétríkjunum. Þar sem ekki er mikið vitað um ævi Veru Hertzch, hvorki fyrir né eftir handtöku hennar, er stór hluti bókarinnar í raun lýsing á gulaginu og því lífi sem konurnar þar lifðu, og þar með væntanlega líka Vera. Eins og segir einhvers staðar í bókinni er saga Veru saga svo margra annarra kvenna. Þetta er því í raun líka saga þeirra.
Mjög góð heimildarvinna sem skilar sér í ítarlegri lýsingu og greiningu á Sovietríkjunum. Sérstaklega frá og með hreinsununum miklu á árunum 1937-1939 þegar milljónum borgara var fleygt í fangelsi án dóms og laga. Höfundur greinir m.a. frá afdrifum margra Íslendinga sem höfðu ánetjast kommúnismanum. Þessi greining er sem fyrr segir mjög ítarleg. Inn í þessa frásögn fléttast afdrif Veru Hertzsch, sem var þýsk að uppruna en gerðist síðan sovéskur ríkisborgari. Hún kynntist Benjamín Eiríkssyni og eignaðist með honum dóttur. Benjamín hafði búið í Moskvu í eitt ár en fluttist þá til Svíþjóðar og nam þar hagfræði.
Í stuttu máli var Vera handtekin í hreiinsununum miklu 1937 ásamt dóttur sinni. Höfundi tókst að rekja afdrif hennar eftir torsóttum heimildum í fangabúðum án þess þó að geta með óyggjandi hætti tímasett dánardag hennar.
Nokkrar vikur liðnar síðan ég las þessa bók og í millitíðinni hef ég vitnað nokkrum sinnum til hennar í samtölum við fólk, sem er ákveðið sannindamerki um að sagan sé áhugaverð. Alltént fyrir þau sem áhuga hafa á því að skilja hugarfar "Sovétmannsins", sem er snúið púsluspil. Bókin segir í raun sögu kvennagúlagsins, þar sem örlög Veru knýja söguna áfram. Höfundur bætir upp takmarkaðar persónulegar heimildir um Veru sjálfa með því að tvinna saman við sögur samtíðarfólks hennar og samfanga, sem ítarlegri heimildir eru til um, og dregur þannig upp heildstæða mynd af þeim ósköpum sem ofsóknir og fangabúðahagkerfi Stalínismans voru. Niðurstaðan er stórgóð og fróðleg lesning. Ekki síst auðvitað tengingin við íslenska sósíalista og greining á uppgjöri Halldórs Laxness við eigin hlut í atburðarásinni.