Líf Jófríðar og annarra í skaranum hennar stjórnast af árstíðunum. Þau eyða sumrinu í Fellsskógi, haustinu á Húsavík og á veturna, þegar hrímsvelgirnir koma niður af hálendinu, þurfa þau að flýja út á ísinn á Mývatni. Hætturnar leynast við hvert fótmál en allt er samt í föstum skorðum – þar til líf Jófríðar umturnast. Hún þarf ekki bara að velja milli Suðra, myndarlega stráksins í Ljósavatnsskaranum, og æskuvinar síns, Bresa, heldur hvílir ábyrgðin á velferð skarans skyndilega á hennar herðum.
Hrím er ævintýraleg þroskasaga um ástir og örlög á annars konar Íslandi þar sem mannfólk deilir landinu með risavöxnum dýrum og lífsbaráttan er hörð. Hildur Knútsdóttir hefur skrifað fjölda vinsælla ungmennabóka og hlotið fyrir þær ýmsarviðurkenningar, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin, Fjöruverðlaunin og Barnabókaverðlaun Reykjavíkur.
Ég varð mjög spennt fyrir þessari nýju ungmennabók þegar ég las aftan á hana, svo las ég bókina sjálfa og varð ekki fyrir vonbrigðum. Þetta undarlega, ævintýralega Ísland er alveg ókannað land og kemur lesandanum sífellt á óvart. Lýsingar á landslagi, dýrum og lífsháttum fólks eru nákvæmar og birtast lesanda ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Sambönd fólksins eru flókin, eins og gerist og gengur, og miklar tilfinningar brjótast um í aðalsöguhetjunni, henni Jófríði. Á innan við ári gengur hún í gegnum mikið þroskaferli og finnur í hvaða átt hún vill stefna. Vel gert Hildur Knútsdóttir, enn ein frábæra ungmennabókin í safnið. Við erum heppin að eiga svona öflugan höfund sem skrifar bækur fyrir aldursstig sem mörgum finnst eflaust erfitt að ná til.
Fínasta ungmennasaga og skemmtilegt sögusvið og heimsbygging. Hefði verið til í að kanna frekar allar þessar furðuskepnur betur og hafa aðeins minna unglingadrama en ég er kannski bara orðin of mikill og gamall Skúli fúli fyrir það. En það rættist ágætlega úr því samt.
Veit ekki með aðra en ég trúi bara ekki að fantasy geti gerst á Íslandi það er alltof venjuleg hérna og hversdagslegt. líka smá hallærislegt að láta allt vera um snjó já ok ÍSLAND I GET IT en hvað með að virkja flug hugans aðeins betur.
4.5 ⭐️ Lét mig langa verða kennikonu og flakka milli vetrar og sumarbúða í handsaumuðum skinnskóm og horfast í augu við hrímsvelgi. Vona eiginlega að það verði fleiri bækur úr þessum ævintýraheimi, ég væri allavega til í að vita meira um Jófríði og Mývatnsskarann.