Prestsdóttirin Valka á sér ýmsa drauma. Helst af öllu langar hana að sigla til Kaupmannahafnar á vit ævintýranna, spássera um steinlögð stræti, sjá hallir og gullturna og hefðarfólk með hárkollur aka um í glæsivögnum. Að öðrum kosti vill hún verða auðug húsfrú á höfuðbóli og hafa margar vinnukonur. En náttúran grípur harkalega í taumana – bæði sú sem sýnir mátt sinn með veðurofsa, eldgosum og harðindum en líka sú sem býr innra með Völku, kveikir ástríðu og losta og tekur stundum á sig mynd slóttugrar skepnu; völskunnar. Sumir draumar Völku eiga eftir að rætast, aðrir verða að engu en þegar upp er staðið leynist gæfan þó kannski þar sem hana grunaði síst.
Valskan er fyrsta skáldsaga Nönnu Rögnvaldardóttur sem áður hefur skrifað fjölda bóka um matargerð og matarsögu. Frásögnina byggir hún á lífi formóður sinnar, Valgerðar Skaftadóttur, sem fædd var árið 1762. Heimildum og skáldskap er fléttað saman svo úr verður grípandi saga um harða lífsbaráttu en líka óvæntar lausnir, þrautseigju og ástir.
Nanna Rögnvaldardottir is Iceland’s most popular cookbook author and food writer. Her first book, the food encyclopaedia Matarást (Love of Food), published in 1998, was nominated for the Icelandic Literary Prize for Non-Fiction and was named Reference Book of the Year by the Icelandic Librarians Association. In 2000, Nanna was a co-recipient of the Hagthenkir Non-Fiction Prize, awarded to her and food historian Hallgerdur Gisladottir "for remarkable, fundamental writing of high quality about cooking and cuisine, national and international."
Bókin er áhugaverð og mikilvæg lesning um líf Íslendinga fyrr á öldum séð frá sjónarhorni kvenmanns, hennar Völku, sem er aðalpersóna bókarinnar. Það er auðvelt að gleyma hve stutt er síðan Íslendingar lifðu við mikla eymd og erfitt líf. Ég sökk alveg inn í söguþráðinn og sögusviðið og átti erfitt með að leggja bókina frá mér!
Í þessari sögulegu skáldsögu byggir Nanna á ævi formóður sinnar Valgerðar Skaptadóttur, sem var fædd árið 1762. Hún hefur kynnt sér ævi Valgerðar, eða Völku eins og hún var kölluð, og skáldar í eyðurnar, svo úr verður áhugaverð saga af sterkri en breyskri konu, sem lendir í ýmsum áföllum í lífinu. Ég var mjög ánægð með kortið og ættartréð fremst í bókinni, og viðauka höfundar um vinnuna við bókina og þær persónur sem hún er byggð á. 4,5 stjörnur, hækka upp í fimm.
Bókina skortir dýpt. Mikil skrif til að lýsa staðháttum, matargerð og jafnvel dúkum og borðbúnaði en ekki sannfærandi tengingar við mennina í lífi Valgerðar, allt í einu er hún bara hrifin af manni si svona rétt áður en hún sefur hjá honum, barbabrella og allir eru þeir látnir þreifa innundir skyrtuna og á brjósti hennar, sumsé fremur einhæfar lýsingar á uppáferðum og ástarlotum. Vantar stórkostlega upp á dýpt til að gera bókina góða.
Áhugaverð saga, sérstaklega lýsingar á lífsháttum og aðbúnaði fólks á þessum tíma, ekki síst kvenna. En almenn fannst mér bókin full annálaleg og einhvern veginn ekki fara á flug sem skáldsaga. Þannig þótti mér persónusköpun oft nokkuð rýr, sérstaklega hvað varðaði hina ýmsu elskhuga og samband söguhetjunnar við þá. Fékk ekki tilfinningu fyrir hvað dró hana að þeim, nema þá kynlífið sem einhvern vegin dúkkaði upp fyrirvaralítið. En get alveg mælt með sem áhugaverðri lesningu um afmarkaða hluta lífsins á seinnihluta 18. aldar á Íslandi og í Kaupmannahöfn.
Ein af þeim bókum sem ég tímdi varla að klára og þótti miður að skilja við persónurnar á síðustu blaðsíðunni ❤️🩹 Engin bók er gallalaus og ég gæti alveg potað í eitthvað en sagan greip mig svo fast að það skipti engu og ég man ekki annað en hvað ég var niðursokkin í söguna og persónurnar 😁 Svo ég þrusa í fimm stjörnur bara.
FRÁBÆR! Áfram með sögulegu skáldsögurnar kæra Nanna! Ég er allavega komin á vagninn. Þessi harði heimur sem við Íslendingar viljum gleyma og erum að verða búin að gleyma. Dauði ungbarna, barna og ungmenna svo algengur, hungur, kuldi, vosbúð - fátæktin og sveitarfestin. Textinn svífur um blaðsíðurnar, persónur og leikendur eru sönn, breysk og fjölbreytt.
Hvað skal segja? Náttúran maður minn, hversu fallvölt getur gæfan verið. Áhugaverðast er að fylgjast með þessu valdaleysi og fallveltni kvenna. Kirkjunnar og mannanna kreddu verk allt í kring, eyðandi og meiðandi. Fannst bókin ekkert spes en ágæt sem aldafarslýsing og áminning um að standa vörð um fengin mannréttindi
Áhugavert tímabil og góðar lýsingar á lífsháttum og verklagi. Saga Valgerðar, þó skálduð sé að stórum hluta, merkileg. Ekki ónýtt að eiga siglda formóður á 18. öld. Væri til í að lesa meira um afkomendur hennar. Saga íslenskra kvenna oft legið óbætt hjá garði.
Mér fannst þetta virkilega góð bók. Elska þetta sögusvið, Ísland hér á öldum áður þar sem saga kvenna og barna er sögð. Svakaleg barátta að halda sér á lífi oft á tíðum. Naut lestursins og Nanna segir vel og fallega frá. Mæli með lestrinum.
Kom á óvart. Hélt hún væri þyngri. Nönnu tekst að segja frá sorglegu efni, kúgun og mikilli fátækt án þess að verða dramatísk. Vel gert ! Spennandi bók. Og dásamlegar, skemmtilegar og mjööög fróðlegar lýsingar á matargerð og almennum búskaparháttum.
Það var margt rosalegt áhugavert. Kannski hefði ég viljað sjá betra flæði á köflum eða hrifnæmari lýsingar en ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið þessa innsýn inn í 18.öldina á Íslandi.