Rambó er týndur eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur mætti kalla "tilfinninga-spennusögu" sem reyndi á allar mínar taugar. Ég missti töluna á því hversu oft mig langaði að öskra "Nei, Sandra. Hættu að skemma fyrir þér!". Rithöfundur virðist hafa einstaklega gott lag á að sýna hversu óskýr línan getur verið á milli þess að vera góð og slæm manneskja. Erfitt var að lesa um misskildu, brengluðu og viðkunnanlegu Söndru. Hún á það til að hegða sér fyrirlitlega, en það er samt eitthvað svo klaufalegt og sorglegt við hennar verstu hliðar. Við hverja góða ákvörðun Söndru hlýnaði mér jafn mikið um hjartarætur og mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ofsóknarbrjálæðið og kvíðinn tók völdin hjá henni.
Ég er svo fegin að þessi bók sé búin svo ég geti farið að anda léttar, en á sama tíma langar mig að vita meira og að allt verði í lagi.