Vöggudýrabær er skáldleg umfjöllun um þær konur sem nauðbeygðar sendu afkvæmi sín á vöggustofur og þau börn sem þar voru vistuð framan af barnæskunni.
Kristján Hrafn Guðmundsson yrkir hér af skáldlegu innsæi, húmor og þekkingu um hlutskipti móður sinnar og ömmu og bregður um leið birtu á þjóðfélag þessara tíma og tíðaranda.
„Sem hvítvoðungur kom hún í húsið kalda, þar sem tilfinningar þóttu tabú, hlýju var vísað á dyr, alúð var afskrifuð. Afplánun tók tvö ár. Afleiðingar stóðu ævina á enda. Hvað gerðist þessi ár veit mamma ekki. Hvað gerðist vegna þessara ára veit mamma vel.“
Í vöggu vítis Són - tímarit um ljóðlist og óðfræði, 2023
Vöggudýrabær er fyrsta útgefna ljóðabók Kristjáns Hrafns Guðmundssonar, bókmenntafræðings og rithöfundar, en hann hefur áður sent frá sér sagnasafnið Þrír skilnaðir og jarðarför. Vöggudýrabær er ljóðsaga sem er byggð á upplifun móður Kristjáns að hafa verið vistuð á vöggustofu fyrstu tvö ár ævi sinnar. Bókin talar því beint inn í eitt stærsta pólitíska mál undanfarinna ára, Vöggustofumálið, sem hefur hrist rækilega upp í þjóðfélags- og stjórnmálaumræðunni eftir að hópur fyrrum vöggustofubarna krafðist þess að Reykjavíkurborg myndi rannsaka starfsemi vöggustofa sem starfræktar voru í höfuðborginni á síðustu öld. Sú rannsókn hefur farið fram og niðurstöður Vöggustofunefndar staðfestu að börnin sem vistuð voru á þessum stofnunum hefðu sætt illri meðferð sem hafði áhrif á mörg þeirra út ævina.
Bók Kristjáns Hrafns er verðugt innlegg inn í þessa umræðu en það áhugaverðasta við hana er hversu framúrstefnuleg og tilraunakennd hún er. Kristján tekur sér fullt skáldaleyfi til að segja sögu móður sinnar og móður ömmu en tileinkar jafnframt bókina þessum tveimur konum. Vöggudýrabær skiptist í fjóra hluta; ÞYNGD VELLIR, TÍMINN OG VAGGAN, KONUNGRARÍKI og HLJÓÐNAKLETTAR, sem hver um sig tekur fyrir ákveðna hlið sögunnar. Kristján leikur sér víða með tungumálið eins og sjá má í titli verksins og kaflaheitunum og hann býr jafnvel til orð þegar þess gerist þörf. Í einum fyrsta texta bókarinnar leitar hann jafnframt til orðsiðja til að benda á hræsnina sem fólgin er í heitinu vöggustofur: „Vagga ber í sér merkinguna líf. Von. Framtíð. / Stofa táknar heimili. Samverustað. Fjölskyldu“.
Ljóst er að Kristján er vel lesinn í bókmenntasögunni enda má finna fjölmargar vísanir um alla bókina í skáld á borð við T.S. Eliot, Stein Steinarr, Einar Má Guðmundsson, o.fl. Kristján leikur sér með ljóðahefðina og flakkar oft á milli stíla, þannig lesast sumir texta hans eins og kjarnyrt atómljóð, aðrir eins og flæðandi ljóðaslamm og enn aðrir eins og sjálfsævisöguleg prósaljóð.
Í öðrum kafla bókarinnar, sem jafnframt er einn sá sterkasti, myndgerir Kristján þjáningu vöggustofubarnanna og móður sinnar með konkrektljóðum og tilraunakenndum skáldskap sem minnir í senn á Ísak Harðarson og evrópsku framúrstefnuna í byrjun síðustu aldar. Tilbreytingarlaust afskiptaleysið sem þessi börn máttu sæta á klínískum vöggustofunum, þar sem starfsmenn synjuðu þeim um snertingu, umhyggju og skynræna örvun, birtist hér í beinskeyttum skáldskap sem nístir inn að beini: „Hvernig ætli ómálga barn / skynji / tvö ár // samanborið við fullorðna manneskju?“. Uppsetning textanna í þessum hluta gefur sterka tilfinningu fyrir tímanum sem líður. Árin tvö, sem eru kannski ekki langur tími í lífi fullorðinnar manneskju, en eru eins og eilífð fyrir ungbarn sem er vanrækt inn á kaldri og ópersónulegri stofnun. Þarna fáum við líka útskýringu á titli verksins, Vöggudýrabær, samanburðurinn við dýragarða er ekki svo langsóttur því mæður sem heimsóttu börn sín sem dvöldu á vöggustofum máttu ekki hitta þau, heldur fengu aðeins að skoða afkvæmi sín í gegnum gler: „í dýragörðum erlendis eru skilti / sem á stendur: / Do not feed the animals / á vöggustofum virtist hugmyndin / nokkurn veginn: / Do not need the children“.
Í síðustu tveimur hlutum bókarinnar fjallar Kristján svo um afleiðingarnar sem vistin á vöggustofunni hefur á barnið og fjölskyldu þess út ævina. Afleiðingar sem eru augljósar öllum þeim sem hafa kynnt sér baksögu Vöggustofumálsins eða hlustað á sögur fólksins sem var vistað á þessum stofnunum; tengslaröskun, neysla, rótleysi, andleg veikindi og erfiðleikar við að fóta sig í lífinu eru bara nokkrar birtingarmyndir þess sem koma allar fram í Vöggudýrabæ.
Staðan strembin: drengir tveir með mönnum tveim, mönnum með vinnu, mönnum með sjarma en mönnum með tilhneigingu til túra. Kvíðinn óöryggið tortryggnin ekki beint styrkleikar í slíkri stöðu.
En Kristján fjallar ekki bara um áhrifin sem vöggustofuvistin hefur haft á fjölskyldu hans, heldur einnig áhrifin sem hún hefur haft á hann sjálfan. Vöggudýrabær er því sannkölluð kynslóðasaga þar sem harmur lífsins birtist okkur ljóslifandi í sterku ljóðmáli. Bókin er óvenjuleg og tilraunakennd og þótt höfundur seilist stundum í húmor og absúrdisma í textum sínum þá er Vöggudýrabær fyrst og fremst sláandi lýsing á þeim mikla skaða sem vöggustofur hafa valdið á íslensku samfélagi.
Undir lok bókar eru orðsifjar orðanna vagga og stofa endurtekin en í þetta sinn með viðbótinni „opinber skjöl bera í sér merkinguna … / málalok …“. Þrátt fyrir að vöggustofunefnd hafi lokið rannsókn sinni er Vöggustofumálinu síður en svo lokið. Vöggudýrabær Kristjáns Hrafns Guðmundssonar er tímabært innlegg inn í þetta mál og mun án efa verða til þess að dýpka umræðuna um vöggustofur.