Auðvitað hefur elsku Auður sýnt það og sannað að hún getur skrifað um allt, en mér fannst það samt spennandi dæmi að lesa bók eftir hana þar sem að hún skrifar um karlkyns aðalpersónu í held ég bara fyrsta skipti, eða allavega eitt af fáum. Að maður tali nú ekki um afrekið að skrifa skáldsögu um slaufun, ég var svo spennt fyrir því að hún væri að taka það af sér.
Mér fannst Högni aðallega falleg bók - hún kafar djúpt og með mikilli virðingu ofan í sálarlíf manneskju og virðir fyrir sér líf hennar; fortíð, nútíð og framtíð. Það er mjúkt, opið og greinandi, á sama tíma og hún hylmir ekki yfir með neinu - breyskleikinn, gallarnir, mistökin eru þarna allan tímann og vel sjáanleg. Hún heldur manni líka alveg við efnið, ég las hana nánast í einni lotu.