Eftir hrakfarirnar í marmaraborginni standa Elísa og gæslumennirnir frammi fyrir krefjandi ferðalagi sem fer með þau um gjörvallt landið. Hættur leynast víða, sterkar tilfinningar krauma og ungmennin þurfa að taka erfiðar ákvarðanir. Lokaorrustan við steingyðjuna er framundan og örlög allrar Renóru hvíla á herðum þeirra. En hvað mun slík orrusta kosta þau?
Loksins, hugsaði Elísa og skjálfti fór um líkamann.
Fyrir framan þau glitti í furðulegt hellisop. Það var eins og jörðin væri að geispa en hefði ekki náð að loka aftur munninum. Elísa hafði séð þennan helli í draumi. Svolítið var í þann mund að gerast sem hafði ekki gerst í fimm hundruð ár.
Hún lokaði augunum og hugsaði; Þetta verður að virka!
Kristín Björg Sigurvinsdóttir útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2018 en ákvað svo að elta drauminn um að skrifa bækur. Dóttir hafsins var hennar fyrsta skáldsaga og var hún tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2020. Bronsharpan er önnur bókin í bókaflokknum og var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna árið 2022 ásamt því að vera valin besta barna- og ungmennabók ársins 2022 af bóksölum. Orrustan um Renóru er lokabindið í Dulstafaþríleiknum.
Ég vil bara segja takk kærlega fyrir mig! Bækurnar eru æðislegar og ég skemmti mér konunglega! Ég vil líka hrósa kápu hönnuðinum. Það var það sem dró mig fyrst að Dóttir hafsins, kápan er svo sturlað falleg! Ég mæli með þessum þríleik hiklaust við alla, unga sem eldri og ég lofa góðri skemmtun. Þessar bækur eru léttar og skemmtilegar en á sama tíma með svo mikilli dýpt og tilfinninga rússíbana! Mér þykir ótrúlega vænt um þessar bækur 🥹
Þriðja og loka bókin um Elísu. Mér fannst hún mjög góð, vel skrifuð og frekar spennandi. Sá atburðarásina ljóslifandi fyrir mér. Er 45 ára og þessi þríleikur er fyrir alla aldurshópa. Var pínu ósátt við endirinn því að mig langaði í meira, langaði að vita framhaldið. Ég vona svo í innilega að Kristín Björg skrifi fjórðu bókina og að við fáum að heimsækja fjólubláu borgina aftur
Ég veit ekki hver uppáhalds bókin mín er en mögulega þessi? maður þekkir alla karaktera svo vel. Ég mun svo lesa þessar bækur aftur bráðum því ég bara verð. Ég ætla alltaf að mæla með þessum bókum fyrir fólk :)) Kristín þú ert svo hæfileikarík og hugmyndaflugið þitt er top tier! elska elska og vonandi skín það líka í framtíðinni <3
Orrustan í Renóru er síðasta bókin í Dulstafaseríunni. Ég hef beðið spennt eftir bókinni og hún stóðst svo sannarlega væntingar. Hún er spennandi, skemmtileg og vel skrifuð. Mæli með þessari bók fyrir alla sem hafa gaman af ævintýrum.