Una rambar á barmi kulnunar og er send vestur á firði í nýstofnað meðferðarúrræði, Kul. Þar dvelur lítill hópur fólks í þorpi við sjávarsíðuna í svartasta skammdeginu og glímir við það sem Hákon, forsprakki Kuls, segir mikilvæ að horfast í augu við myrkrið innra með sér. Fyrir vestan fer fortíðin að sækja á Unu, minningar frá æskuárunum í litlu kjallaraíbúðinni með mömmu og Magga bróður.
Þegar hrikta fer í stoðum meðferðarinnar, og ekki síður sjálfsmyndar Unu, tekur allt það sem hefur frosið fast innra með henni að losna úr læðingi og veruleikinn fer á flot.
Kul er fyrsta skáldsaga Sunnu Dísar Másdóttur en áður hefur hún sent frá sér ljóðabókina Plómur sem var tilnefnd til Maístjörnunnar. Sunna er jafnframt ein Svikaskálda sem gefið hafa út fjórar ljóðabækur og skáldsöguna Olíu sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hún starfar ennfremur sem þýðandi, leiðbeinandi í ritlist og bókmenntagagnrýnandi.
Höfundurinn er sjálf gagnrýnandi í Kiljunni og mér finnst alltof félagssálfræðilega flókið að fara að gefa bók eftir hana stjörnur á samfélagsmiðli. En bókin er vel skrifuð og áhugaverð innsýn í líf konu sem dregur alls konar djöfla og er í talsverðum átökum við bæði sjálfa sig og heiminn – ég átti hálfvegis von á að fá skýrari niðurstöðu en var ánægður að fá hana ekki, að lífið væri bara áfram svolítið flókið.
Bókin gerist fyrir vestan en ég las hana veðurtepptur í Reykjavík. Sem hafði eitthvað að segja.
Hélt mér vel. Hún kemur í orð líðan sem ég átti engin yfir. Þær eru býsna margar íslensku skáldsögurnar sem fjalla um áföll í æsku (skrítin tíska) og úrvinnslu þeirra. Þessi á sér "óvænt" tvist í lokin sem var hressandi
Frelsið býr í fjallinu. Mér fannst þessi bók algjörlega frábær og ákkúrat það sem ég þurfti á þessum tímapunkti - í höfuðborg um hásumar. Elskaði að lesa um kuldann og myrkrið í smábæ úti á landi. Hljómar eins og fullkomið frí frá öllu áreiti að lok sig af í myrkrinu, stunda sjóböð og láta elda ofan í sig súpur. Vel skrifuð og öðruvísi. Góð lýsing á því hversu flókið þetta líf er.. jafnvel þó maður sé ungur og barnlaus.
Náði ekki nægilega góðri tengingu við þessa bók. Leið eins og ég hefði lesið hana áður og fannst hún jaðra við að vera klisjukennd í þessu ónefnda og dimma þorpi með þessa þreyttu og ringluðu konu í aðalhlutverki. Það var fátt sem kom mér á óvart og söguþráðurinn jafnvel frekar fyrirsjáanlegur. Notkunin á tungumálinu var þó fjarska falleg á köflum.
Sunna Dís er ofurnæm í skrifum sínum og ljóðræn. Svo margar fallegar myndir í sögunni, heil bíómynd í orðum. Hlakka til að lesa meira eftir hana. Hefði mátt stytta? Já kannski.
Ég varð þreytt á að lesa þessa bók. Sem betur fer tengi ég ekki við líðan Unu, aðal sögupersónunar þar sem ég hef ekki upplifað kulnun. Ég var samt spennt að vita hvernig bókin myndi enda.