Ástin í lífi Karenar deyr. Hún mætir í jarðarförina óboðin, situr aftast og segir engum hver hún er. En eftir að hafa borið eina fortíð til grafar skýtur önnur upp kollinum. Hún sér Ými, kollega sinn, út um gluggann í erfidrykkjunni þar sem hann virðist ætla að fara sér að voða. Í kjölfarið er þeim hrundið af stað í ferð þar sem þau þurfa að horfast í augu við hvaða hlutverk þau spila í lífi hvors annars, í flóknu dansverki og hvaða nýju hlutverk standa þeim til boða. Moldin heit fjallar um ástina, listina, sorg og missi.
„Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur er forvitnileg og vel skrifuð skáldsaga um listsköpun, sorg og missi. Með ljóðrænum stíl eru dregnar upp sterkar og áhrifaríkar myndir um leið og leikið er skemmtilega með form textans þannig að hann minnir einum þræði á dans – eina af þeim listgreinunum sem eru í brennidepli sögunnar. Á áreynslulausan hátt flakkar frásögnin fram og aftur í tíma þannig að lesendur kynnast aðalpersónum verksins mæta vel og fá aukinn skilning á flóknum samskiptum þeirra við aðra.“ Úr umsögn dómnefndar Nýræktarstyrks Miðstöðvar íslenskra bókmennta.
Mjög áhugaverð bók! Ég kunni rosa vel að meta marga búta sem voru sérlega fallega skrifaðir; prósalegir. Ég upplifði bókina svolítið eins og kvikmynd, aðallega út af klippingunum ef svo má kalla, og út af sjónrænni uppsetningu (sem er á allra vörum finnst mér). Mér fannst stundum pínu erfitt hvað höfundur lét lítið uppi um ýmislegt, kannski þarf ég að æfa mig meira... en rauða letrið var annars 💅, elska svona natni. Persónusköpunin er mjög djúp og sannfærandi, og mjög næs nákvæmar umhverfislýsingar. Mér finnst samtölin sýna að höfundurinn er ungur; þau eru módern og ég fíla það. Samt er heildarsvipurinn eitthvað svo tímalaus. Ég hlakka til að sjá hvað höfundur gerir næst!
Mjög flott og vel skrifuð bók, hafði mjög gaman og gott af henni, dýrkaði hana jafnvel, en er með bráðaofnæmi fyrir því þegar lýsingar eru *svona* (td þegar einhver hlær og það er skrifað svona *hlær*) sem er mikið um í þessari, en það er mitt vandamál
frábær! held eg hafi ekki lesið bok eftir höfund eins nálægt mer i aldri og það var svo gaman🤗 sumt sem eg væri til i að spyrjast fyrir um en annars ahugaverðar pælingar og skemmtilegar viðlíkingar👍 (fullmikið af áminningum á að vera bein i baki fyrir minn smekk, I literally can’t!!!)
Veit ekki með sjálfa söguna, sem fer dálítið hingað og þangað, en hún er skrifuð af ofsalegri stílgáfu – það eru málsgreinar og senur og setningar hér og hvar sem kippa gersamlega undan manni fótunum.
Dálítið uppskrúfuð ástamála/tilfinninga svif. Oft góðir textasprettir - en skilur lítið eftir. Og allt of mikið á ensku ! Heilu samtölin. Fælir mjög frá.
Ljóðræn og falleg bók um ást, missi og upprisu. Ég set aðeins spurningamerki við að hafa svona mörg samtöl á ensku í íslenskri bók. Það er ekki hægt að reikna með að allir lesendur bókarinnar séu góðir í ensku.
Skemmtilega öðruvísi bók. Uppsett á frumlegan hátt sem eykur stemmninguna. Sagan gerist bæði í núinu og endurliti aðalpersónunnar Karenar. Hún er dansari og á sama tíma og hún er að undirbúa sig fyrir frumsýningu með flokknum sínum byrjar hún í sambandi sem svo endar snögglega án þess að hún viti ástæðuna. Þegar hún sér svo dánartilkynningu mannsins fer hún að rifja upp.
Skáldsaga sem er drifin áfram af óvanalega ljóðrænum og fallegum prósa. Söguþráðurinn er dramatískur en engu að síður hægur og lætur stundum lítið yfir sér, sem hæfir ljóðrænunni vel. Samtöl sett upp á snilldarhátt sem ég hef ekki séð áður (og vildi að mér hefði dottið í hug sjálfri!). Margt ósagt, sem mér finnst fallegt. Hlakka til að lesa fyrri skáldsögu Birgittu.
Vá. Svo miklar tilfinningar sem sitja eftir. Hlátur og grátur meðan hún var lesin. Fallega og vel skrifuð, gleypti mig alveg. Erfitt að koma tilfinningunum eftir lesturinn í orð. Hefði viljað hafa hana lengri svo ég gæti haldist í heimi hennar lengur.
Verulega sterk bók. Ótrúlega ljóðræn og ég elska að manni var treyst fyrir því að skilja viðburðina, höfundur var ekki að mata mann. Hefði gefið 5 stjörnur ef ég hefði farið að gráta