Mig langaði að elska þessa bók, hún hafði allt til þess að bera. Falleg forsíða og lokkandi lýsing á söguþræði. Svo var reyndin sú að sagan var innihaldsrýr, tilgerðarleg og ég náði alls ekki að tengja við hana.
Aftan á bókinni segir:
Saga þeirra systkina Tinnu og Skorra var saga um hrylling og ofbeldi ástarinnar, þetta var saga um grimmd örlaganna, þetta var saga um það hversu lítið manneskjur hafa um það að segja hvernig líf þeirra fer. En þetta var líka saga um venjulegan mann. Mann sem hafði – til að orða það groddalega – drepið systur sína og vildi að ég skrifaði um það til þess að heimurinn vissi að honum hefði aldrei gengið nema gott eitt til.
Stór orð. Heillandi og dulúðlegt. Nema hvað þetta er alls ekki saga um hrylling eða ofbeldi ástarinnar og ekki heldur um grimmd örlaganna. Þetta er alls ekki saga um það hversu lítið manneskjur hafa um það að segja hvernig líf þeirra fer, heldur lýsir hún því einmitt hvernig manneskjur skapa sér örlög með ákvörðunum sínum og gerðum. Þetta er heldur ekki saga um mann sem hafði drepið systur sína, því það var bara alls ekki það sem gerðist. Það er líka ljóst að þetta er ekki saga um mann sem hafði gengið gott eitt til því það eina sem þessi bók fjallar um er að fyrrgreindur maður gerir ekkert nema það sé í eigin þágu og gróða og er tilbúinn að ganga virkilega langt í því að vernda eigin leyndarmál.
Það fór gríðarlega í taugarnar á mér hversu tilgerðarleg bókin er. Langar heimspekilegar vangaveltur og heimspekilegar túlkanir á fólki, aðstæðum og landslagi sem ég tengdi engan veginn við. Ég hefði frekar viljað fá að túlka þetta allt á minn hátt, lesa það sem mig langaði í söguna og eiga mína eigin upplifun af henni. Það var ekki í boði því það var alltaf einhver heimspekilegur besserwizzer sem sveif yfir vötnum og sagði mér hvað og hvernig ég átti að lesa í allt.
Svo voru það ljóðrænu kaflarnir... jemundur minn eini. Í hvert sinn sem þeir komu langaði mig að leggja bókina frá mér og hætta. Gáfu sögunni ekkert nema tilgerð.
Söguþráðurinn, persónur, leikendur og tengsl milli þeirra voru líka torskilin, samhengislaus og skrítin.
Ef þú ert að hugsa um að lesa þessa bók þá mæli ég eindregið með því að þú endurhugsir þá ákvörðun.