Söguleg skáldsaga um misjöfn kjör og hverfula gæfu, spunnin út frá ævi þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar og einkennilegum atburðum sem urðu í Öxnadal þegar hann var ungur. Sagan birtir nýja og magnaða sýn á skáldið og það samfélag sem fóstraði hann, jafnt í solli stórborgarinnar sem fátækri sveit á norðurhjara – andstæður sem mótuðu bæði manninn og verk hans.
Skáldið fellur í stiga um miðja nótt og fótbrotnar. Að morgni er hann færður á spítala þar sem hann liggur fársjúkur og rifjar upp sælar og sárar stundir ævi sinnar. Á hugann leita meinleg örlög smaladrengs í sveitinni heima en fornar ástarraunir svífa líka um hugskotið, allt sem var sagt og ósagt.
Arnaldur Indriðason hefur verið vinsælastur íslenskra höfunda heima og erlendis í aldarfjórðung. Bækur hans hafa verið þýddar á yfir fjörutíu tungumál og selst í tugmilljónum eintaka. Ferðalok er tuttugasta og áttunda skáldsaga hans
Arnaldur Indriðason has the rare distinction of having won the Nordic Crime Novel Prize two years running. He is also the winner of the highly respected and world famous CWA Gold Dagger Award for the top crime novel of the year in the English language, Silence of the Grave.
Arnaldur’s novels have sold over 14 million copies worldwide, in 40 languages, and have won numerous well-respected prizes and received rave reviews all over the world.
Ætla ekkert að útskýra það frekar, en þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir Arnald. Ég les hægt en þetta var virkilega flott uppsett og þægileg bók til lestrar. Lýsingar á staðarháttum og "tungumálið" sem notað er fannst mér æðislegt og gaman að lesa, en sagan sjálf var öðruvísi uppbyggð en ég átti von á. Hefði getað ímyndað mér öðruvísi endi en allt í allt var þetta skemmtilegur lestur.
Lala… vonbrigði, því Sigurverkið var svo góð. Sundurlaus og endurtekningar of miklar. En samt : unaðslegt að rifja upp kveðskap Jónasar - eins og sætukoppar á tungu…..
Bókin er vel skrifuð og á tíðum hjartnæm. Meginfrásögnin, um stórskáldið sem liggur fársjúkt, er góð: innileg og þaulhugsuð, svo að þessir þekktu menn fá annað líf. Bókin segir öðrum þræði frá hvarfi smaladrengs í Öxnadal. Hér er eins og fari saman tvær bækur, önnur talsvert síðri, og höfundi tekst ekki vel að tengja þær saman, sérstaklega þegar fer að líða á seinni hlutann. Mér fannst fyrst og fremst sem tónninn væri skakkur í umfjöllun um Kelamálið. Jónasi hefur verið feigðin hugleikin en það er ekki að sjá í hans kveðskap að honum þyki dauðinn spennusaga, heldur frekar sorgarsaga. Frásögnin hefði mátt taka meira mið af því. Kannski hefur áhugi þjóðarinnar á krimmum komið illu til leiðar: eytt og spillt tilfinningunni fyrir því, sem fagurt er og skáldlegt. Mér fannst bókin byrja vel en hún stóð ekki undir væntingum. Tilvísunum í kveðskap Jónasar er misvel beitt, og þær verða frekar klisjukenndar á köflum. Þá kemur fram undarleg túlkun höfundar á ljóðinu Ferðalokum, að sveinninn sem þráir hryggur í dalnum sé ekki Jónas, heldur vinur hans sem langar í skóla. Ég hef heyrt sagt að meðalskáld geti skrifað allar sögur nema sögu af stórskáldi. Það má vel vera.
Mér fannst þessi bók mjög áhugaverð og læsileg eins og flestar bækur Arnalds. Hann skrifar mjög góðan texta og tekst að halda manni við efnið þótt þetta sé ekki spennubók sem slík. Ég byrjaði á henni í gær og kláraði í dag. Hvernig hann fór jöfnum höndum yfir Jónas á banalegunni og Jónas á unga aldri var vel gert, ekkert skemmtiefni í sjálfu sér, en fróðlegt. Sömuleiðis hvernig hann fléttaði umfjöllun um afdrif Kela, smaladreng sem Jónas var mjög upptekinn af, var vel gert.
Absolutely fantastic. I loved the story and the dramatisation of Jonas's last days. It was also nice to read about living in rural Iceland in the early 19th century that wasn't all cold and miserable. Loved the references to famous men of science.
Arnaldur er bestur í sögulegum skáldsögum eins og í þessari. Jónas Hallgrímsson er ekki áfengissjúk helgimynd heldur gæddur verður mannlegur í Ferðalokum.
Frekar þurr saga um Jónas Hallgrímsson en þó að mörgu leyti fróðleg. Bókin fjallar um tilurð eins frægasta ljóðs Jónasar, Ferðalok og fylgir höfundinum hans síðustu daga.
Soldið melódramatísk en almennt mjög vel skrifuð og áhugaverð bók. Mæli með að hafa ljóðasafn Jónasar Hallgrímssonar við höndina við lesturinn til að fletta upp öllum þeim ljóðum sem vitnað er í.
Textinn er auðlesin og vissulega er sögusviðið heillandi, en mér fannst þessi litla morðsaga sem var bætt þarna við í endurminningum Halldórs ekkert það spennandi og var aðeins sem einhverskonar fylling til að auka blaðsíðutalið.