Í smásagnasafninu Innlyksa sameina þrír höfundar raddir sínar í margslungnum frásögnum af ókennilegum veruleika. Í fimmtán sögum er lesandanum varpað ofan í lýsingar á bláköldum hversdegi yfir í hryllingsraunsæi og framtíðarskáldskap.
Saman takast sögurnar á við þungamiðju verksins, einangrun, einmanaleika og innilokunarkennd. Hvað gerir manneskjan þegar öll sund eru lokuð?
Innlyksa er samvinnuverkefni þriggja höfunda sem hafa vakið athygli síðustu ár með skáldsögum sínum og ljóðabókum. Það eru þær Díana Sjöfn Jóhannsdóttir, Rebekka Sif Stefánsdóttir og Sjöfn Asare.
„Sögur sem smjúga inn að merg. Raunsæi og annarleiki fléttast saman á áhrifaríkan hátt í anda Svövu Jakobsdóttir.“ - Berglind Ósk, rithöfundur
„Innlyksa er tilraun til að brjótast út. Grípandi sögur og samspilið áhugavert á milli höfundanna þriggja.“ - Steinar Bragi, rithöfundur
Rosalega flott safn sem blandar saman raunsæi, súrrealisma og hrylling sem gerir lesanda ómögulegt að líta burt. Sögurnar stóðu allar vel sjálfar en saman myndast dásamleg heild sem ég hvet öll (sem eru ekki of klígjugjörn) til að lesa. Helst stóðu sögurnar Sprungið, Vakning og Pitturinn upp úr. Sprungið var hjartnæm og einlæg og fjallaði á fallegan hátt um erfið málefni. Vakning bjó yfir sterkri persónusköpun og byggði vel upp spennuna strax í fyrstu málsgrein. Pitturinn var ógeðfeld en falleg á sama tíma, súrrealísk en samt svo raunveruleg og fær lesanda til að hugsa þrátt fyrir lengd textans.
Þetta er bara stórkostlegt safn af frábærum smásögum. Las þar til augnlokin þyngdust og hótuðu að lokast því ég bara vildi lesa þær allar og það strax!
sko okei.... ég tók hana með mér út í reykpásur á skrifstofunni. Ég kláraði svona 70% og svo var skiladagur á bókasafninu og ég skilaði henni bara. Áhugaverðar sögur, mér fannst þessi um feitu konuna og mömmu sína fokking ÁTAKANLEG, en fyrir utan svona mjög veikan feminískan þráð þá var ekki mikið sameiginlegt á milli sagna, og höfundarnir ekki með nóg og einstakar raddir til að ég gæti greint hver hafði skrifað hverja sögu. En ef að þú ert með blæti fyrir smásagnasöfnum... go for it