Árið 1802 höguðu örlögin því þannig að ungur þeldökkur maður, þræll og stríðshetja frá Jómfrúreyjum, danskri nýlendu í Karíbahafi, settist óvænt að á Djúpavogi, kvæntist og gerðist verslunarmaður og bóndi. Nafn hans hefur verið sveipað ljóma en lítið um hann ritað. Hvers vegna kom hann til Íslands? Hvernig brugðust landsmenn við honum og hvernig brást hann við þeim? Saga Hans Jónatans varpar ljósi á nýlendutímann, þrælahald, kúgun og viðskipti, uppreisn og frelsisþrá. Hún teygir sig yfir höfin, frá Vestur-Afríku til Jómfrúreyja, til Danmerkur og Íslands. Sagan á brýnt erindi við samtímann – enn er tekist á um mannréttindi og innflytjendur, samskipti við fólk sem er „öðruvísi en við“.
Verðugt verkefni og margt hérna sem mér þótti áhugavert. Annars voru alltof margar opnar spurningar nánast í hverri málsgrein sem voru farnar að fara mjög í taugarnar á mér undir lok lesturs. Ég skil að skortur á heimildum geri það að verkum að menn þurfi að spekúlera um margt - en þetta var stundum bara einum of mikið. Einnig er hægt að álykta um ýmislegt án þess að spyrja endalausra spurninga. Þannig mátti oft stíga fastar til jarðar en að sama skapi mátti sleppa því alfarið á öðrum stöðum. Að því sögðu fannst mér höfundur gera vel grein fyrir umhverfi og samhengi ævi Hans, þótt á köflum hafi mér fundist hugtakanotkun og hugmyndir höfunds heldur barnslegar og gamaldags.
Mér finnst þessi efniviður duga mátulega í heila bók, þar sem hún tengir saman Ísland og þrælaverslun á árnýöld á frumlegan hátt, þó svo að hér sé varla um neina ævisögu að ræða. Einnig held ég að útgáfa sem þessi hjálpi til við að skáka ýmsum gömlum hugmyndum um að Ísland hafi verið meira einangrað en það var í raun og veru.
Mjög fróðlegt efni og áhugaverð saga þrælsins Hans Jónatans. Það er samt eins og eitthvað vanti í bókina því heimildir höfundar eru af skornum skammti. Sá fyrir mér að það hefði mögulega hentað betur að gera sögulega skáldsögu um Hans Jónatan og gæða hann og hans aðstæður þannig meira lífi sbr. Reisubók Guðríðar Símonardóttur.
Mjög áhugaverð ævisaga manns sem fæddist í þrældóm á eyju í Karíbahafinu, en náði að "stela" sjálfum sér, flúði til Íslands og stofnaði þar fjölskyldu.
Merkileg saga af merkilegum manni sem nægir því miður varla í heila bók vegna heimildaskorts. Því neyðist höf. til að teygja lopann með ýmsum misjöfnum hugleiðingum um kynþáttahyggju, sjálfsmynd og sjálfsvitund Íslendinga, frelsi og ánauð, nýlendustefnu o.s.frv. Margt af því er ágætt en annað nokkuð langsótt eða langdregið. Það væri líka áhugavert að vita hvort málfar og orðræða bókarinnar hafi verið borin undir einhverja svarta Íslendinga eða svarta fræðimenn á sviði kynþáttahyggju, nýlendustefnu eða þ.u.l.
Mjög áhugaverð saga en á mörkunum að efniviðurinn dugi í heila bók. Einhver benti á að það hefði ef til vill verið betra að skrifa sögulega skáldsögu byggða á ævi Hans Jónatans og ég get vel tekið undir það.
Afar áhugavert efni en of lítið til af heimildum til að skrifa svona langa bók. Hefði þurft sviðsetningar inn a milli eða skrifana sem heimildaskáldsagu með athugasemdum og útskýringum.
Áhugavert efni en heldur leiðinlegt aflestrar. Hefði líklega verið betri sem söguleg skáldsaga - mér leiddust óskaplega sumar langsóttari kenningar/pælingar höfundar, sem augljóslega komu til vegna heimildaskorts..