Afdalabarn fjallar um æsku og einangrun, fóstur og föðurást, ást og ástleysi, fortíð og nútíma, sveitasamfélag á síðustu metrunum sem hnusar treglega af nýjum tíma. Hér kemur einnig stéttamunur til tals, sem og hinn mikli menningarmunur á möl og dal, sem hlýtur að hafa verið höfundi hugleikinn, konu sem lengstum bjó í sveit en flutti loks á Krókinn og skrifaði sig úr honum sauðárgráum inn í prentvélarnar fyrir sunnan.
Alveg einstaklega falleg saga. Sögur af íslenskri stéttatogstreitu gefa hann alltaf góðan. Alveg týpísk saga af einhverju fólki í einhverri shitty sveit – ég fíla það samt svo mikið betur en nútímasögur af einhverjum alkóhólíseruðum lúserum að halda framhjá.
Fyrsti sveitarómansinn sem ég hef lesið þar sem ástarsagan er í raun búin áður en bókin hefst. Ég fór að gráta á ákveðnum tímapunkti því ég óttaðist endinn en var sátt að lokum. Takk fyrir mig Guðrún mín.
Eftir lestur Dalalífsþrennunnar hefur Guðrún frá Lundi verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér og markmiðið að lesa allar hennar bækur. Afdalabarn er falleg sorgarsaga ef svo má segja. Ung kona, kotbóndadóttir, deyr af barnsförum eftir vist hjá sýslumannshjónum fjarri heimahögum. Hún og sýslumannssonurinn felldu hugi en áttu aldrei séns stöðu sinnar vegna. Barnið elst upp í afdölum hjá móðurforeldrum, og þykir nokkuð kynlegur kvistur. Þegar faðir hans, óafvitandi um soninn og nú sjálfur sýslumaður, fær embætti í sveit drengsins fara málin að þróast á áhugaverðan hátt fyrir afdalabarnið. Svo gaman að lesa skrifin hennar Guðrúnar og áhugaverður eftirmáli Hallgríms Helgasonar í lokin
Hef ekki lesið mikið eftir Guðrúnu en feginn að ég byrjaði á þessari. Hún er hröð, hnitmiðuð og eins og eftirmáli Hallgríms segir, verk fullþroska höfundar. Það sést langar leiðir að hér er á ferðinni höfundur sem hefur fullkomið vald á list sinni og hvernig hefur framkvæmir hana. Það lætur mig langa til að leggja í verk eins og Dalalíf sem er mun stærra í sniðum.
Þetta líf sem hún lýsir er óþægilegt og fallegt í senn, á tíma þar sem maður hræðist sífellt að á næstu blaðsíðu verði öllu hleypt í uppnám því þannig hafi tíðarandinn verið. Enginn getur slakað á því dauði og djöfull er handan við hornið.