Næst á eftir tei og vatni er bjór vinsælasti drykkur jarðarbúa og nánast hvert land jarðar á sína sérstöku bjórsögu. Á síðustu áratugum hefur áhugi á bjórmenningu og bjórgerð aukist víða um lönd eftir því sem örbrugg húsum hefur vaxið fiskur um hrygg og framboð af fjölbreyttum bjórtegundum aukist.
Stefán Pálsson og Höskuldur Sæmundsson hafa um árabil frætt Íslendinga um lystisemdir bjórsins í hinum stórvinsæla Bjórskóla og miðla nú af þekkingu sinni í fyrstu bjórbókinni sem kemur út á íslensku í áraraðir. Í félagi við Rán Flygenring fara þeir í heimsreisu með hjálp 120 bjórtegunda sem allar eiga það skilið að menn dreypi á þeim einhvern tíma á lífsleiðinni.
Frábær bók og skyldulesning fyrir alla bjórnörda. Höfundar taka sig ekki of alvarlega en koma efninu þó afar vel til skila. Bókin er uppfull af ótengdum, handahófskenndum fróðleik, sem gerir lesturinn einmitt mjög skemmtilegan. Bjórvalið er fjölbreytt og ekkert út á það að setja, helst að ég sakni þess að hafa ekki efnisyfirlit sem væri flokkað eftir bjórstíl, brugghúsi og upprunalandi.
Myndskreytingarnar eru skrýtnar, en það er ákveðinn sjarmi yfir þeim og nokkrir mis vel faldir brandarar.
Nú ligg ég á bæn og vona að Stefán sendi næst frá sér bók um Sval og Val....