„Stundum læt ég mér detta í hug að prófa eitthvað nýtt. Ég hef verið í bókaklúbbi, stundað Zumba, gengið á fjöll og farið í sjósund. Ekkert af þessu höfðar sérstaklega til mín en það hefur verið skárra að hafa eitthvað við að vera. Eitthvað til að dreifa huganum.“
Starfsferill Diddu Morthens er að engu orðinn, börnin löngu farin að heiman og eiginmaðurinn er úrvinda öll kvöld. Hún hangir í tölvunni til að drepa tímann og dag einn býr hún til gervimenni á netinu til að hefna sín á gamalli bekkjarsystur. Atlagan heppnast svo vel að Didda ræðst í flóknari aðgerðir sem krefjast einbeitts brotavilja.
Sprenghlægileg saga sem bar sigur úr býtum í Nýjum röddum, handritasamkeppni Forlagsins.
Sigríður Pétursdóttir er kvikmyndafræðingur og vann lengst af hjá RÚV við dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi. Hefnd Diddu Morthens er fyrsta skáldsaga hennar.
Fljótlesin nóvella, sem betur fer. Alveg lipurlegur og jafnvel hnyttinn á köflum texti, þó færðist aldrei bros yfir varir við lesturinn, eitthvað sem vantaði upp á.
Hnyttin og auðlesin bók sem greip mig strax. Rithöfundur ver ekki of miklum tíma í að endursegja samtöl og lýsa atburðum að óþörfu. Skemmtilega hröð og hressandi bók.
Bókmenntir um miðaldra fólk í sálarkrísu eru klassík hér á landi, en yfirleitt ekki minn tebolli. Þessari er lýst sem bráðfyndnari, en mér stökk varla bros yfir þessu og dauðleiddist þrasið í aðalpersónunni undir miðbik sögunnar, og sagan fór stundum svo hratt yfir söguna en stundum svo löturhægt að mér fannst erfitt að tengjast henni.