Í þessari mögnuðu skáldsögu fylgjum við lífshlaupi konu sem elst upp á heimskautasvæði á tímum mikilla umhverfis- og samfélagsbreytinga. Líf hennar tekur stakkaskiptum og hún flækist inn í atburðarás sem flytur hana yfir heimshöfin. Á einmanalegri ferð sinni um ólík vistkerfi sér hún gjörbreyttan heim og rifjar upp örlög horfinna ástvina, sem og heimsins sem hún kveður.
Þú sem ert á jörðu er hugleiðing um hamfarahlýnun, útdauða og mannmiðaða sýn á veröldina. Hér er maðurinn ekki guð heldur tilheyrir náttúrunni og er jafn háður kenjum hennar og aðrar lífverur á jörðinni.
Nína Ólafsdóttir er fædd í Reykjavík en búsett á Akureyri ásamt eiginmanni og syni. Hún er menntuð í líffræði og hefur stundað rannsóknir á sviði sjávarvistfræði, m.a. á Svalbarða. Hún hlaut Nýræktarstyrk Miðstöðvar Íslenskra bókmennta árið 2022 fyrir handritið að Þú sem ert á jörðu sem er hennar fyrstu bók.
Hér er á ferðinni snilldarlega vel skrifuð dystópía. Fyrsta verk höfundar en á því er enginn byrjendabragur. Þessi saga sat djúpt í mér eftir að ég las hana. Hún er svo fallega skrifuð, stíllinn látlaus, ritaður á glæsilegri íslensku. Söguþráðurinn er harmþrunginn en um leið fallegur, fjallar um nístandi einsemd, en líka fallegt samband manneskju og dýrs. Um samband mannkyns og náttúrunnar. Þetta er stórkostleg bók sem ég mæli heilshugar með.
Þessa las ég hægt og rólega, enda ekki hægt að gleypa hana í sig á einu kvöldi. Áhrifamikil frásögn og svo ótrúlega fallegur hrynjandi og orðaforði. Algjör konfektmoli sem fær lesanda til að hugsa.
Afar vel skrifuð bók, heimsmyndin í sögunni er óhugnanleg en sagan samt falleg. Sögusviðið er ef til vill dystópískt en líklega er sagan sem er sögð og atburðirnir sem hún lýsir eitthvað sem mun raungerast í náinni framtíð. Mæli mikið með nema fyrir þá sem skilja ekki hvernig loftslagsbreytingar virka
Alveg svakalega vel skrifuð og falleg bók. Sagan segir frá Arnaq og hundinum hennar og ferðalagi þeirra í gegnum mismunandi vistkerfi. Hún lifir í heimi sem hefur tekið grimmt við afleiðingum loftslagsbreytinga; þar eru jöklarnir að bráðna og veðrið hefur breyst svo mikið að hún þekkir það varla lengur. Sagan er mjög gott dæmi um hvernig loftslagsskáldskapur getur fangað bæði raunveruleg áhrif og tilfinningalegan þunga loftslagsvandans.
Frumleg og fallega skrifuð saga sem vekur mann til umhugsunar um manninn, lífríkið og framtíð okkar allra á þessari jörðu. Það er margt á seyði í samtímanum sem gerir þessa sögu svo mikilvæga akkúrat núna. Ég á sannarlega eftir að lesa þessa bók aftur því mig grunar að hún dýpki með hverjum lestri.
Þetta er ein besta skáldsaga sem ég hef lesið lengi, og mun án efa skera sig úr í jólabókaflóðinu hér á Íslandi. Þetta er skáldsaga um samtímann og framtíðina--hún varpar ljósi á brothætt samband mannsins við náttúruna og þann djúpa skaða sem við höfum valdið henni.
Sagan fylgir konu og hundi hennar, sem reka um hafið á ísjaka og berast á endanum á ýmsa staði. Mann grunar að ferðalag þeirra hefjist einhvers staðar við Grænland og endi í Skandinavíu. Náttúran sjálf og landslagið hafa að miklu leiti staðið óræðar hörmungar af sér, en þéttbýlisstaðirnir sem þau koma til eru yfirgefnir, á kafi eða á annan hátt mótaðir af hækkandi sjávarborði. Skáldsagan dregur þannig upp áhrifaríka sýn á heim sem hefur tekið stakkaskiptum eftir ónefndar hamfarir (sem eru þó líklega af völdum hamfarahlýnunar og annarra þátta af mannavöldum), þótt tímasetningin sé aldrei tiltekin.
Þú sem ert á jörðu er afburðavel skrifuð— svo vel úthugsað og vandlega samið verk að erfitt er að finna orð til að lýsa því. Framúrskarandi skáldsaga. Fimm stjörnur.
---
This is one of the finest novels I have read in a long time, and it will undoubtedly stand out amid the Yuletide book flood in Iceland. It is a novel both of our present and of our future, tracing humanity’s fraught relationship with nature and the profound damage we have inflicted upon it.
The narrative follows a woman and her dog, who find themselves adrift on an iceberg, travelling by sea and eventually arriving at various locations. The impression is that their journey begins somewhere near Greenland and concludes in Scandinavia. While the natural landscape is not itself ruined, the urban spaces they encounter are abandoned, submerged, or otherwise reshaped by rising sea levels. The novel thus offers a striking vision of a world irrevocably altered by some unnamed calamity, even though its precise moment in time remains unstated.
It is written with exceptional skill—so meticulously crafted and thoughtfully composed that it is difficult to do it justice in words. An outstanding novel. Five stars. I was genuinely overwhelmed by it.
Fyrir einhverjum árum síðan las ég Veginn eftir Cormac McCarthy. Hún kom upp í hugann við þennan lestur, því sögurnar hafa viss sameiginleg einkenni. Vegurinn er um karl á ferð með ungan son sinn í gegnum eftirheimsenda landslag. Þú sem ert á jörðu er um konu á ferð með hundinn sinn í gegnum eftirheimsenda landslag. Í báðum bókum eru nær eingöngu tvær persónur. Þrátt fyrir viss líkindi þá líkaði mér Þú sem ert á himnum mun betur. Hún snerti virkilega við mér.
Hvað gerðist, hvernig heimurinn endar, stærsti hluti mannkyns deyr og mikið af dýrunum líka, er í sjálfu sér ekki alveg skýrt út, en það er sagt nægilega mikið til að sagan virkar sannfærandi. Maður getur vel séð loftlagsbreytingarnar í þessu þó það sé ekki hamrað á þeim. Það verður samt ekki aðalatriðið. Sagan snýst að miklu leyti um sambandið við hundinn og minningar um hvað hafði verið. Það er alveg yndislega bæn hundaeigenda undir lok bókarinnar.
Eina sem ég rak augun í var að eftir að hafa verið í kringum hunda í fjörtíu og eitthvað ár, þá hef ég ekki enn rekist á þann hund sem ælir og reynir ekki að borða það strax aftur. Ég er ekki að segja að það geti ekki gerst, en ég hef bara ekki rekist á það sjálfur. Þetta er auðvitað svo smátt smáatriði að það skiptir ekki neinu máli. Það eina sem ég er að segja að sagan er svo vel gerð að það eru bara svona smá atriðið sem stoppaði mig í augnablik.
Þetta er flott frumraun. Sagan er virkilega vel upp byggð, sterk og heldur út frá upphafi til enda. Endirinn er sterkur og í góðu samræmi við það sem áður var komið, ólíkt því sem mér fannst gerast í Veginum eftir McCarthy. Það er líka það að sagan hélt mér alveg frá upphafi til enda þrátt fyrir að vera bara um tvær persónur að takast á við náttúruna og nýjan heim. Nú bíð ég bara eftir hvað höfundur tekur sér næst fyrir hendur. Mig langar að lesa þá bók.
Ein af bestu bókunum sem ég hef lesið! Og fyrsta bók höfundar að auki. Ég á varla orð. Einstaklega vel skrifuð og heillandi allt frá fyrstu síðu. Á kannski ekki heima í fantasíunum þar sem þetta gæti orðið raunveruleikinn eftir nokkra áratugi.
Þú sem ert á jörðu eftir Nínu Ólafsdóttur: Afskaplega falleg bók, dapurleg og skelfileg en þó svo æðrulaus, óljós og óræð en um leið svo skýr. Mjög fljótlesin en jafnframt bók sem ætti að lesa hægt og njóta og hugleiða. PS bókakápan er líka með þeim flottari og rímar mjög vel við efni hennar.
Það er svo margt sem mig langar til að segja um þessa bók en ég þarf að melta hana aðeins lengur áður en ég get komið því almennilega í orð. En bara vá. Þvílík upplifun sem þessi lestur var.