Debutová zbierka poviedok vychádzajúcej hviezdy islandskej poviedky. María Elízabeth zaujme čitateľov sviežou, nevtieravo feministickou perspektívou a záberom najmä na život mladej generácie.
Skínandi fögur fimma. Algjör snilld, skyldulesning. Prósinn ljúfur og mjúkur eins og guðanektar og alltaf umhugsunarverður og snjall. Persónurnar ljóslifandi. Merkingarþrungið allt.
Þessi bók er mögnuð, fær fjórar og hálfa frá mér. Ég beið með eftirvæntingu eftir þessari, enda er höfundur besti bakþankahöfundur Fréttablaðsins frá upphafi (ásamt Bergi Ebba) og varð fyrir vonbrigðum með að hún skilda ekki hafa endað í einum jólapakkanum. María sýnir listilega hvað hún er næm á andrúmsloft og núninga í samskiptum á milli fólks. Karakterarnir eru allir mjög trúverðugar persónur og óþægilega kunnuglegar. Ég naut þess að lesa sögurnar og vona innlega að bækurnar verði fleiri.
Sumt í þessari bók er raunar alveg frábært - til að nefna nokkra spretti; systkinakemestrían í "ég er ekki kona, ég er sjö ára", sveiflukenndur pirringur eldri systurinnar í bland við eilífu ábyrgðartilfinninguna var sannfærandi, stemningin og samtölin í djammskvísusögunni, óyrtu samskipti fullorðna fólksins í "Mannleysunni" og síðast en ekki síst er talandi mömmunnar í "Við hljótum að sjá eitthvað þótt við förum ekkert" alveg frábær (er sú saga stútfull af vísunum í sögur Carvers?) Bravó!
Máttur smásögunnar heldur áfram að magnast. Hreinlega mjög skemmtileg lesning. Það spruttu upp mjög líflegar umræður í bókaklúbbnum. María fer mjög skemmtilega með íslenskuna og tekst einhvern veginn að smokra inn orðum sem virðast ekki eiga heima þarna við fyrstu sýn, en eru svo fullkomlega staðsett þegar upp er staðið. Hversdagslegir hlutir verða mjög spennandi í hennar fórum. Líkömum og svipbrigðum er lýst á mjög ferskan hátt. Orðið girnilegt mætir oft á svæðið. Algjör stemning.
Ég er forfallinn aðdáandi Maríu Elísabetar. Skemmtilegasti bakþankahöfundurinn, quirky, tilviljanakennd og fyndin. Þessi bók fór fram úr væntingum mínum og þær voru ekki litlar.
Það er svo einstaklega ánægjulegt þegar bækur standa undir góðu orðspori. Ég var búinn að ákveða að gefa konunni minni þessa í jólagjöf, og þess vegna sparaði ég mér að lesa hana framyfir jól. Eftir því sem jákvæðum dómum fór að fjölga hlakkaði ég meira til að lesa. Biðin var svo sannarlega þess virði.
Sögurnar í þessari bók eru hreint frábærar og höfundur nýtur sín greinilega afar vel í smásagnarforminu. Þegar ég hafði lokið lestrinum leið mér eins og þegar Zoidberg í Futurama hafði klárað síðustu dósina af ansjósum sem til var í heiminum og sagði við sjálfan mig, "Meira! MEIRA!"
7 sögur, frekar fljótlesnar - þannig að ég vandaði mig við að lesa bara eina á dag svo að ég væri ekki að rugla þeim saman. Samnt mundi ég alls ekki um hvað sú fyrsta var þegar ég var hálfnuð. Það segir mér að það sitji ekki mikið eftir. Eftir hálft ár mun ég ekki muna eftir að hafa lesið bókina.
Flestar sögurnar voru um voðalega lítið - stelpur á djamminu, systur að fara að sofa, vonlausa fjölskyldu sem í var eltihrellir sem ekkert var gert úr, sjálfselska konu sem þolir ekki meðleigjanda sinn af því henni finnst sú vera svo sjálfselsk, bröns sem aldrei varð. En það voru þarna inn á milli flottar setningar og góðar pælingar, en náðu ekki alveg nógu góðu flugi.
Frábær bók. Höfundur hefur gott vald á tungumálinu. Lesturinn mjúkur og góður. Persónusköpun til fyrirmyndar. Áhugaverðar sögur, raunverulegar aðstæður og ljóðrænar lýsingar. Allt merkingarþrungið. Ekkert slæmt við þessa bók. Fullkomin byrjun á ferlinum, hlakka til að lesa meira eftir Maríu! Fjögur og hálf stjarna, en gef hálfa í viðbót.
Bókin samanstendur af sjö smásögum. Margar þeirra fjalla um ungar konur sem eiga í erfiðum samböndum við aðra, eða eiga erfitt með að koma sinni skoðun á framfæri og standa með sjálfum sér. Sögurnar höfðuðu misvel til mín. Sumar fannst mér frekar endasleppar en í öðrum var lesandanum komið á óvart með því hvernig sagan þróaðist. Vel skrifað.
Skemmtileg & öðruvísi. Er svolítið komin á smásöguvagninn eftir þessa. Erfitt að velja bestu söguna, allar ólíkar og frábærar á sinn hátt. Negla fyrir bókaklúbb, myndi vilja ræða. Mæli með!