Eftir hneykslið með hjartað er úti um framtíð Steins í stjórnmálum. Honum er því boðin staða hjá nýstofnaðri Upplýsingastofu og falið að leiða þróun opinbers staðreyndagrunns, vitvélar sem á að gegna lykilhlutverki í baráttu stjórnvalda gegn upplýsingaóreiðu. Verkefnið lofar góðu þar til háskólanemi ber upp eldfima spurningu við vélina um áhrif nasisma á stjórnarfar á Íslandi. Staðreyndirnar er hárbeitt satíra um ólík tilbrigði við þögn, um uppgjöf andspænis voðaverkum, uppgjör sem aldrei fer fram og þolinmæði þeirra afla sem enn bíða þess í ofvæni að lýðræðis- og frelsisbylgju síðustu áttatíu ára ljúki. Skáldsaga um vélrænt vit, mannasiði og nasista.
“Það eruð nasistar, það hefur aldrei runnið af ykkur, sem klifið enn á því hvað veslings Þjóðverjar hafi verið látnir beygja sig eftir stríðið og skammast sín og geti ekki einu sinni dregið þjóðfánann að húni eins og almennilegt fólk. Þið skiljið ekki að nokkur heiður geti legið í því a skamm- ast sín. İ því ljósi veit ég ekki hversu alvarlega er hægt að taka svokallaða kristnitöku, inn við beinið eru þið enn ófor- skammaðir heiðingjar.”
Snjöll og beitt. Í byrjun bókarinnar er sagan nokkuð raunsæ og strúktúruð en svo tekur við aðeins ýktari sturlun en fyrst um sinn verður lesandinn ekkert sérstaklega var við það. Svo magnast upp skemmtilega biluð ítrun og sögumaður er í nokkuð yfirveguðu jafnvægi en á sama tíma hangandi á hjörunum. Rétt fyrir lestur bókarinnar var ég einmitt að hugsa um hversu ótrúverðuglega störfum er lýst af skáldunum í samtímasögum en þá sendir Haukur Helgi þessa djúp-meta sleggju í magann á manni, því hann rammar þetta vinnustaðahúmbúkk ótrúlega vel inn í söguna á sama tíma og hún er svona klikkuð. Sagan fjallar um íslenska nasista sem út af fyrir sig er hálkusvæði því þá óttast maður strax að þetta verði cringe (sem höfundur notar í þessari leturgerð í sögunni) en sú er ekki raunin. Ég þekkti reyndar ekki helminginn af þessum sögulegu heimildum. Vissi af þýskalandsför AK-H og tengingu Björnsson fjölskyldunnar (snjöll observation hjá Hauki með að hver kynslóð telji sig hina fyrstu til að komast að því) þannig ég átta mig illa á því hvað er skáldað og hvað ekki. Endirinn er stuttur en góður.
Tilnefning til íslensku bókmenntaverðlaunanna og jákvæðir dómar fengu mig til grípa þessa, spennt fyrir því sem koma skyldi. Aðalpersónan er áhugaverður en karakter. Einmana, miðaldra og að því er virðist mislukkaður maður og afar lélegur í samskiptum húkir einn í leiguskrifstofu þar sem hann fæst við það vandaverk að hanna staðreyndagervgreindarvél. Starf sem hann fær fyrir náðsamlega úthlutað “af flokknum” eftir að hafa verið settur til hliðar í samfélaginu. Alla bókina er verið að reyna að fínstilla vélina þannig hún láti ekki viðkvæmar upplýsingar um nasisma á Íslandi líta of illa út en okkar maður hreinlega festist í smáatriðum. Langir kaflar um samskipti tiltekinna manna við nasista gengu of langt fyrir mig. Ég hreinlega missti alveg áhugann og þurfti að þræla mér í gegn um seinni hluta bókarinnar. Virkilega vel skrifuð engu að síður og sniðugur söguþráður þó hann hafi ekki náð til mín.
Kom verulega á óvart. Ætlaði aldrei að fá mig í að setjast niður með hana en gat svo ekki hætt þegar ég byrjaði. Haukur hefur greinilega kynnt sér hvernig mál-líkönin sem eru að tröllríða öllu eru "alin upp" mjög sannfærandi og vel gert. Eina sem mig langar að setja út á í annars frábærri bók er hversu endaslepptur endirinn er.
Frábær lesning, langaði bara að síðurnar væru fleiri.
Höfundurinn leiðir mann í ferðalag þar sem umgjörðin er skáldsaga sem hverfist um sögulegar staðreyndir. Þetta er bók-í-bók, marglaga, þar sem kjarninn fjallar um hluti sem gerðust í alvörunni. Ekki ósvipað concept og í fyrri bók Hauks, Tugthúsið, en þéttari útfærsla.
Umfjöllunarefnin eru gervigreind, ritskoðun, stéttaskipting, vinavæðing í stjórnmálum (les: spilling), kaffidrykkja og hverfulleiki ástarinnar með dassi af nasisma.