Ég hlustaði einu sinni á viðtal við Fríðu Ísberg í Ríkisútvarpinu þar sem bækur voru til umfjöllunar. Þar mælti hún meðal annars með Hurricane Season eftir mexíkóska rithöfundinn Fernanda Melchor. Lét Fríða þess getið að hún gerði þá kröfu til rithöfunda að láta ekki lesandanum leiðast. „Ekki láta mér leiðast,“ sagði hún og mátti ráða að hún gerði sömu kröfur til sjálfs sín sem höfundar. Í Huldukonunni stenst Fríða þetta próf með miklum ágætum því hér er á ferðinni afar spennandi ævintýra- og ástarsaga sem rígheldur lesandanum frá upphafi til enda. Á köflum hríslaðist um mig gæsahúð við lesturinn. Ég hreifst mjög af Merkingu, fyrstu skáldsögu Fríðu, sem kom út 2021 og var því afar spenntur að lesa Huldukonuna. Bókin stóðst allar mínar væntingar og gott betur. Mér er raunar til efs að eitthvað annað íslenskt skáldverk standi Huldukonunni jafnfætis í jólabókaflóðinu þetta árið.
Huldukonan er skrifuð af mikilli dýpt og næmni fyrir þeim aðstæðum sem fjallað er um. Persónusköpunin er trúverðug og síðast en ekki síst er bókin mjög fyndin á köflum og augljóst að höfundurinn skemmti sér sjálf vel við ritun hennar. Þetta er ekki bara ævintýra- og ástarsaga því þetta er fjölskyldusaga þar sem konurnar af Lohr ættinni eru í forgrunni. Höfundur hefur líka lagst í rannsóknarvinnu sem endurspeglast í efnistökunum. Hvort sem fjallað er um „togaraskápa“ fyrir skipverja á bókasafni í Reykjavík á fjórða áratug síðustu aldar eða þakviðgerðir á gömlu húsi á þeim áttunda.
Fríða skrifar óaðfinnanlega íslensku og vandar til verka í hverri setningu sem er úthugsuð. Hvert orð raunar. Stílbrögðin endurspegla dýpt, fegurð og virðingu fyrir tungumálinu. Þau eru á köflum ljóðræn án þess að vera klisjukennd. Höfundurinn verður seint sökuð um leti. Setningar í beinni ræðu eru innan gæsalappa og er fullkomins samræmis gætt hvað það snertir út bókina. Og ekki er flakkað milli tíða. Sem margir virtir íslenskir rithöfundar hafa þó gert sig seka um.
Bókin er augljóslega skrifuð undir áhrifum frá íslenskri þjóðsagnahefð og þjóðtrú þótt mér sé ekki kunnugt um hvert nákvæmlega Fríða sótti innblástur við skrifin. Í bókinni er bæði vitnað í Hulduljóð eftir Jónas Hallgrímsson og Íslenskar þjóðsögur og ævintýri (æfintýri) eftir Jón Árnason þegar ein af aðalsöguhetjunum les úr þessum verkum á ólíkum stöðum. Ef Fríða sótti hugmyndir og efnivið þangað, sem er ekki útilokað, er bæði virðingarvert og heiðarlegt af henni að vitna til þessara verka í bókinni.
Fríða Ísberg er aðeins 33 ára en eftir hana liggja núna tvær framúrskarandi skáldsögur. Merking hlaut alþjóðlega athygli og þegar þetta er skrifað er hefur hún komið út í 17 löndum. Með Huldukonunni stimplar Fríða sig varanlega inn sem fullveðja rithöfundur. Og ég tel allar líkur á því að þegar fram líða stundir verði hún eitt af stóru nöfnunum í bókmenntaheiminum. Ekki bara á Íslandi heldur í Evrópu. Tónninn hefur verið sleginn. Núna er það verkefni rithöfundarins að finna hæfileikum sínum farveg áfram.