Febrúar 1989. Maður finnst látinn í Franska spítalanum á Fáskrúðsfirði, draugalegu timburhúsi í niðurníðslu. Sunna, blaðamaður á Morgunblaðinu, fer austur til að grennslast fyrir um málið en bæjarbúar vilja lítið við hana tala og brátt fer hún að óttast um öryggi sitt og sinna nánustu.
Katrín Jakobsdóttir og Ragnar Jónasson taka hér upp þráðinn frá Reykjavík sem varð mest selda bók ársins 2022. Hún hlaut mikið lof gagnrýnenda og var auk þess tilnefnd til Blóðdropans – Íslensku glæpasagnaverðlaunanna. Reykjavík hefur komið út á fjölda tungumála og völdu New York Times og Kirkus Review hana sem eina af bestu glæpa sögum ársins 2023 í Bandaríkjunum.
Bókin er vel skrifuð og hefur gott flæði. Sem fyrr ná höfundar tíðarandanum og persónusköpun er í lagi, þótt ekki mjög djúp. Hins vegar er söguþráðurinn langsóttur og ótrúverðugur.
Í þessari sögu er Sunna aðalpersónan, en við kynntumst henni í bókinni Reykjavík. Hún er orðin blaðamaður á Mogganum og er send austur á land til að skrifa um sjávarútveg og samgöngumál. Í ferðinni kynnist hún fólki á Fáskrúðsfirði og þar verður grunsamlegt dauðsfall, sem Sunna er sannfærð um að sé morð. Hún rannsakar málið. Mér fannst þetta ósköp ágæt saga en ekki mikið meira en það. Aðallega fannst mér Sunna stundum haga sér kjánalega, ýmist voða hrædd eða ein að þvælast um á nóttinni. Hún virðist heldur ekki vera góð í að lesa fólk. Ágæt afþreying en ekki mikið meira en það.
Franski spítalinn er spennusaga sem nýtir íslenskt umhverfi af mikilli leikni. Sagan byggir á raunverulegum stað og sögulegum grunni, sem gerir hana bæði trúverðuga og óþægilega nærri lesandanum. Höfundarnir skapa þétta og myrka stemningu þar sem leyndarmál fortíðarinnar fléttast saman við samtímann. Persónurnar eru jarðbundnar og mannlegar, og spennan magnast jafnt og þétt án þess að verða yfirdrifin. Þetta er bók sem heldur athyglinni allan tímann, mæli heilshugar með😊
Við fáum að hitta Sunnu aftur, blaðamann á Mogganum sem virðist lunkin í að þefa upp glæpamál. Hér heldur hún austur á firði að að skrifa um fisk og samgöngumál. Þegar barfélagi hennar finnst hengdur þá kaupir Sunna ekki skýringar lögreglu um sjálfsmorð og hefur eigin rannsókn. Ágæt bók.