Ungur drengur fylgist með föður sínum hjálpa erlendum hjónum að flytja flygil inn í húsið beint á móti heimili hans í Suðurgötu árið 1949. Sá atburður á eftir að hafa mikil áhrif á framtíð hans. Frábærlega fléttuð og áhrifamikil skáldsaga um hæfileika og fórnfýsi, blekkingu og afhjúpun, sekt, heiðarleika – og óbærilegan söknuð.
„Kannski er bara við sjálfan mig að sakast. Þannig er það yfirleitt þótt ekki sé auðvelt að horfast í augu við það. Fólk lítur sjaldnast í eigin barm. En ég þekki brotalamirnar í sjálfum mér enda hef ég haft nægan tíma til að rannsaka þær.“
„ég ætla að ímynda mér að ég sé að leika á píanó. það skiptir ekki máli hvaða verk það er þótt ég hafi af einhverjum ástæðum látið mér detta liszt í hug þegar ég vaknaði í nótt, la campanella nánar tiltekið. ég er kominn langleiðina í gegnum það og hef leikið illa, tekið rangar ákvarðanir hvað eftir annað, slegið feilnótur. en enn er dálítið eftir og því kannski hægt að bæta fyrir eitthvað af mistökunum, leika lokakaflann þannig að áheyrendur muni hann kannski ekki síður en allt það sem afvega fór, líti að minnsta kosti á það mildari augum.”
„þegar ég þagnaði loks tók hún utan um mig og strauk mér um vangann. ég man hvað höndin var mjúk. ég man hvað ég fann mikla ástúð streyma frá henni, hvað mér þótti vænt um hana. og hvað mér fannst hún ólánsöm að hafa orðið fyrir því að kynnast mér.“
Vel skrifuð, vel unnin, ljúf saga i anda höfundar. Til viðbótar við einstakt málfar og framvindu, þar sem nútíð og fortíð skiptast á, "hljómar" píanó! Þannig að úr verður tóntextaveisla með hugleiðingum um baráttuna sem er "eilíf við brotalamirnar, sigur í dag engin trygging fyrir sigri á morgun" (bls.171). Mæli með góðu næði og tónlistinni i eyrum meðan á lestri stendur.
Ólafur skrifar svo afskaplega fallega um hversdagslega hluti og nær mér alltaf. Þessi bók er smá hæg af stað en ó þesa virði að lesa í gegn. Eftir miðja bók er ekki hægt að láta hana frá sér, bók til að háma í sig og bók til að hreyfa við manni.
Fór með Ólafi Jóhanni í rúmið í gær og ætlaði aldrei að geta sleppt takinu af honum. Eftir 200 bls. sagði ég höst við sjálfa mig að þetta gengi nú ekki lengur, slökkti ljósið og lagði höfuðið á koddann. Kvöldsónatan dansaði undir augnlokunum þar til ég gafst upp, reisti mig aftur upp og kveikti ljósið. Enn einu sinni hefur Ólafur Jóhann töfrað fram örlagasögu á sinn yfirvegaða máta og svo BÚMM, hvílík vinstrihandarhægribeygja í lokinn. Ég sumsé gat ekki hætt fyrr en lestri var lokið. Ég ætla ekki að segja ykkur hvað klukkan var orðin þá en nú öfunda ég alla sem eiga þennann yndislestur eftir.