Hvað varð af norrænu byggðinni á Grænlandi sem hvarf með dularfullum hætti fyrir 500 árum? Hér er reynt að ráða gátuna auk þess sem rýnt er í sögu landsins frá komu danskra nýlenduherra, mikilla þjóðfélagsbreytinga á 20. öld og svo umsvifum Bandaríkjanna eftir síðari heimsstyrjöld og fram á okkar daga. Aðgengilegt sagnfræðirit og ferðasaga í bland.
Árið 1408 var brúðkaup haldið í Hvalseyjarkirkju á Grænlandi. Í kjölfarið héldu brúðhjónin til Íslands og hefur ekki spurst til byggðar norrænna manna á Grænlandi síðan. Þremur öldum síðar kom danski presturinn Hans Egede til landsins í leit að afkomendum norrænna manna. Þeir fundust ekki en Danir tryggðu sér yfirráð yfir eyjunni, sem með einhverjum hætti standa enn. En hvað varð af þessu samfélagi norrænna manna á Grænlandi sem hafði fyrirfundist í næstum 500 ár?
Sagnfræðingurinn Valur Gunnarsson veltir hér upp ráðgátunni um þetta dularfulla hvarf heillar siðmenningar. Sagt er frá byggð norrænna manna á miðöldum, allt frá Eiríki rauða til brúðkaupsins í Hvalseyjarkirkju. Einnig er saga landsins fram á okkar daga rakin. Grænland sem hluti af nýlenduveldi Dana, þjóðfélagsbreytingarnar miklu á 20. öld, umsvif Bandaríkjamanna sem hófust í síðari heimsstyrjöld og hin ýmsu hneykslismál sem hafa flækt samband Grænlands og Danmerkur undanfarið.
Valur dvaldi á Grænlandi og skoðaði þar fornminjar jafnt sem að taka heimamenn tali og dvaldi auk þess á hreindýrabúi um stund. Bókin er aðgengilegt sagnfræðirit og ferðasaga í bland eins og höfundar er von og vísa.
Valur Gunnarsson lærði sagnfræði við Háskóla Íslands, Háskólann í Helsinki, Humboldt-háskóla í Berlín og Kúras-stofnunina í Kænugarði jafnt sem ritlist í Belfast og Norwich. Hann hefur áður sent frá sér átta bækur, þar á meðal Berlínarbjarma þar sem hann kryfur sögu hinnar margslungnu borgar frá ýmsum hliðum, Bjarmalönd sem greinir frá arfleifð Sovétríkjanna í Austur-Evrópu, skáldsöguna Örninn og fálkann sem fjallar um hvað hefði gerst ef nasistar hefðu hernumið Ísland, Stríðsbjarma um átökin á milli Úkraínu og Rússlands sem og tvær bækur um „hvað ef?“-spurningar sögunnar, aðra þeirra á ensku. Valur hefur starfað fyrir fjölmarga miðla, gert útvarpsþætti og skrifað pistla og haldið fyrirlestra fyrir bæði lærða og leika.
Valur Gunnarsson (b.1976) is a historian, author, and journalist. His childhood was divided between Iceland, Norway and Great Britain, and as a teenager he spent his summers in Saudi-Arabia in the aftermath of the First Gulf War. He was co-founder and first editor of the English language paper Reykjavik Grapevine in 2003, which is still going strong. As correspondent for Associated Press and The Guardian, he covered such events as the return of Bobby Fischer, the economic crisis and the Eyjafjallajökull eruption. His previous novels include King of the North (2007) and The Last Lover (2013), both of which received excellent reviews. He has been interested in World War II ever since his grandmother, who worked for the phone company, told him about the time she saw Winston Churchill speak outside the Parliament building in downtown Reykjavik.
Fyrir fólkið sem vill kynna sér samskipti Dana og Bandaríkjamanna á Grænlandi, fræðast um sögu Grænlands og fá yfirlit yfir tilgátur um hvarf norrænna manna þaðan. Valur kann að vefa saman persónulega samtímasögu og sögulegan fróðleik fyrri tíma og gerir það vel. Myndin sem dregin er upp af afreksfólkinu Stefáni hreindýrabónda og börnum hans áhugaverð og svo er það eilíf barátta sagnfræðingsins við leti sína og lesti.
Áhugaverð ferðasaga og eins pælingar um hvað varð um norræna fólkið sem bjó á Grænlandi a.m.k. fram á 15. öld. Valur dvaldi um nokkurt skeið hjá frændfólki mínu á Grænlandi; hjá Stefáni hreindýrabónda og Freyju dóttur hans, ásamt því að heimsækja nokkra aðra staði í Eystribyggð. Afdrif norræna fólksins á Grænlandi eru enn óráðin gáta þó Valur dragi saman helstu kenningar og færi ágæt rök fyrir sinni sýn á líklegustu skýringar á hvarfi hinna norrænu manna.
Mjög alhliða bók um Grænland - sögu þess, menningu og dagsdaglegt líf - og um upplifun höfundarins á því þegar hann heimsækir landið og dvelur þar um skeið. Á bókina rambaði ég fyrir tilviljun á bókasafni en ér mjög fegin að ég gerði það. Hún hjálpar manni að skilja betur umræðuna sem fer fram þessa dagana.
Skemmtileg frásögn í anda höfundar sem fer um víðan völl, í tíma, rúmi og efnistökum. Bókin er ekki nema að litlu leyti um það sem hún segist vera um, þe hvarf norrænna manna frá Grænlandi, heldur flakk Vals um Grænland, og sögu svæðisins í stórstökkum síðustu 1000 ár rúm.