Þessi bók geymir magnaða frásögn af ferðalagi manns inn í heim stjórnleysis, heim sem sumir þekkja, margir óttast en allir ættu að leitast við að skilja betur. Saga Héðins Unnsteinssonar er öðrum þræði sigursaga en líka saga um baráttu við fordóma, kerfið og jafnvel tungumálið sjálft. Hvað er annars að vera heilbrigður? Hvernig losnar maður við „sjúk-dóm“? Vertu úlfur er einlæg, gagnrýnin og hispurslaus frásögn af falli og upprisu manns sem eitt sinn var greindur með geðhvörf. Héðinn hefur starfað á sviði geðheilbrigðismála í tvo áratugi, sem sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu og hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, auk þess sem hann hefur kennt, haldið fyrirlestra og skrifað fjölda greina um þessi mál.
Vertu úlfur eftir Héðinn Unnsteinsson er algjörlega "must-reed" bók fyrir alla. Maður upplifir allan tilfinningaskalan við lesturinn, bæði hlátur, grátur, reiði og allt þar á milli. Sorglegt hvað þjóðfélagið er fullt af fordómum gagnvart geðsjúkum og hvað heilbrigðiskerfið er vanmáttugt gagnvart þessum einstaklingum. Ádeilan í bókinni er mjög mikil á einstaka heilbrigðisstofnanir og það er magnað hvað kerfið okkar getur mismunað sjúklingum.
Þetta var ekki ánægjuleg lesning - til þess er sagan of erfið og of sorgleg. En þetta er bók sem allir ættu að lesa því ef við skildum öll aðeins betur hvernig geðraskanir geta farið með fólk gætum við örugglega veitt meiri stuðning. Þó ekki væri nema það að skilningur ætti að minnka fordóma. Þrátt fyrir stórkostlegar lýsingar á rússibanareiðinni mun ég aldrei geta skilið til fullnustu hvernig Héðni og öðrum í hans sporum hefur liðið en ég er þakklát fyrir að fá þetta tækifæri til þess alla vega að reyna að skilja.
Bókin geymir áhugaverða frásögn Héðins af andlegum veikindum og er lýsingin á maníu hans sérstaklega eftirminnileg. Hann dregur ekkert undan og lýsir vel hvernig líðan hans breyttist eftir því hvernig sjúkdómurinn herjaði á hann. Hann átti greinilega góða vini til að leita til, sem studdu hann í veikindunum, þótt hann hafi ekki alltaf verið auðveldur í sambúð. Mæli með þessari bók fyrir alla til að öðlast betri skilning á geðhvörfum. Lífsorðin aftast eru líka góð áminning um hvað við getum gert til að bæta líðan okkar.
Fallega skrifuð og af heiðarleika og virðingu fyrir öllum persónum sem birtast í sögunni. Myndlíkingar sem auðvelt er að tengja við, lærði fullt um sjálfa mig við að hlusta á bókina. Lestur Sigurðar Skúlasonar er líka sérlega góður.