Þorgeir Þorgeirsson, ungur sjómaður að sunnan, ræður sig sem vinnumann á prestssetur í blómlegri norðlenskri sveit. Hann hrífst af fallegustu vinnukonunni á bænum en hikar við að bindast henni af því að hann hræðist líf í fátækt. Á heimleið um haustið leysir hann af slasaðan vinnumann á stórbýlinu Hraunhömrum. Bóndinn þar á tvær dætur og sú eldri, Ástríður, er harðákveðin í að sleppa Þorgeiri ekki aftur suður. Þótt Ástríður sé röggsöm og forkur til vinnu er hún ekki heillandi kona – en auður föður hennar freistar. Í Tengdadótturinni, sem kom fyrst út 1952–54 í þremur bindum og átti miklum vinsældum að fagna, segir frá ástum og örlögum jafnt sem daglegu lífi til sveita í byrjun 20. aldar. Guðrún frá Lundi hefur einstakt lag á að gæða persónur sínar lífi svo að lesandinn hverfur um hundrað ár aftur í tímann. Á krossgötum er fyrsta bókin í þessum magnaða flokki en nýrrar útgáfu hefur verið beðið lengi.
Þorgeir er fátækur sunnlenskur sjómaður með stóra búmannsdrauma sem ræður sig norður í land til sumarstarfa. Meðan hann eltist við búfé, krónur og virðingarsess eltast snauðar sem efnaðar bóndadætur við hann. Mjög skemmtileg lesning ekki síst vegna málfarsins, hnyttinna samtala og tíðarandans auk þess sem hér eru margar stórskemmtilegar og skrautlegar persónur. Alltaf langað til að lesa eitthvað eftir Guðrúnu frá Lundi og get svo sannarlega mælt með þessari bók enda hjólaði ég strax í þá næstu :-)