Tvenn þáttaskil urðu í sögu rökgreiningarheimspekinnar á 20. öld. Þau fyrri lýstu sér í því að tungumálið varð meginviðfangsefni heimspekinga. Þau síðari urðu þegar háttarökræði hætti að vera tæknilegt sérsvið og varð að hversdagslegu verkfæri heimpekinga í ólíkum greinum. Í fyrirlestrunum sem hér birtast er gefin innsýn í þessar tvær vendingar í rökgreiningarheimspeki á 20. öld. Fjallað er um nokkra áhrifamestu heimspekinga þessarar hefðar, svo sem Frege, Russel, Wittgenstein, Quine og Kripke, gerð grein fyrir tilteknum þáttum í heimspeki þeirra, flókin og stundum tæknileg atriði útskýrð og valin rit sett í víðara hugmyndasögulegt samhengi.
Þetta er svona tveir og hálfur. Léleg einkunn stafar af því hversu litlaust og að mér fannst á tíðum rytjulegt verkið er — stundum fannst mér það jafnvel ekki einu sinni geta útskýrt viðfangsefni sitt á viðunandi máta, eins og í köflunum um Quine (og hvers vegna ekkert um Tractatus Wittgenstein? Ég skil það ekki.) — en henni til björgunar voru kaflarnir um Kripke ágætlega vel unnir. Hvað get ég sagt — ég er bara ekkert sérlega mikið fyrir rökgreiningarhefðina í ofanálag — mér finnst hún of hrokafull og pedantísk til að vera marktæk sem heimspeki.