Í vægðarlausri veröld Óðins eru mönnum sköpuð örlög – og ekki alltaf blíð.
Vikar telur sig vera kominn í örugga höfn og brátt á frumburður þeirra Grían að fæðast. En goðin hafa annað í huga. Ófriðarbál tendrast og mikil átakatíð er í vændum.
Vargöld er metnaðarfull myndasaga um goð og menn á heiðnum tíma sem teygir sig um heima alla, allt frá upphafi veraldarinnar til endaloka hennar.
Vargöld − Fyrsta bók geymir upphafskafla þessarar miklu sögu: Svikalogn og Blóðbragð.
Hafði nokkuð gaman af henni, teikningarnar og teiknistílinn var allt ansi flott verð ég að segja. Mér leið að vísu smá eins og sagan sjálf fór aðalega í að kynna persónurnar og setja upp næstu bók. Myndi segja að ef þetta lítur út eins og eitthvað sem þú hefur áhuga á, þá er þetta örruglega fyrir þig. Þessi fyrsta bók er ekkert voðalega löng samt. Ég er allavega forvitinn að sjá hvað kemur næst.
Það eru nokkrar mjög flottar síður í þessari bók en sagan er óttalega slöpp og tungutakið á stundum einsog að klóra í krítartöflu.
Óðinsauga gaf út bókina Mjölnir: barnabók byggð á Þrymskviðu fyrr á árinu, þar sem Æsir líta út einsog generískir miðaldahöfðingjar í Disneykastala. Vargöld er ekki svo slæm! En hún heggur í þessa sömu sótthreinsuðu átt. Það er allt svo pússað og uppstillt, það eru allir svo ofsalega alvarlegir, sagan hleypur hingað og þangað og síðan lýkur henni rétt áður en hún hefst. (Ég hef skilning á því að það kostar tíma og peninga að setja saman myndasögu í fullri lengd, og einhverstaðar verður maður að byrja, en þessi bók virkar einsog formáli, og það er bara ekki nóg.)
Þá er búið að stilla upp fyrir einhverskonar hefndarferð, en ég veit ekki alveg hvað liggur undir. Meiningin er sú að bændurnir drepi hver annan til að fóðra Valhöll, og með nógu mörgum einherjum geti Óðinn.. afstýrt Ragnarökum? Eða bara mildað höggið? Eigum við að halda með peðunum eða gæjanum sem berst við heimsendi?
Þetta eru vonbrigði, það er greinilega mikil vinna lögð í bókina en hún bara skilar sér ekki nógu vel.