Í bók þessari segir Árni Óla sögu klaustursins í Viðey og jafnframt sögu eyjarinnar frá landnámstíð til siðaskipta. Um 300 ára skeið var Viðey líkust ævintýralandi. Þar reis klaustur, sem varð eitt umsvifamesta og ríkasta klaustur landsins. Þar sat Styrmir Kárason fróði, einn af frumhöfundum Landnámu og fleiri sagnaritara. Í Viðey gerðust undur (jarðteikn), kraftaverk þeirra tíma.
Þegar veldi eyjarinnar var sem mest 1539 hertók Diðrik von Minden eyna og rændi klaustrið. Sú herför varð tilefni mikilla viðburða og mannvíga.
Frá öllu þessu segir Árni Óla af sinni alkunnu snilld. Saga Viðeyjarklausturs er merkt framlag til íslenzkra sögubókmennta.
Klaustrin eru í tísku þessa dagana. Mig fýsir að vita meira eftir lestur þessarar bókar. Það mætti skrifa magnaða sagnfræðibók, blandaða fornleifarannsóknum, um Sundaklaustur en það var Viðeyjarklaustur líka nefnt á blómaskeiði þess enda stóð það við Sundin blá.