"Slitförin er safn ljóða sem fjalla á ágengan hátt um togstreituna við að brjótast undan áhrifavöldum bernskunnar og finna leiðina að eigin sjálfi. Leiðarstef verksins er sársaukinn sem sprettur úr nístandi sorg milli barns og foreldris. Ljóðin taka pláss, sýna afstöðu og grípa lesendur föstum tökum." — úr umsögn bókmenntaráðgjafa Miðstöðvar Íslenskra bókmennta við afhendingu Nýræktarstyrks 2017
★★★★ 1/2 (Fjórar og hálf stjarna af fimm) "Ein athyglisverðasta ljóðabókin fyrir þessi jól [...] Fríða er snillingur þegar kemur að skemmtilegu, jafnvel einföldu myndmáli sem sett er í nýtt og áhugavert samhengi. [...] Við annan lestur skýrist ýmislegt sem var lesanda ráðgáta við fyrsta lestur. Þannig má segja að hún kallist á við skáldsystur sína Svövu Jakobsdóttur sem má teljast eitt mesta myndmálsséní sem Ísland hefur átt, þar til nú." — Jóhanna María Einarsdóttir / DV
"Slitförin er afar vönduð ljóðabók þar sem í tæplega fjörutíu ljóðum eru dregnar upp fjölmargar litlar myndir af augnablikum úr tilverunni, mannlegum samskiptum, brestum og tilfinningalegu ástandi. Skáldið segir þó um leið mun stærri sögu af samböndum og arfleifð kynslóðanna, vítahringjunum sem verða til upp úr erfiðu fjölskyldumynstri og hinni vandrötuðu leið sem unglingsstúlka þarf að feta til að öðlast sjálfstæða vitund ungrar konu. Eftirtektarvert er hve örugg tök höfundurinn hefur á fjölbreyttu myndmáli og hvernig hún nær með nálgun sinni að forðast tilgerð og koma hverri hugsun til skila á beinskeyttan hátt. Þrískipting bókarinnar og kaflaheitin Skurður, Slitförin og Saumar endurspegla þroskaferli ljóðmælandans og verkið er gjöful lesning í heild sinni en þó stendur hvert ljóð einnig sem sjálfstætt listaverk. Slitförin er vel uppbyggð og áhrifarík bók sem ber hæfileikum ljóðskáldsins gott vitni." — Rökstuðningur dómnefndar vegna tilnefningu til Fjöruverðlaunanna 2018
Fríða Ísberg is an Icelandic author based in Reykjavík.
Her novel THE MARK won The P.O. Enquist Award, The Icelandic Women’s Literature Prize for Fiction, The Icelandic Booksellers Choice Award, and her short story collection ITCH was nominated for The Nordic Council Literature Prize in 2020.
Fríða is the 2021 recipient for The Optimist Award, handed by the President of Iceland to one national artist. Her work has been translated to twenty languages.
Meðgönguljóð fullorðnast: Nokkur orð um Slitförin eftir Fríðu Ísberg
Ein af þeim bókum sem ég hef hlakkað hvað mest til að lesa undanfarna mánuði er Slitförin, fyrsta ljóðabók vinkonu minnar Fríðu Ísberg. Ég kynntist Fríðu haustið 2015 þegar við byrjuðum saman í meistaranámi í Ritlist og hef því getað fylgst með því frá hliðarlínunni hvernig ljóðahandritið sem upprunalega átti að verða gefið út undir merkjum Meðgönguljóða óx og varð að heilsteyptu og fullburða verki. En þrátt fyrir að ég hafi þekkt mörg ljóðanna í Slitförum og lesið þau áður náði bókin sjálf að koma mér rækilega á óvart því hún var einfaldlega margfalt betri en ég hafði gert mér vonir um og hafði ég samt bundið miklar vonir við hana! Frá því að ég kynntist Fríðu hef ég alltaf dáðst að margræðni texta hennar og einstökum hæfileikum hennar til að skapa ljóðrænar tengingar milli ólíklegustu viðfangsefna sem eru stundum svo óvæntar að þær kippa manni út úr lestrinum yfir í djúpar vangaveltur en á sama tíma svo augljósar að maður bölvar sjálfum sér fyrir að hafa ekki dottið þær sjálfur í hug. Mamma „breytist í ósvarað símtal“ og sjáöldrin „renna út í hvítuna/eins og sprungnar eggjarauður“ og þó maður geti ekki alltaf sett fingurinn nákvæmlega á það hvað skáldið er að meina með myndmálinu þá skiptir það hreinlega ekki máli því tilfinningarnar skila sér fullkomlega. Því það er einmitt snilldin við ljóðtexta (sem Fríðu text svo meistaralega vel upp í ljóðum sínum) að varpa fram flóknum og margræðum orðmyndum á svo skýran hátt að það virðist næstum því áreynslulaust. Ef ég vissi ekki betur gæti ég hreinlega trúað því að þessir textar hefðu flætt fullskapaðir frá fingrum Fríðu því svo fagmannlega eru þeir sniðnir að saumarnir eru hvergi sjáanlegir. En verandi ljóðskáld sjálfur er ég þó fullkomlega meðvitaður um þá eirðarlausu vinnu sem felst í því að skrifa og endurskrifa texta þar til maður er orðinn svo samdauna þeim að þeir virðast manni jafn banal og margþvældir og auglýsingarnar á FM957. Þekkjandi Fríðu og hafandi einnig notið þeirra forréttinda að hafa haft Sigurð heitinn Pálsson sem kennara og upptendrast af hans viskubrunni tel ég mig líka geta greint upp að vissu marki hvaða aðferðum hún beitir í textum sínum og til hvers hún ætlast af virkni ljóðtexta. Í gegnum gjörvalla bókina sjást því merki nokkurra grundvallarkenninga SP í ljóðlist svo sem kenninguna um „díalektískt mótvægi“ og „hinar hálfopnu dyr ljóðlistarinnar“. En enginn verður skáld af handverkinu einu saman og Fríða er einnig þeim hæfileikum gædd að hún er einstaklega næm á viðfangsefni sín og nálgast þau ávallt með einstaklega persónulegu og fersku sjónarhorni. Í uppáhalds ljóði mínu úr bókinni, Að misstíga sig, er að finna setningu sem af einhverjum ástæðum hefur setið í mér frá því ég heyrði hana fyrst: „núna er himininn/eins og gallabuxur“. Þessi setning dúkkar regulega upp í hausnum á mér og stundum hef ég staðið mig að því að mæna upp í himininn og velta því fyrir mér hvort hann sé einmitt núna eins og gallabuxur eða hvers konar himinn það var sem Fríða sá fyrir sér þegar hún skrifaði þessa snilldarlega einföldu en frumlegu myndlíkingu. Það hefur verið ótrúleg hvatning og mikill innblástur að sjá skáldasystur sína taka slíkan skáldlegan vaxtarkipp sem Slitförin eru bæði fyrir skáldið sjálft og fyrir hreyfinguna sem hún tilheyrir. Þá finnst mér það fullkomlega viðeigandi ljóðræna að Slitförin sé fyrsta ljóðabókin sem Partus gefur út í fullri lengd í ljósi þess að forlagið sjálft óx upp úr seríu sem notar sjálfa meðgönguna sem myndlíkingu fyrir ferlið að skrifa og gefa út ljóðabók því bók Fríðu fjallar einmitt um togstreituna sem felst í því að fullorðnast og brjótast úr viðjum foreldra sinna og verða sjálfstæður einstaklingur. Í ljósi þeirra nýlegu frétta að Meðgönguljóðaserían muni líða undir lok á næsta ári (sem að vissu leiti er nokkuð sorglegt þó það sé skiljanlegt) hljóta Slitförin að marka ákveðin þáttaskil fyrir þá kynslóð ljóðskálda sem tóku sín fyrstu skref í kringum þá hreyfingu (höfundur þessa pistils þar með talinn). Fríða er kannski ekki opinbert Meðgönguljóðskáld en hún er samt sem áður frumkvöðull í okkar hópi því Slitförin er fyrsta bókin með rætur í hreyfingunni sem víkkar út formið og Fríða sjálf er lifandi sönnun þess að okkar kynslóð á sér fulltrúa sem staðið geta jafnfætis öllum öðrum kynslóðum íslenskra skálda. Það mun vissulega myndast ákveðið tóm þegar Meðgönguljóðasérían líður undir lok en kannski er það bara í fínu lagi því Fríða hefur sýnt og sannað að það er ekkert að óttast. Frá og með Slitförunum eru Meðgönguljóð fullorðin.
Frábært verk. Þó ég sjálfur tengi ekki við ljóðin hafa þau rosaleg áhrif á mig. Það segir mikið til um hvað bókin er sterk. Mun lesa þessa aftur. 5 stjörnur í bili. Fersk ljóðabók frá ungum höfundi
Ég tengdi ekkert svakalega við heildarmyndina (enda eru þau líklega ekki skrifuð með mig í huga; karlmann úr hefðbundinni fjölskyldu sem mér líkar vel við). Mér þótti myndmálið áhugavert á köflum og sum ljóðin náðu mér algjörlega. Ég þarf líklega að lesa þessa bók aftur og hægar.
Sum ljóðanna náðu ekki alveg til manns eða hefðu mátt vera styttri og kjarnyrtari en önnur eru fullkomin að öllu leyti og ná þá að hreyfa vel við manni. Þetta eru ekki einföld ljóð, ég þurfti sjálfur að lesa bókina þrisvar til að melta margt og gæti jafnvel lesið oftar og hægar til að ná betur utan um hana.
Höfundur leikur sér að orðum og setningum af innsæi og ritfærni. Hún þekkir tungumálið og virðist njóta þess að leika sér með það. Mjög góð ljóðabók. Þetta er bók sem gaman væri að eiga og lesa aftur og aftur.
Þetta er í stuttu máli ein besta íslenska ljóðabók sem ég hef lesið lengi. Átakanlega sár, án þess að vera banal; djúp án of mikillar tilgerðar. Mæli eindregið með þessari bók.
Hér er eitt dæmi um frábært ljóð, sem þó er enn öflugra í heildarsamhengi bókarinnar:
ELDMÓÐIRIN
fólk hefur þrjóskast við að vökva mig svo árum skiptir