Fáir hafa náð betri tökum á listformi smásögunnar en rússnesku meistararnir á 19. og 20. öld. Í þessa sýnisbók hefur Áslaug Agnarsdóttir valið og þýtt nokkrar af fremstu smásögum rússneskra bókmennta eftir þekkta höfunda allt frá Púshkín til Teffí. Sögurnar eru allar samdar fyrir byltinguna 1917 — og takast á við og endurspegla á ólíkan hátt viðkvæm álitaefni í samfélaginu. Í Rússlandi hefur það oftar en ekki verið hlutverk rithöfunda að ganga á hólm við ríkjandi hefðir, spyrja spurninga sem aðrir þora ekki að spyrja og „segja sannleikann“ eins og það er kallað. Sögurnar eru auk þess frábærlega stílaðar og afar skemmtilegar aflestrar.
Ég les ekki rússnesku, svo ég get lítið sagt um hversu nákvæmar þýðingar þessara smásagna eru, en ég get þó sagt að bókin er á góðri íslensku.
Í þessu safni eru sögur eftir átta rússneska höfunda, sjö karla og eina konu. Flesta kannaðist ég við við fyrir lesturinn, mismikið að vísu. Eini höfundurinn sem ég vissi ekkert um, hafði hvorki lesið verk eftir eða um, var eina konan í hópnum, Teffi. Það góða við svona safnbækur er að maður finnur stundum nýja höfunda sem manni langar að lesa meira eftir og það á við um Teffi.
Aðrar sögur í bókinni eru flestar góðar, þó það sé eins og yfirleitt gerist með svona marghöfunda bækur að sumir höfundar ná betur til manns en aðrir. Það er helst Bunin sem olli mér vonbrigðum. Fannst sú saga, þrátt fyrir frægð sögunnar og Nóbel höfundarins, bara ekki það sterk.
Gott úrval af sögum og frábær úrvinnsla hjá þýðanda. Ég hef helst kynnst rússneskum bókmentum í gegnum þýðingar Ingibjargar Haraldsdóttur (Ingibjörg Haraldsdóttir, blessuð sé minning hennar) en Áslaugu skulda ég greinilega yfirlegu. Ég myndi segja að þetta safn sé eitthvað sem bókmenntanördar ættu ekki að láta fram hjá sér fara.
Ég hef ekki lesið mikið af smásögum í gegnum tíðina en áhugi minn hefur aukist eftir þessa bók. Meiri helvíti sem Dostojevskí getur verið þunglyndur, en allar sögurnar eru góðar þó augljóslega væri hægt að raða þeim upp í einhverja röð eftir hver sé uppáhalds. Ég hef lítinn áhuga á því samt.