Við munum ekki eftir fyrstu mánuðunum í lífi okkar, jafnvel ekki fyrstu tveimur til þremur árunum. Þó hafa rannsóknir í taugavísindum og athuganir á sálarlífi fullorðinna leitt æ betur í ljós að einmitt þessir mánuðir og ár hafa varanleg áhrif á allt líf okkar þaðan í frá. Þá er heilinn í örustum vexti og galopinn fyrir áhrifum umhverfisins, öll reynsla ungbarnsins hefur bein áhrif á sjálfsmynd þess og samband við aðra. Alúð og örvandi umönnun er endurgoldin með ótrúlegum þroska. Samskipti okkar við annað fólk og reynsla síðar á ævinni skiptir líka máli en ekkert jafnast á við fyrstu tengslin því þau veita mikilvæga undirstöðu undir allt lífið framundan. Árin sem enginn man er brýn bók fyrir foreldra ungra barna og alla þá sem annast lítil börn. Höfundurinn Sæunn Kjartansdóttir er sjálfstætt starfandi sálgreinir sem hefur langa reynslu af einstaklingsmeðferð og handleiðslu fólks í heilbrigðisþjónustu.
Ég hafði ekki sérstaklega gaman af þessari bók og fannst mjög lítið af gagnlegum ráðum og upplýsingum í henni um barnauppeldi. Eiginlega meira um hvernig á ekki að gera hlutina og að bara mæður geti sinnt börnum og leikskólar séu vondir. Kaflinn um feður fannst mér gamaldags og ekki í samræmi við mikið hlutverk þeirra nýju feðra sem ég þekki í lífi barna sinna frá upphafi. Get ekki sérstaklega mælt með þessari bók. Pabbi eftir Ingólf Gíslason er mun hjálplegri og meira uppbyggjandi.
Ég er mjög hrifin af tengslamyndunar uppeldisfræði en mér fannst ekki allt í þessari bók gott. Það sem stuðaði mig aðallega var áherslan á kynjatvíhyggjuna. En kaflarnir um að foreldrar þurfi að gera upp og sætta sig við eigið uppeldi eru mjög fínir. Var hrifnari af bókinni „Fyrstu þúsund dagarnir“ en hún er einnig mun hagnýtari en þessi
Ágætis bók, á nokkuð almennum nótum um frumbernskuna og hvað fullorðna fólkið á að gera til að létta ungviðinu lífsbaráttuna. Hugmyndir Sæunnar um umbreytingar í samfélagsgerð og tilhögun vinnumarkaðarins til þess að efla tengslamyndun ungbarna við foreldra sína (og jafnframt til að forða þeim frá þerapíu síðar í lífinu) eru allrar athygli verðar.
Fræðandi bók um mikilvægi foreldra fyrstu æviárin. Sæunn hræðir mann eilítið með þeirri gífurlegu ábyrgð sem fylgir því að vera foreldri og tengjast barninu. En sýnir jafnframt að mikilvægi þess að foteldri getur ekki mótað barn sitt heldur búið því farveg og hjálpað því að blómstra í fallega manneskju. Bókin er erfið en þörf lesning, mæli með!
Mjög fróðleg bók um mikilvægi tengslamyndunar - queen Sæunn klikkar ekki.
"Þess vegna er brýnt að atvinnurekendur og ríkisvald komi í auknum mæli til móts við foreldra, feður jafnt sem mæður, með lengra fæðingarorlofi, sveigjanlegum vinnutíma og greiðslum til að vega gegn tekjutapi sem af því hlýst.
Fjármunum skattborgaranna er örugglega betur varið í að styrkja tengsl foreldra og barna fyrstu æviár þeirra heldur en að greiða sérfræðingum fyrir að vinna með afleiðingar tengslaleysis þeirra nokkrum árum síðar." 🙌🏼
Mér fannst margt áhugavert í þessari bók en ég átti erfitt með margt líka, sér í lagi áherslurnar á hlutverk og tengingu móðurs við barn umfram föðurs. En uppeldisfræðilegu kaflarnir góðir, sérstaklega um tilfinningaþroska foreldra og mikilvægi þess að þeir vinni úr áföllum og efli heilbrigð samskipti
Æðisleg bók sem ég væri til í að lesa aftur. Fer svo vel yfir heilann, þroska, tengingar og allskonar hluti sem ég hef ekki pælt í áður. Mæli hiklaust með.
Bókin er gríðarlega mikilvægt framlag til umræðu um uppeldismál á Íslandi. Eftir því sem ég kemst næst er meginskoðunin á uppeldi á Íslandi sú að það sé allt í góða lagi að hafa börnin allan daginn á leikskólanum. Sæunn útskýrir stefnu sem er ríkjandi víða erlendis, m.a. í Bandaríkjunum og Þýskalandi, sem gengur út á mikilvægi þess að mynda tengsl við ung börn. Ég hvet alla sem hafa áhuga á börnum og uppeldi, en sérstaklega verðandi foreldra, til þess að lesa bókina.