Að föður sínum látnum þarf Ragnar Helgi að fara í gegnum 4000 titla bókasafn föður síns og finna því stað á 21. öldinni. Þótt hann einsetji sér í upphafi að opna ekki bækurnar og alls ekki fara að grúska, fær hann ekki við það ráðið.
Við starfann kvikna minningar, hugleiðingar um bækur, menninguna, missi, fallvelti hluta, um liðna tíð og framtíðina – en ekki síður um samband föður og sonar og hvað skipti mestu máli í lífinu þegar upp er staðið.
Bókasafn föður míns er falleg, fyndin, tregafull og íhugul frásögn um verðmætamat og tilfinningalíf sem í krafti stílgaldurs og einlægni hefur djúp áhrif á lesandann. Síðasta bók Ragnars Helga, Handbók um minni og gleymsku, vakti mikla athygli og var tilnefnd til bæði Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Menningarverðlauna DV.
„Ég var lengi haldinn geðveilu sem kallast söfnunarárátta.“ (27)
Bókasafn föður míns er einhvers konar uppgjör við bókina sem hlut – og aðra dauða hluti sem maðurinn slær eign sinni á og geymir og passar upp á í tíma og ótíma. En hún er líka uppgjör við lífið og þá ekki síður hina hliðina á því, dauðann. Dauða jarðarinnar, dauða mannsins, dauða bókasafna. Maðurinn sem vísað er í hér að ofan hætti að safna hlutum þegar mamma hans dó: „andartakið sem móðir mín dó í örmum mér hætti ég að vera eigingjarn því þú átt aldrei nokkurn skapaðan hlut hvort sem er.“ (27) Hver er tilgangurinn? Sama hvað við reynum að gera til að koma í veg fyrir það þá er heimurinn að farast. Hann hefur verið að farast frá fyrsta degi. En við getum svo sem tekið hljómsveitina á Titanic til fyrirmyndar og gert það besta úr þessu og bara haldið áfram, og þó að bækurnar séu sífellt að styttast, að auka línubilið þá bara aðeins meira. Halda áfram, einn dag í einu, eitt augnablik í einu og svo annað augnablik þangað til að sólin klárar vetnisforða sinn og jörðin „lýkur ævi sinni sem sótsvört, kolbrunnin brunarúst, kaldur kolamoli á þögulli eilífðarsporbraut um ljóslausar leifar sólarinnar.“ (22)
Mæli með þessari bók fyrir þá sem vilja lesa og finna. Ég fann fyrir sorg (ég hef aldrei tengt jafn vel við lýsingu á dauða foreldris), eftirvæntingu en líka tilgangsleysi. Það er nefnilega nauðsynlegt að finna fyrir tilgangsleysi til að gefa eftirvæntingunni eitthvert gildi. Og hamingjunni. Maður finnur hana helst í andstæðunni.
Stutt bók og fín. Verandi bókasjúkur frá barnsaldri var ekki hægt að leggja hana frá sér. Ég fylltist smá trega og eftirsjá við lesturinn því ég fór að hugsa um allar bækurnar sem ég hef losað mig við þegar ég hef verið að grisja hjá mér. Bækur eru vinir manns. En ég er ekki svo svartsýnn á framtíð bókanna sem lesa má í þessari bók. Ég tel þær muni lifa einmitt fyrir tilstilli góðra bóka eins og þeirrar sem hér um ræðir.
Ragnar fær það erfiða verkefni að fara í gegnum bókasafn föður síns að honum látnum en hann er líkt og pabbi sinn rithöfundur og útgefandi. Bókasafn föðurins telur nokkur þúsund titla og verkefnið því ærið. Í bókinni fjallar Ragnar um bækur, gildi þeirra nú samaborið við áður og lýsir listavel þeirri glímu sem hann á í með að ákveð örlög bókanna. Inn á milli eru svo tilvitnanir í ýmsa texta.
Þessi sálumessa Ragnars um bókina og föður sinn (sem elskaði bækur) getur ekki annað en haft mikil áhrif á alla þá sem unna bókum. Maður verður hálfsorgmæddur en um leið þakklátur yfir að hafa alist upp á þeim tíma þar sem bókaskápar og jafnvel bókaherbergi eru eðlilegur hlutur á heimilum.
Bókasafn föður míns er eins og langt ljóð. Mun lesa hana fljótt aftur.
Við hjónin lásum bókina upphátt og til skiptis, fyrir hvort annað. Hlógum og rifjuðum upp okkar eigin sögur af bókum, foreldrum og þjóðlegum fróðleik. Að endingu skilur lesturinn eftir sig upplifun af gömlum stundum, kærleika, elsku, missi og sorg - enda okkar aðalstarf “Að skynja dauðann í hlutunum og verða þannig að manni”. Sannkallaður unaðslestur
Áhugaverð bók með skemmtilegum pælingum. Það var sérstaklega áhugavert að lesa hana eftir að hafa lesið um bóksala í Skotlandi og þau viðhorf til bóka sem hann er vanur.
Þessi bók er snilld. Skemmtileg, hlý, full af mannviti og gæsku. Og minnir mann á hvað bækur eru stór hluti af lífi manns. Bækur í hillu eru gamlir vinir, sem auðvelt er að banka upp á hjá. Sumar reyndar síður lesnar, en gott að vita af innan seilingar. Besta bók flóðsins! Langt síðan við höfum verið svona hrifin af nýrri bók.
Ég veit ekki hvað ég get sagt... Þessi bók er unaðsleg, æsispennandi og frábær. Í fyrra stóð ein bók uppúr hvað mig varðar og það var Leitin að svarta víkingnum, í ár er það Bókasafn föður míns. Hún er svo skemmtileg að það er ekki hægt að lýsa því (sprengdi væntingaskalann sem var samt þaninn til hins ítrasta), en framan á henni er kvót frá Silju Aðalsteinsdóttur þar sem hún segir "Gat ekki hætt að lesa, byrjaði strax á henni aftur" og það er nákvæmlega það sem mann langar að gera. Fyrir þá sem hata alls ekki "þjóðleg fræði" og fíla sig jafnvel sem grúskara þá er þessi bók hið magnaðasta vímuefni sem völ er á. Fyrir alla aðra er hún skemmtilesning. Og fyrir alla sem hafa einhvern smá áhuga á bókum býður hún uppá rosalega margt, ekki síst heimspekilegar pælingar og bara allskonar vangaveltur um bækur: Hvernig og hvers vegna þær verða til, hvað verður um þær osfrv osfrv osfrv. Bara mjög skrítið fólk hefur ekki gaman af þessu, látum það verða lokaorð að sinni.
Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson snerti streng í mér – ekki bara vegna þess að ég á svipaða reynslu að baki - að gera upp dánarbú manns sem aldrei henti neinu. Ragnari tekst frábærlega vel upp í þessari bók og spinnur á frumlegan hátt ýmsa þræði sem ekki eiga neitt sameiginlegt við fyrstu sýn. Og hann er fyndið sem er hreint ekki verra. En af hverju í ósköpunum er hún tilnefnd til bókmenntaverðlauna í flokki fræðibóka? Ragnar Helgi douze points en þetta er skáldskapur – af fínustu sort
Yndisleg bók þar sem höfundur rifjar upp minningar um föður sinn og samvinnu þeirra um leið og hann fer í gegnum bókasafn föðurins og ákveður hvað á að gera við hverja bók. Flestar þeirra fara í ruslið þó þær séu dýrmætar hver út af fyrir sig. En enginn hefur áhuga á þeim eða pláss fyrir þær.
Sérstaklega var ég hrifin af niðurstöðunni að það ættu í raun allir að skilja eftir sig bækur fyrir afkomendurna til að fara í gegnum um að leiðarlokum. Það er svo góð leið til að hugsa um þá sem eru farnir.
Einstaklega falleg og fróðleg saga. Saga af bókum og tiltangi þeirra, umfang, ferðalaögum o.fl. Gaman að stúdera pælingar höfundar um bókina sem slíka og framtíð hennar. Síst og ekki síðast fannst mér fráært að heyra höfund velta fyrir sér Dewey og kerfinu hans við flokkun bóka í bókasöfn, enda hef grunnmenntun í bókasafnsfræði. Falleg, heimspekileg og listræn umfjöllun um veraldlega hluti og mannlegar tilfinningar.
Flottar pælingar hjá Ragnari á meðan hann ferðast í tíma um leið og hann fer í gegnum bókasafn föður síns. Ég velti fyrir mér hvað verði þegar bækur verða ekki lengur prentaðar, heldur raf- eða hljóðbækur, aðallega vegna þess að ég er alin upp á heimili þar sem bækur skipuðu stórann sess og það að handfjalla bækur er viss upplifun.
Persónuleg frásögn Ragnars Helga af frágangi bókasafns föður hans, sambandi feðganna og tengslum við bækur og bækurnar í safninu. Hugleiðingar höfundar um sögu, stöðu og framtíð bókarinnar með hnyttnum tilvitnunum í efni um þjóðlegan fróðleik.
Ég virðist eiga erfitt með að tengja við íslenskar skáldsögur þessa dagana þannig að þessi sjálfsævisögulega bókaporn lofræða um þjóðlegan fróðleik er sennilega það skemmtilegasta sem ég hef lesið á árinu. Vel gert Ragnar.
Svo mikill yndislestur. Ekki hægt að hætta að lesa fyrr en bókin var búin. Falleg og mikil væntumþykja og svo ótrúlega heillandi frásögn út og suður. Skemmtilegar pælingar um þjóðlegan fróðleik.
Óvenjuleg. Innlit í huga höfundar sem grúskar allt í senn í bókum, minningum og heimspekilegum vangaveltum. Eins og að heyra innra samtal höfundar við sjálfan sig.
Þó undirrituð sé vissulega ekki hlutlaus er þetta einlæg og falleg bók sem ég mæli með fyrir alla, konur, kalla, börn og kannski sérstaklega fyrir apa sem klæðast mannafötum og reykja sígarettur <3
Hlustaði á þessa aftur, 4 ár á milli. Var í bæði skiptin að syrgja fjölskyldumeðlim og nú var ég einmitt að fara í gegnum bókaskápa foreldra minna. Kaþarsis. Passlega löng í bílferð milli Reykjavíkur og Akureyrar.