Andvaka sögukona rifjar upp ævi sína, segir frá samferðafólki, raðar saman minningabrotum og gerir tilraun til að greina samhengi hlutanna.
Horfið ekki í ljósið er leiftrandi skemmtileg skáldsaga sem sýnir kunnuglega atburði í nýju ljósi. Hún fjallar um svefnleysi, kjarnorkuvá og beinagrindur sem leynast í skúmaskotum.
Þórdís Gísladóttir hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir sitt fyrsta verk og hefur síðan hlotið fjölda viðurkenninga, meðal annars þrjár tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þetta er hennar fyrsta skáldsaga.
Fínn lestur og skemmtilegur stíll. Finnst samt sem áður vanta kjöt á beinin og bókin skilur ekkert sérstaklega mikið eftir hjá mér. Hefði verið til í meiri vangaveltur höfundar inn á milli kafla og sömuleiðis að saga hennar væri rakin betur.
Mér finnst þetta brilljant bók, mjög haganlega uppbyggð frásögn sem leynir á sér þó allt sé í rauninni sagt berum orðum. Auk þess mjög skemmtileg og látlaus í gegn.
Léttleikandi og lipur stíll. Kona situr andvaka og grípur til þess ráðs að pára niður línur um líf sitt. Niðurstaðan verður nokkuð heildstætt safn frásagna um líf hennar af hamförum í heiminu á borð við kjarnorkusprengingu, fundi löngu látins fósturs, fyrstu kynlífsreynslunni o.m.fl. Fannst helst vanta betri tenginu við sögupersónuna.
Áhugaverð innsýn inn í líf ungrar konu í Reykjavík á 9. áratuginum sem skrifar niður minningar sínar á næturnar vegna svefnleysis. Við hennar líf fléttast aðrir atburðir í heiminum. Kómískur og léttur stíll gerir lesturinn auðveldan til að grípa í og vekur forvitni hjá lesandanum. Læt ekki segja mér það tvisvar að lesa meira eftir þennan höfund.
Var búin að vera lengi á leslistanum og þegar ég byrjaði áttaði ég mig á því að ég hafði þegar lesið hana. Var alltaf að fá einhverja dejavu tilfinningu. Var jafn hrifin í annað sinn, full af smáatriðum innblástri. Svona bók um allt og ekkert sem ég kann svo vel að meta