Það er langt síðan bók hefur náð mér svona gjörsamlega. Hún er eitthvað svo kunnugleg en samt svo tryllt, tilveran svo grá en jafnframt svo æðisgengileg. Fallega skrifuð, ljóðræn og svo skapandi. Vættir er upplifun.
Fannst þessi saga heillandi. Alexander er nýr höfundur sem er að ryðja sér til rúms með nútíma fantasíum. Í þessari sögu segir frá upplifun Íslendinga af því þegar mörkin á milli okkar heims og annars virðast mást burt og ýmis konar vættir og náttúruöfl gerast sýnileg og hafa áhrif á daglegt líf fólks. Fólk reynir að láta sem það sjái ekki þessar furðuverur og leitar vísindalegra skýringa á ýmsum fyrirbærum sem eiga sér stöðugt stað, bæði hér og erlendis. Þrátt fyrir stöðuga afneitun eykst hins vegar stöðugt viðvera vættanna. Furðusagan er í dekkri kantinum og vel spennandi. Hreifst af hugmyndaauðgi höfundar og ætla mér sannarlega að lesa meira eftir Alexander Dan.
Alexander Dan snýr hér upp á kunnulegan heim og glæðir hann bjarma sem iðar af litríku hugmyndaflugi og lífi. Stórskemmtileg furðusaga uppfull kímni og spennandi atburðum sem erfitt er að slíta sig frá.
Virkilega skemmtileg nálgun á vættirnar okkar og annarra og hvernig heimar hrynja saman í eitthvað hræðilegt sambland raunveruleika og einhverrar furðu rúllast saman í hálfgeran tilbera sem maður getur ekki lagt frá sér.
Óvenju ljóðræn miðað við fantasíu, fallega skrifuð og aðalkarakterinn vel skapaður, en fremur skrítin, hæg og viðburðalítil. Það fór mikið fyrir sögusviðinu og það var flott upp byggt, en varð einhvern veginn minna úr söguþræðinum en ég vonaðist eftir.
Spennandi sögusvið, en mér fannst eins og ég hafði búist við ögn meiru af þessari bók. Skemmtilegt að lesa furðusögu sem gerist á Íslandi. Mjög hversdagsleg og auðlesin, en ég var ekki beint að tengjast aðalpersónunni það mikið.