Ung kona skrifar bók sem leggur líf hennar og mannsins sem hún elskar í rúst. Ári seinna fær hún óvænt tækifæri til að segja frá sinni hlið á málinu. En hún hefur bara eina nótt. Og sá sem hlustar er ekki allur þar sem hann er séður.
Við erum ekki morðingjar er spennuþrungin skáldsaga um ást, ofbeldi og viðkvæm leyndarmál.
Dagur Hjartarson hlaut tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins fyrir fyrstu skáldsögu sína, Síðustu ástarjátninguna. Hér sendir hann frá sér bók sem veltir upp áleitnum spurningum og mun koma lesendum á óvart.
Það eru nokkrar gagnrýnir hér sem minnast á hve lélegur endirinn á þessari bók er, og eiga þær fullan rétt á sér, hann er alls ekki góður. Það má hinsvegar ekki gleymast að á undan þessum lélega endi er heila skáldsögu að finna sem er einnig virkilega léleg.
Í þessari bók er að finna aðalpersónu sem efast um hvort hún sé ömurleg manneskja eða ekki. Það hvort að hún sé það eða ekki er kjarni sögunnar, og er hún sett þannig upp að maður á í raun ekki að geta dæmt um það fyrr en undir lok sögunnar. Höfundurinn gerir hinsvegar þau mistök að taka það fram á bls 9 að hún sé í raun "Harry Potter adult" sem ætti að gefa lesandanum frekar sterka vísbendingu í aðra áttina.
Á bls 63 er að finna línuna "þaðan fórum við á einn af þessum sviplausu veitingastöðum í Reykjavík" án þess að höfundurinn virðist gera sér grein fyrir að honum hafi hér tekist að skrifa "eina af þessum sviplausu skáldsögum í Reykjavík"
Allt í allt ekki góð bók sem angar herfilega af þeim afleiðingalausa íslenska hversdagsleika og sviplausa ritstíl sem er að finna í bókum margra þeirra höfunda—þó ekki allra—sem útskrifuðust af ritlistabraut við Háskóla Íslands.
Frábær bók sem heldur lesendanum föngum allan tímann. Það er einhver óræð ónotatilfinning sem hjúpar stemninguna. Ég fékk smá 'The Lottery' fíling frá þessari. Í því samhengi tekst höfundi hér "að blanda saman gömlu og nýju"; Bæði smáborgarabragurinn þar sem allir eru með nefið í hvers manns koppi og skoðanaskipti nútímans þar sem allir vilja vera í rétta liðinu og gefa hvergi á sér höggstað.
Geggjað hvernig frásögnum karakteranna tveggja og "nútímans" er tvinnað saman. Mér fannst gott að hún var í styttri kantinum, frekar en að hún væri með óþarfa padding. Aðal karakterinn lifandi og framvinda sögu hennar mjög spennandi.
Ein besta bók ársins. Settist niður til að glugga aðeins í hana en stóð ekki upp aftur fyrr en henni var lokið. Var að pissa í mig (bókstaflega) hálfa bókina. Þvílíkt heljargrip. Endirinn olli ekki vonbrigðum.
Þessi náði mér mjög vel, enda kanski aðeins meira að fylgja einhverri uppskrift í uppbyggingunni (m.v. fyrri bók). Spennandi, ekki fyrirsjáanleg, skrifað um kynlíf á heitan hátt og sögupersónurnar góðar. Nafnið er fullkomið og meira að segja sterkur (að mér finnst) femínískur boðskapur.
2.5 stjörnur... Óþolandi karakterar, uppfullir af sjálfumgleði og sjálfsvorkunn
Það eru samt áhugaverð þemu í bókinni eins og þunglyndi, sambönd milli fólks, tengsl á milli orsaka og afleiðinga auk þess að skoða (brotnar) sjálfsmyndir ungra karlmanna.
En hvernig þetta kemur allt saman... Það er ekkert 'resolve' eins og maður segir á slæmri íslensku. Þetta er allt eitthvað svo... Meh
Mér finnst höfundur samt hafa áhugaverðan ritstíl og mun klárlega lesa meira eftir hann.
Ég las fyrri skáldsögu Dags og var ekki neitt yfir mig hrifinn. En ég fylgi höfundnum á Twitter og þegar hann tístaði því að fyrstu þrír kaflarnir á nýju bókinni hans væru á spotify ákvað ég að hlusta. Í kjölfarið varð ég að lesa ,,Við erum ekki morðingjar". Þessi bók er listavel skrifuð. Plottið í henni er gott og karakterarnir áhugaverðir. Þetta er saga sem ég átti erfitt með að leggja frá mér.
Hvað finnst manneskjunni skemmtilegra en að heyra leyndarmál annarra? Um leið og ég hóf lesturinn gerði ég mér grein fyrir að ég væri ekki að fara að hætta að lesa fyrr en bókin kláraðist. Og sá svo sannarlega ekki eftir því
Spennandi uppbygging og lipurt frásagnarform um dularfullar sögupersónur héldu athygli minni frá fyrstu síðu og fram á þá síðustu. Mæli tvímælalaust með.
Hárnákvæm bók sem heldur manni föngnum allan tímann. Áhugaverð og raunsönn persónusköpun og falleg en á sama tíma átakanleg flétta. Ég hægt væri að gefa 6 stjörnur, myndi þessi bók fá þær!