Sigríður í Brattholti (1871–1957) er einn kunnasti náttúruverndarsinni Íslandssögunnar. Hún bjó alla sína ævi í nágrenni við Gullfoss og þegar upp komu hugmyndir um að virkja fossinn hóf hún ein og óstudd baráttu gegn þessum áformum, baráttu fyrir málstað sem hún var tilbúin að fórna lífinu fyrir. Um áratugaskeið talaði Sigríður máli fossins og vildi að hann fengi að „flæða af hamrinum ... óhaggaður af höndum manna“. Í fyrstu var það fyrir daufum eyrum en smám saman jókst samúðin með málstað hennar. Samhliða þessu þurfti Sigríður að glíma við erfiðleika á heimili sínu og í einkalífi.
Eyrún Ingadóttir er fædd á Hvammstanga 1967. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1987 og BA prófi í sagnfræði við HÍ 1993. Eyrún ritaði sögu Húsmæðraskóla Reykjavíkur 1992, sem var jafnframt BA verkefni hennar, og sögu Húsmæðraskóla Suðurlands, “Að Laugarvatni í ljúfum draumi”, árið 1994. Hún ritaði ævisögu Eyjólfs R. Eyjólfssonar, “Gengið á Brattann”, árið 1998 og var einn af fjórum meðritstjórum bókarinnar “Konur með einn í útvíkkun fá enga samúð” árið 2002.
Þakklát fyrir þessa mikilvægu skrásetning á lífi konu sem við eigum mikið að þakka og líka því skáldaleyfi sem höfundur tekur augljóslega . Gott og erfitt að setja sig inn í hennar puð og erfiða líf í rauninni. Við þurfum fleiri bækur um afrek kvenna.
Virkilega þakklát Eyrúnu fyrir að skrásetja sögu Sigríðar og baráttu hennar fyrir því að koma í veg fyrir að Gullfoss yrði virkjaður. Líf Sigríðar hefur verið undirlagt og þjakað af áhyggjum af hennar besta vini: Gullfossi. Þessi saga er mögnuð að mörgu leyti, skammsýni okkar fyrrum ráðumanna, svik og prettir fólks, m.a. fóstursonar Sigríðar - allt vegna peninga. Eyrún hefði mátt spinna meira í kring um frásögnina sem er að mörgu leyti upptalning á staðreyndum og framgangi málaferla. Þrátt fyrir að skrifin hafi ekki beint gripið mig fær bókin 4 stjörnur fyrir að fræða mig um þessa mögnuðu baráttu og ég mæli heils hugar með að allir kynni sér sögu Sigríðar því henni eigum við augljóslega margt að þakka enda er Gullfoss í dag okkar helsta söluvara til ferðamanna.
Eyrún Ingadóttir tekur áhættu með því að skrifa sögulega skáldsögu því hún hættir á að fá upp á móti sér sagnfræðinga sem vilja heimildanotkun og skáld sem vilja skáldskap og ekkert múður. Við alþýðan erum henni hins vegar þakklát því hún býður okkur dásamlega blöndu menntunar og skemmtunar umvafin þeim heimi sem Sigríður frá Brattholti ólst upp við. Þannig notast hún við sömu aðferð og í bókinni Ljósmóðirin. Hún þjónar þorsta okkar eftir góðri sögu, umhverfinu, tíðarandanum, persónusköpuninni sem og því sem skiptir máli - sögu konunnar sem bjargaði þjóðargerseminni Gullfossi. Eyrún Ingadóttir færir okkur söguna á bak við konuna sem við höfum öll virt fyrir okkur á lágmyndinni við Gullfoss. Þau ungpíusumur sem ég vann sem leiðsögumaður og fór ansi oft þangað var óhjákvæmilegt að staldra við myndinni af henni og þakka henni í huganum. Eyrún teiknar upp persónu Sigríðar, hvernig hún var líklegast á einhverfurófinu og á margan hátt afar lík hinni sænsku Grétu Thunberg. Kannski er það einmitt það sem til þarf til að bjarga heiminum, missa ekki niður lykkju í baráttunni og hafa úthald.
Tvennt grípur lesandann. Fyrst er það saga fossins og hvernig Sigríður kom í veg fyrir að hann var virkjaður. Svo er það sambýlið í Brattholti, ísöldin sem þar geisaði í mannlegum samskiptum. Eyrún lýsir því vel og lesandinn finnur umkomuleysi gamalmennis í einangrun uppsveitarinnar. Þetta er bók sem lætur engan forvitinn ósnortinn og ég mæli með lestri hennar.
Ég var rosa lengi að lesa þessa. Ótrúlega áhugaverð kona og saga og ég er nokkuð viss um að Sigríður í Brattholti hefur verið einhverf. Bókin er samt heldur þurr á köflum en miðjukafli bókarinnar nær manni vel og sérstaklega þegar öll fjölskyldan er meira og minna í Brattholti. En ég mæli með þessari bók, hörkukona sem gekk í karlastarf , bjó við pínu volæði (þeir sem þekkja mig vita að ég elska sögur þar sem er mikið volæði) og barðist fyrir ósnertri náttúruperlu,Gullfossi.
Sagan er mjög áhugaverð og gaman að lesa um fyrri tíma, ritstíllinn er þó frekar þurr að mínu mati en kannski er annað erfitt vegna heimilda og þess háttar. Svik, græðgi og mannvonska er sorglegur fylgifiskur mannkyns.
Áhugaverður fróðleikur sem hér kemur fram en þó leiddist mér lesturinn óhemju mikið, vantar upp á skrif höfundar til að gera efnið skemmtilegra yfirlestrar.