Einar Þór Jónsson vakti á sínum tíma þjóðarathygli fyrir skýra en hógværa framgöngu þegar hann steig fram sem talsmaður Geðhjálpar. Fáa grunaði þó að þessi látlausi og geðþekki maður ætti sér magnaða lífssögu að baki og háði á köflum sannkallaða baráttu fyrir lífi sínu.
Einar Þór fæddist í Bolungarvík, barnabarn Einars Guðfinnssonar útgerðarmanns sem var allt í öllu í bænum og Einar litli því hluti af ættarveldinu. Hann varð þó ekki sá erfðaprins sem hann var borinn til heldur þurfti fljótlega að berjast fyrir sjálfum sér og takast á við erfiðan móðurmissi og samkynhneigð í litlu sjávarþorpi. Síðar tók við hin átakanlega en um margt gleymda barátta samkynhneigðra við alnæmi þar sem ekki var einungis við banvænan vírus að kljást heldur lífshættulega fordóma á heimsvísu. Þá þurfti sterk bein til að horfa upp á góðvini og elskhuga týna tölunni einn af öðrum án þess að missa vonina um líf og framtíð – hvað þá hamingju og ást.
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir skrifar þessa áhrifamiklu og um margt átakanlegu baráttusögu Einars Þórs Jónssonar af innsæi og næmi. En saga Einars verður um leið saga síðustu áratuga og leiðir í ljós að hin þrotlausa barátta fyrir mannlegri reisn getur stundum átt sér farsæl endalok.
Lauk í fyrrakvöld við bókina Berskjaldaður: Barátta Einars Þórs fyrir lífi og ást eftir Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur. Vel við hæfi á Alþjóðlega alnæmisdeginum 1. desember.
Fyrir mér er þessi saga ofin úr þremur þykkum þráðum:
Fyrsti þráðurinn er persónuleg saga Einars. Vegur hans í gegnum lífsins hæðir og lægðir, sorgir og sigra. Frásögn af því hvernig einstaklingurinn Einar hefur þroskast og mótast í gegnum mótbyr og meðbyr, í samspili við sjálfan sig, ástvini og samferðafólk. Lífsförunautinn. Sagan af því hvernig hann hefur snert við öðrum og hvernig aðrir hafa snert við honum.
Annar þráðurinn er saga af samfélagi. Bolungarvík. Þessa Vestfjarðataug tengi ég afar sterkt við, verandi hommi að vestan eins og Einar. Ég sé hreinlega sjálfan mig í mörgu því sem hann lýsir. Þetta er taugin sem felur í sér uppvöxtinn í Bolungarvík. Stórfjölskylduna. Þetta er sagan af hinni oft á tíðum mótsagnakenndu togstreitu milli þess annars vegar að alast upp í öryggi, eftirliti og normum litla bæjarins, þar sem allir þekkja alla, og hins vegar því að þrá að komast burt. Missa mögulega ákveðið öryggi en njóta þess í stað frelsis til að vera sinn eigin maður. Byggja sína eigin tilveru, á eigin forsendum, fjarri vökulum augum, boðum og bönnum. Fjarri hinum stórbrotna fjallahring sem getur þrengt að manni og þyrmt yfir.
Þriðji þráðurinn, sem ég tengi líka sterkt við, eru tvær sögur af samfélögum. Sagan af hommasamfélaginu og sagan af samfélagi HIV smitaðra. Þetta eru í raun tveir þræðir en svo samofnir að oft er erfitt að greina á milli. Þarna eru ómetanlegar manneskjulegar sögur af tilveru fólks sem fáir ef nokkrir vildu vita af og enn færri sagt frá opinberlega. Sögur markaðar höfnun, ótta, djúpri sorg og reiði. En í þeim er líka að finna samstöðu, samtakamátt og væntumþykju. Mannlega reisn. Einn áhrifaríkasti og eftirminnilegasti þráður bókarinnar. Mikilvægur og ómissandi hluti íslenskrar hinsegin sögu.
Inn í þessa þrjá megin þræði flétta Einar og Gunnhildur svo ótal aðra þræði, stutta og langa.
Berskjaldaður er saga um þann sem passar ekki inn. Þann sem fellir grímuna, rís upp gegn ríkjandi gildum og skapar sér rými til að lifa í sátt við eigin tilfinningar og sannfæringu. Þetta er saga um átök, uppgjör og missi. Breyskleika. Saga um sjúkdóma, sársauka og sorg. Vonbrigði, vonleysi og ótta. Óttann við að deyja. En þetta er líka saga um hugrekki, vöxt og þroska. Virðingu, vináttu og gæsku. Saga um botnlausa ást. Ást til lífsins.
Hér er á ferðinni blátt áfram, hlý og hrífandi lífssaga þar sem ekkert er dregið undan. Berskjaldaður er stórmerkileg og mikilvæg bók sem á erindi við okkur öll.
Ég var um tvítugt þegar Einar sagði:"Stig, jeg elsker dig." í sjónvarpinu. Ég man óvenju vel eftir þessum fallega manni. Ég hafði nýverið farið sem skiptinemi og fékk við það tækifæri bækling um HIV veiruna á undirbúningsfundi. Aldrei var neinn nafngreindur en svo kom Einar. Ég bæði hló og grét við lesturinn. Ég var þeirra gæfu aðnjótandi að kynnast mörgu samkynhneigðu fólki á háskólaárum mínum sem voru '93 til '97 í gegnum meðleigjanda. Ég man eftir þessu groddatali hommana og hló þegar minnst var á það. Ég grenjaði líka alveg svakalega. Þvílíkt og annað eins sem þetta hefur verið erfitt þegar þessir ungu menn hrundu niður úr sjúkdómi sem varla mátti tala um. Hló þegar minnst var á Árna Pétur í búðinni. Vil ekki spilla fyrir og spoila hvað hann hrópaði! Skemmtilegt að heyra líka um Bolungarvík og lífið þar. Ég hef lesið "Þerraðu ekki tár án hanska". Mæli með ef þú hefur ekki lesið en fílaðir þessa. Hvernig er það, er ekki hægt að koma þessari bók inn í kennsluskrá?
Þessi bók er bæði opinská og þroskandi aflestrar. Þetta er ævisaga Einars Þórs Jónssonar en samt ekki bara hans ævisaga heldur einnig sagan af því hvernig heimur samkynhneigðra tekst á við HIV og alnæmi í heimi þar sem fordómar eru svo til allsráðandi. Takk Einar fyrir þessa bók.
Einstök frásögn. Gunnhildur Arna er frábær penni og segir sögu Einars á svo næman og heiðarlegan hátt. Lestur Kristjáns Franklíns á hljóðbókinni gerir upplifunina enn magnaðri.