Bjarmalönd er í senn upplýsandi, stórfróðleg og bráðskemmtileg svipmynd af heimshluta sem fjallað er um í næstum hverjum fréttatíma, hvort sem um er að ræða stríðið í austurhluta Úkraínu eða mótmæli gegn Lúkasjenkó í Hvíta-Rússlandi, átök um Nagornó Karabak eða ráðgátuna Pútín. Valur Gunnarsson, sagnfræðingur, rithöfundur og blaðamaður, drakk á unga aldri í sig fréttir af stjörnustríðsáætlunum og kjarnorkuvá, og kjarnorkuslysið í Tsjernóbíl virtist staðfesta að allt gæti gerst. Svo féll múrinn, Sovétríkin leystust upp og friðvænlegra virtist um hríð. Á landakortinu birtust ýmis ríki þar sem risaveldið hafði áður verið: Eistland, Lettland og Litáen, Úkraína og Hvíta-Rússland, ný -stan-lönd í Mið-Asíu og átakasvæði við Kákasusfjöll. Að ógleymdu Rússlandi sjálfu. Ný heimsmynd sótti á hugann. Undir lok síðustu aldar var Valur við nám í Rússlandsfræðum í Finnlandi og fór loks yfir landamærin til Rússlands, í fyrsta sinn af mörgum. Síðan hefur hann búið í Eistlandi og Rússlandi og heimsótt flest hinna fyrrum Sovétríkja. Veturinn og vorið 2020 dvaldi Valur í Úkraínu á tímum kófs, og heimsótti þá m.a. Hvíta-Rússland rétt fyrir uppþot. Bókin er afraksturinn af þessari dvöl og ferðalögum, fræðistörfum og greinaskrifum undanfarinna 20 ára.
Valur Gunnarsson (b.1976) is a historian, author, and journalist. His childhood was divided between Iceland, Norway and Great Britain, and as a teenager he spent his summers in Saudi-Arabia in the aftermath of the First Gulf War. He was co-founder and first editor of the English language paper Reykjavik Grapevine in 2003, which is still going strong. As correspondent for Associated Press and The Guardian, he covered such events as the return of Bobby Fischer, the economic crisis and the Eyjafjallajökull eruption. His previous novels include King of the North (2007) and The Last Lover (2013), both of which received excellent reviews. He has been interested in World War II ever since his grandmother, who worked for the phone company, told him about the time she saw Winston Churchill speak outside the Parliament building in downtown Reykjavik.
Stórfróðleg og skemmtileg bók. Á þessum innrásartímum Rússa í Úkraníu er bókin sérlega áhugaverð og lýsir höfundur sögu, stöðu og einkennum þessa heimshluta sérlega vel.
Assgoti skemmtilegt og fræðandi. Ferðir og kvennafar höfundar og saga Austursins í fortíð, nútíð og framtíð sett fram á mjög aðgengilegan og spennandi hátt í stuttum köflum sem halda manni við efnið. Ég mæli heilshugar með þessari.
Bravó! Þetta er í stuttu máli sagt frábær bók. Lipurlega skrifuð og full af fróðleik. Víða er stutt í kímnina og er hér er hellingur af snjöllum setningum og málsgreinum. Höfundurinn hefur farið víða og kynnst því á eigin skinni sem hann lýsir. Þessu lýsir hann og blandar síðan inn sögulegum fróðleik. Þessi bók ætti hiklaust að fá einhver verðlaun og hún á skilið að seljast í bílförmum. Það eina sem ég skil ekki er af hverju útgáfan hefur ekki lagt meira í hana, hún kemur bara út aprílmánuði og þá sem kilja. Ég hefði viljað sjá þessa bók sem alvöru flaggskip í jólabókaflóði; harðspjalda í almennilegu bandi, - fallegan og eigulegan prentgrip með kortum og ljósmyndum sem hefðu fyllt út í frásögnina en ekki bara í kiljuformi. En ég gef henni samt fullt hús stiga því textinn er svo góður. Svo fylgir með almennileg nafnaskrá í restina sem er mikill kostur.
PS-viðbót sett inn í des. 2021: Ég fékk höfundinn Val Gunnarsson í klukkutíma spjall til mín á Útvarpi Sögu 3. des. 2021. Hér er hlekkur á það: https://www.utvarpsaga.is/thaettir/?m...
Lét loksins verða að því að lesa Bjarmalönd. Kannski óttaðist ég að hún ylli vonbrigðum. En hún er stórgóð og næstum skyldulesning þeirra sem vilja skilja betur flókna sögu austur Evrópu. Skemmtilegast var þó að lesa um daglegt bras höfundar á þessum framandi slóðum.
Valur veit hvað hann syngur! Ótrúlega sober og einlæg frásögn. Líka skemmtilegt að kynnast hverju svæði út frá fólki sem höfundur hrærðist með á einhverjum tímapunkti.
Þetta er virkilega góð bók sem útskýrir ýmislegt sem þessi lönd varðar á máli sem maður skilur. Auðvitað var útilokað að meðtaka allt enda um gífurlega mikið upplýsingaflæði að ræða en ég held að ég hafi nú náð flestu. Ég var nýbúin að klára bókina þegar Putin lýsti yfir sjálfstæði Dombasa-héraðanna svo ég held að ég skilji það mál aðeins betur eftir lestur bókarinnar en þó held ég að enginn skilji Putin svo auðvitað veit ég ekkert hvað er að gerast þar.
Ég verð reyndar að lýsa yfir mikilli furðu á því hversu þrautseigur Valur er við það að fara á stefnumót með austurevrópskum konum því hann hefur augljóslega ekki efni á því. Þarna er greinilega svakalegur menningarmunur því ég stóð mig að því að hneykslast á þessum konum en ég veit auðvitað ekki hvernig það er að vera þær og hvað þarf til að komast að. Svo ég reyni að dæma ekki.
Skemmtileg sagnfræði. Saga fyrrum Sovétlýðvelda sögð af höfundi sem hefur gist jafn ólíklega staði og Almaty, Múrmansk og Hvíta-Rúss, að ógleymdum Kænugarði. Hann hefur djammað með útlendingum á stöðunum og gert sér dælt við konurnar með oft vonlausum árangri, en aldrei gefist upp. Lesandi fær góða innsýn í lífið og tilveruna á þessum svæðum, auk margvíslegs fróðleiks um söguna. Stalín vildi helst Georgíuvín, þó vodki væri það opinberlega, Krústjoff var hrifinn af Pepsi, Jeltsín var alki og Pútín bindindsmaður. Það kostar morð fjár að vera kona þar eystra vegna fegurðarstaðla og höfundur endar á að fá blómvönd í hausinn, enda stenst hann engar kröfur sem almennilegt deit til lengdar. Mæli með, góð lesning.
Skemmtilegar frásagnir (og vissulega líka dapurlegar) af flakki höfundar um fyrrum sovétlýðveldi ásamt heilmikilli umfjöllun um söguna að baki. Mjög vel lestrarins virði, einkum ef þú hefur áhuga fyrir á þessum samfélögum.
Stórfín bók. Maður lærir helling um steminguna í austrinu og sögu þess. Allur lærdómurinn er svo kryddaður með trega og eftirsjá höfundar eftir þeim konum sem hann hittir þar og missir frá sér.