Ég las Ben Húr um það bil annað hvert ár sem barn og unglingur og það var með hálfum hug sem ég réðist í upprifjun á henni. En ég uppgötvaði að hún stendur enn fyrir sínu. Þó ég hafi lært að lesa með kynjagleraugun á nefinu finnst mér ekki erfitt að horfa framhjá kynjahallanum og staðalímyndunum í góðum söguþræði þegar litið er til útgáfuársins 1880. Árið sem þessi saga kom út voru tæp 70 ár í að The Hero with a Thousand Faces kæmi út og The Writer’s Journey kom ekki út fyrr en 1992. Samt tókst Lewis Wallance að haka í öll box hlutverkanna og ferðalags hetjunnar í skrifum sínum. Þarna er hinn venjulegi heimur og sparkið af stað í ævintýrið/ferðina, þarna er hetjan og mentorinn og öll hin hlutverkin sem við leitum nú að í handbókum fyrir rit- og handritshöfunda. Auðvitað var þessi uppskrift notuð í ævintýrum og sögum um aldir og greind og rýnd við upphaf bókmenntafræði og ritlistarkennsla til í heiminum löngu fyrir útgáfu fyrrgreindra bóka og flóðbygjunnar í námi í skapandi skrifum. En þannig kennsla er ekki nútímafyrirbæri, bæði Aristóteles og Snorri Sturluson kenndu ungskáldum að skrifa en það er bara svo áhugavert að sjá hvernig þessum hlutverkum var raðað upp alveg eftir bókinni fyrir 140 árum. Þó svo hlutverkin í sögunni séu einföld og auðgreinanleg og söguþráðurinn fylgi formúlunni er bara gott á fá áminningu um að það er einmitt þessi uppskrift sem fangar lesandann. Bara rétt eins og hæfilega blanda af sykri og fitu í góðum kökuppskriftum.