Eftir sambandsslit hrökklast Hallgrímur heim úr leiklistarnámi í erlendri stórborg til að fara á geðdeild. Heimurinn hefur snúist á hvolf og draugar elta hann hvert fótmál. Þaðan fylgjum við sögu hans sem hverfist í senn um par að stíga sín fyrstu skref í heimi fullorðinna, gömul fjölskylduleyndarmál sem brjótast upp á yfirborðið og ungan mann sem bisar við að koma lífi sínu á réttan kjöl.
Mér fannst hún fín en það var eitthvað við stílbragðið sem fór í taugarnar á mér. Mér finnst pirrandi þegar það eru of margar stuttar setningar í röð, 1-5 orð. Finnst það eins og að narta með músarbitum í kex eða depla ógeðslega hratt. Svo renndi ég yfir aðrar færslur og næstum því allir segja að bókin sé auðlesin. Er það gott? Þetta er vangavelta sem hefur setið í mér lengi, alveg óháð þessari bók. Er það góður mælikvarði á gæði bókar að maður sé fljótur að klára hana?
Vá, vá, vá! Algjörlega frábær bók! Greip hana í flýti í Leifsstöð og hún kom mér þvílíkt á óvart. Fallega skrifuð saga um andleg veikindi sem hreyfði mikið við mér.
Bókin er hraðlesin, mig langaði ekki að stoppa og las hana á einum degi. Á tímabili leið mér eins og ég væri stödd með honum í öllum kvíðanum, sem mér þótti bera vott um að ég tengdist persónunum vel.
Titill bókarinnar þykir mér mjög skrýtinn, bókin er ekki um sjálfsvorkunn og hún kemur í raun málinu ekkert við. Ég skil alls ekki hvers vegna þessi titill varð fyrir valinu.
Góð! Öll bókin er hugsanaflaumur aðalpersónunnar sem skapar rosalega mikla samkennd með honum. Ljóðrænn díalógur á köflum sem gerði mikið fyrir lesturinn.
Fínasta frumraun. Fjallar um mann sem glatar andlegu heilsunni, alls engin vöntun á þannig skáldsögum. Geðsjúkdómar eru íslenska töfraraunsæið. Hefði ég verið kallaður að borðinu hjá ritstjórn hefði ég mælt með að sleppa því að láta Hallgrím veikjast svona alvarlega. Prófa að láta hann frekar bara grotna niður í meðalmennskuna (of grimm örlög?) og þetta segi ég vegna þess að Eiríki tekst ótrúlega vel að skrifa um aðstæður þar sem sögupersóna fótar sig illa í félagslegum aðstæðum og um sjálfsmeðvitund. Allavega ímynda ég mér að hægt hefði verið að færa söguna yfir á eitthvað BragaÓlafs'svið án þess að tapa því sem best var gert í bókinni.
Að erfa dimman skóg (Fréttablaðið, 23. september 2021)
Stóra bókin um sjálfsvorkunn er fyrsta skáldsaga Ingólfs Eiríkssonar sem hefur látið til sín taka á ritvellinum undanfarið. Fyrr á árinu sendi hann frá sér ljóðverkið Klón: Eftirmyndasaga, ásamt hönnuðinum Elínu Eddu, en hann er auk þess einn höfunda verksins Þægindarammagerðin, sem kom út í sumar.
Stóra bókin um sjálfsvorkunn er vel skrifað verk og ljóst að höfundur hefur gott vald á tungumálinu og efnistökunum. Skáldsagan segir frá unga leiklistarnemanum Hallgrími, sem flyst til breskrar stórborgar ásamt menntaskólakærustunni sinni, Aðalheiði. Þegar komið er út byrjar andlegri heilsu Hallgríms að hraka til muna, hann missir smám saman bæði tökin á náminu og sínu persónulega lífi og neyðist að lokum til að snúa aftur heim og leggjast inn á geðdeild. Allt þetta kemur fram á fyrstu blaðsíðum bókarinnar, en einn áhugaverðasti eiginleiki verksins er hvernig höfundi tekst að segja söguna með því að stokka upp í línulegri framvindu frásagnarinnar með því að láta hvern og einn kafla gerast á ólíkum tímaskeiðum. Það gæti tekið lesendur nokkra kafla að komast inn í taktinn í verkinu, en bókin flæðir þó einstaklega vel og meðvitað samhengisleysið passar fullkomlega við hugarheim hins andlega veika Hallgríms.
Það mætti hálfpartinn segja að bókin væri of vel skrifuð, svo fínlega ofin er hún að þar er hvorki að finna orð né staf á röngum stað. Þá hljómar hún á köflum eins og tékklisti fyrir menningarheim forréttindahipstera aldamótakynslóðarinnar, en vísanir í James Blake-tónleika á Sónar, Barbour-jakka úr Herrafataverzlun Kormáks og Skjaldar og leiksýninguna Sleep No More í New York, kjarna fullkomlega tíðaranda þeirrar kynslóðar um miðjan síðasta áratug.
Tvö helstu leiðarstef bókarinnar eru minningar og áföll sem erfast á milli kynslóða. Bókin fjallar að miklu leyti um samband Hallgríms við móðursystkini sín, rithöfundinn Grímu og útvarpsmanninn Gísla, en Hallgrímur virðist hafa erft sitthvað af þeirra eiginleikum og erfiðleikum. Andlegt ferðalag Hallgríms speglar líf Grímu sem bjó og lést í sömu borginni tuttugu árum áður og glímdi sjálf við andlega erfiðleika. Leiklistarneminn ungi verður svo upptekinn af því að púsla saman síðustu ævidögum frænku sinnar að það jaðrar við þráhyggju. Þá hefur Hallgrímur erft þörf Gísla til að skrásetja allt sem á daga hans drífur niður í dagbók og verða færslurnar sífellt ítarlegri og áráttukenndari eftir því sem andlegri heilsu hans hrakar.
Eitt sterkasta tákn bókarinnar er hinn dularfulli Tómas sem birtist Hallgrími á ögurstundum, sem eins konar birtingarmynd undirmeðvitundarinnar. Tómas dúkkar upp af og til í líki sálfræðings, dularfulls vinar eða sem staðgengill sænska Nóbelsskáldsins Tomas Tranströmer. Ljóðabók þess síðastnefnda, Sorgargondóll, spilar stórt hlutverk í ferðalagi Hallgríms um andleg undirdjúp hans. Á einum stað í bókinni, þegar óráð Hallgríms rís sem hæst, sér hann frænku sína fyrir sér gangandi um götur borgarinnar klædda í birkiskóg. Þar er án efa á ferðinni tilvísun í ljóðið Madrigal eftir Tranströmer, upphafslína hvers er ein þekktasta ljóðlína norræns nútímaskáldskapar: „Ég erfði dimman skóg þangað sem ég fer sjaldan.“ Það mætti segja að Madrigal, fremur en Sorgargondóll, endurspegli andlegt ferðalag Hallgríms, ferðalagið um hinn dimma skóg sem hann hlaut í arf. En líkt og segir annars staðar í ljóðinu þá er einnig „einhvers staðar í lífi okkar mikill óupplýstur kærleikur“ og undir lok bókarinnar finnur Hallgrímur þennan kærleika á stað sem hann hefði ef til vill átt að leita á mun fyrr.
Endir bókarinnar er nokkuð fyrirsjáanlegur og uppgjör Hallgríms við djöfla sína mun sennilega ekki koma mörgum lesendum á óvart. Það kemur þó ekki að sök enda passar hann vel við það sem að framan gengur og sagan er vel til lykta leidd í fallegan frásagnarboga. Gaman hefði þó verið að sjá höfund taka örlítið meiri áhættu og leika sér meira með súrrealismann sem einkennir kaflana er lýsa andlegum veikindum Hallgríms, því þeir eru án efa áhugaverðasti partur bókarinnar.
Niðurstaða: Ljóðræn og vel skrifuð frumraun frá höfundi sem er mikils að vænta af.
Virkilega skemmtilega skrifuð bók um Hallgrím sem flytur til London með kærustunni sinni til að nema leiklist en snýr aftur heim til þess að leggjast inná geðdeild. Ég át þessa bók, stuttir kaflar og skemmtilegar lýsingar. Mikið flakkað fram og til baka án þess að vera ruglingslegt. Hallgrímur alveg yndisleg aðalpersóna sem ég tengdi mikið við og ég vona að hann hafi það gott í dag. Mæli. Með.
Bókin hélt mér fanginni frá fyrstu síðu og ég lagði hana ekki frá mér fyrr en ég kláraði hana. Höfundur er hreinskilinn um eigin veikindi og aðstæður og veitti góða innsýn í líf ungra námsmanna í útlöndum.
Virkilega góð bók. Rennur vel og vekur hægt og rólega með manni ónotatilfinningu. Maður heldur eiginlega með og skilur bæði Hallgrím og Aðalheiði. Ein af þessum bókum sem maður verður smá svekktur þegar bókin klárast.
Góð bók og vel skrifuð. Lýsir á einkar næman hátt ferð ungs manns inn í heim geðveiki, veruleikafirringar og sambandsslita. Stjörnugjöf lesenda í toppi, enda á bókin það vel skilið.
Mjög vel skrifuð bók sem geðsjúklingur eins og ég tengi vel við. Lýsing á þráhyggjuröskun til fyrirmyndar og ljúfsárt hvernig maður fylgist með aðalsöguhetjunni renna yfir í geðveiki eða geðrof. Svo góð bók að ég bæði keypti hana og hlustaði á Storytel.
This entire review has been hidden because of spoilers.