Árið 1828 myrti Friðrik bóndasonur í Katadal nágranna sinn, bóndann og lækninn Natan Ketilsson á Illugastöðum í Húnavatnssýslu. Ráðskona Natans, Sigríður, og vinnukona hans, Agnes, lögðu á ráðin með Friðriki, eggjuðu og veittu dygga aðstoð. Þremenningarnir brenndu svefnhús Natans til að leyna verknaðinum sem framinn var í auðgunarskyni og hjálpuðust að við að fela þýfið svo að það yrði ekki eldinum að bráð.
Björn Blöndal sýslumaður blés til dómþinga um málið í héraði. Nákvæmar yfirheyrslur yfir sakborningum og sveitungum þeirra eru hér raktar en þær varpa nýju ljósi á málið og færa lesanda nær raunverulegum vettvangi en þekktar sögur munnmælanna.
Þórunn Jarla Valdimarsdóttir hefur skrifað tugi bóka, skáldverk og fræðirit, þar á meðal bækurnar Snorri á Húsafelli, Upp á Sigurhæðir – saga Matthíasar Jochumssonar og Skúli fógeti – faðir Reykjavíkur. Hún kann þá list að lýsa upp kima horfinna hátta og opna dyr inn í heima á mörkum forneskju og upplýsingar.
Þórunn studied Art and Art History at the Instituto Allende in Mexico, before getting her BA in English and History, and then a masters in History, from the University of Iceland. She has worked as a writer for nearly all of her professional life, penning articles in magazines and working on radio or television programmes as well as her books. She has written poetry, novels, children's books, plays, biographies and histories.
Mér datt í hug þegar ég las að kannski væri þessi bók fyrsta glæpasagan sem út kemur á Íslandi sem mark er takandi á.
Þetta mál allt er eins og reyfari og löngu tímabært að við fengjum að vita hvað gerðist, skýrt og skorinort án alls rómantíkurvaðals og kjaftæðis, þegar Natan Ketilsson og Pétur Jónsson voru myrtir, bær Natans rændur og eldur borinn að. Þetta var hrottalegt níðingsverk. Því er vel lýst í bókinni samkvæmt því sem kom fram við yfirheyrslur og athuganir á vettvangi. Til að skemma ekki lestrarupplifun annarra fer ég ekki nánar út í það.
Mjög fín bók og vel unnin. Það eina sem ég saknaði var að mig hefði langað til að sjá ljósmyndir í henni, t. d. af málsskjölum og vettvangi atburða, jafnvel kort. Það hefði alveg mátt splæsa í eina myndaþyrpingu eða tvær. Læt það þó ekki trufla mig um of og segi fimm stjörnur.
Mæli með þessari bók, fyrir þá sem vilja lesa um þetta fræga mál. Ótrúlegt hvað drengurinn Friðrik hefur verið efnilegur glæpamaður snemma og ekki er síður athyglisvert að hann skuli vera hvattur til morðsins af móður sinni og unnustu óléttri, halda við Agnesi og er að gera hosur sínar grænar fyrir Siggu ráðskonu Natans. Þarna er unnið uppúr heimildum sem eru miklar því nánast allt er til skráð. í bak og fyrir.
Í bókinni, Bærinn brennur, varpar Þórunn tímabæru ljósi á hræðilega atburði sem við Íslendingar höfum sýnt áhuga í hartnær tvær aldir. Siðblindur unglingur myrðir tvo einstaklinga að yfirlögðu ráði á hrottalegan hátt. Með í ráðum er vinnukona og unglingsstúlkan sem báðar bjuggu á heimili annars þeirra sem féll fyrir hendi morðingjans. Málið hefur lifað með þjóðinni frá því að morðin áttu sér stað og fengið fjölda vængja sem hafa flogið með það víða, nú síðast alla leið til Hollywood. Yfir persónur hafa frásegjendur frá fyrstu tíð varpað margs konar ljósi; skýru, villandi, gildishlöðnu og upphöfnu. Fyrir þá sem vilja skilja málið á hlutlægan hátt er bókin mjög áhugaverð lesning og upplýsandi.
Þórunn er drifin áfram af þeim þunga sem Eggert Þór Bernharðsson heitinn, eiginmaður hennar, skynjaði á unga aldri sem afkomandi böðulsins Guðmundar Ketilssonar, bróður fórnarlambsins Natans. Þýðingarmikil ástæða fyrir ritun bókarinnar er að varpa réttu ljósi á persónur og leikendur í þessum mikla harmleik. Gerendur eru þjófar og hyski með viðbjóðslegan ásetning og eru öll langan veg frá því að vera hetjur. Þeir sem taka við hryllingnum njóta sannmælis gegnum dómsskjöl. Þar með talið Björn Blöndal sýslumaður og Guðmundur Ketilsson böðull. Þórunni tekst ætlunarverkið með aðdáunarverðum hætti og skilar því með sérlega skemmtilegum og persónulegum stíl.
Skemmtileg og vel skrifuð bók sem hvorki er reyfari né glæpasaga í nútíma skilningi þess orðs.
"Skiljanlegra verður fyrir vikið hvernig hryllingsblómið óx og dafnaði uns það opnaðist."
Ég er ekki að grínast - eða ýkja - en ég hef alltaf fundið á mér að eitthvað væri bogið við hina opinberu skýringu, eða þjóðsögu öllu heldur, um morðið á Natan og hina greindu og góðu Agnesi... Samt bjóst ég ekki við því að hin sanna saga væri svona rosalega svæsin, og nálægt því að réttlæta allar mínar grunsemdir um að ekki væri allt með felldu. Ég gat sko ekki einu sinni fengið af mér að lesa "Náðarstund" á sínum tíma, því mig langaði ekki að lesa um það hvað Agnes ætti bágt fyrir að hafa fengið dauðadóm fyrir morð eða eitthvað álíka (er samt ekki að segja að Náðarstund sé alfarið þannig en ég ímynda mér það, miðað við það sem ég hef heyrt).
Til að vera ekki alltof langorð þá segi ég bara að ekkert við þetta morð er eins og flest okkar halda. Að vissu leiti er það ekki eins spennandi einsog ef það snerist bara um ástarsambönd og ástríður (það er samt yfirdrifið nóg af þeim þarna líka), en Þórunn Jarla nær að gera beinhörðum heimildum svakalega góð skil í blæbrigða- og innihaldsríku máli, og hugur manns til hinna myrtu og morðingjanna (og allskonar annars fólks sem tengdist glæpnum) kemst nálægt því að vera viðeigandi. Ég er ekki sammála öllu sem hún gefur sterklega í skyn útfrá sinni skoðun, aðallega hvað varðar Sigríði, en það er auðvelt að gefa sig að hennar fræðimennsku og listfengi (svona hrós fá ekki margir íslenskir höfundar frá mér).
Fyrir true crime aðdáendur þá er þetta líka mögnuð bók, morðið er hrottalegt og morðinginn og hans fylgjendur af meira spennandi taginu.
Þetta er fróðleg lesning og mikil heimildavinna, einkum í fundargerðum frá fjölmörgum yfirheyrslum yfir hinum grunuðu, sem gefur bókinni gildi. Þær setja jafnframt spurningarmerki við sannleiksgildi ýmissa lífsseigra sögusagna, einkum um þau sem voru tekin af lífi. Þótt hinn myrti, Natan, hafi vissulega ekki verið beinlínis til fyrirmyndar þá sýna þessar heimildir að hinir seku, og ekki síst Friðrik, hafa langt því frá verið sakleysið uppmálað og fórnarlömb í þessum hildarleik.
Verð hins vegar að viðurkenna að mér fannst höfundur teygja lopann fullmikið fyrir minn smekk. Nokkuð mikið um endurtekningar þótt sumar þeirra hafi vissulega átt rétt á sér. Textinn var líka á köflum svolítið þurr og stirður sem kannski má að einhverju leyti rekja til eðlis heimildanna þar sem Kansellistíllinn tók oft yfirhöndina.
Mér fannst bókin fróðleg og varpa nýrri sýn á þetta mál. En frásögnin var full ruglingsleg, sérstaklega framanaf. Það hefði verið til bóta að hafa kort og tímalínu atburða uppteiknaða, þannig að ekki þyrfti að vera fletta fram og til baka til að átta sig á samhenginu.
Eins og flestar gamlar íslenskar sögur getur verið erfitt að fylgja henni á köflum. Fínasta saga sem fléttast inn í líf þekktra íslenskra persóna sem flestir ættu að kannast við.
Ekkert eðlilega áhugaverð bók. Er búinn að söngla í höfðinu á mér “Allt eins og blómstrið eina” eftir Hallgrím Pétursson stanslaust eftir að ég lagði hana frá mér.