Salóme týnir kettinum sínum rétt fyrir jólin og í örvæntingarfullri leit sinni venur hún komur sínar á Kringlukrána. Hún sest við barinn og skrifar bréf þar sem hún opinberar sig í fyrsta sinn. Bréfin eru stíluð á hina dularfullu Helgu sem vann með Salóme í versluninni Betra lífi tíu árum fyrr. Með lifandi frásagnargleði afhjúpar hún sjálfa sig og leitar skilnings á fjölskyldusögunni, ástinni og sálarstríði ungrar konu í grátbroslegum smábæjarharmleik þriggja ættliða á Akranesi. Við sögu koma spákona í Fossvogi, drykkfelldur organisti og auðvitað örlagavaldurinn Helga. Hér er á ferðinni martraðarkennd uppvaxtar- og ástarsaga úr rammíslenskum veruleika.
Júlía Margrét Einarsdóttir er með MA gráðu í ritlist frá Háskóla Íslands og MFA gráðu í handritagerð frá New York Film Academy. Hún hefur áður sent frá sér nóvellu og ljóðabók og sló eftirminnilega í gegn með sinni fyrstu skáldsögu, Drottningunni á Júpíter (2018). Samhliða skrifum starfar Júlía við menningarblaðamennsku og dagskrárgerð.
Ég hélt mér fyndist hún bara fín, hélt mér alveg við efnið en ég var ekki í neinum hám-lestri. En það var alveg þangað til ég kláraði hana og vá. Ég sakna persónanna strax. Frábær bók! Verst finnst mér þó að útvarp Kolkrabbi sé ekki til í alvörunni.
Mjög ljúfsár og falleg bók. Ég mæli virkilega með henni. Sérstaklega fyrir þá sem stunduðu Kringluna í kringum 2000. Á örugglega eftir að lesa hana aftur við tækifæri.
Ó, vá. Ég veit ekki hverju ég bjóst við en bókin fór fram úr mínum björtustu vonum. Persónurnar voru æðislegar, sérlega baksaga þeirra margra. Endirinn var vonbrigði og of margar fléttur ókláraðar. Ég naut lestursins þó virkilega mikið, afskaplega vel skrifað. Enginn rembingur eða tilgerð. Ári of sein á vagninn en nú er ég er kominn á hann, vagn Júlíu Margrétar. Hlakka til að lesa meira eftir hana þegar þar að kemur!
Fallega skrifuð fjölskylduflétta þar sem malandi rúllustigar Kringlunnar, töfrar Betra lífs og ljúfsár bernska koma við sögu. Sögupersónurnar eru fjölbreyttar, litríkar og trúverðugar. Í ljóðrænum bréfum sínum til Helgu rifjar Salóme upp afhverju leiðir þeirra skildu og hvernig áföll erfast milli kynslóða. Þetta er bók fyrir alla sem fóru í Kringluna árið 2000, eiga dysfúnktional fjölskyldu og/eða trúa á eitthvað stærra en sjálfan sig.
Hún byrjaði vel og ég fékk nostalgíu tilfinningar hægri, vinstri og tengdi vel við tíðarandann enda upplifði ég Kringluna og tískuna á þessum tíma. Þegar ég var hálfnuð með bókina fannst mér hún fara að dala. Hún var löng og ég enda með að hraðlesa síðustu 6 kaflanna. Ég hlakka samt til að sjá hvað kemur næst frá höfundi.
Frekar þunnur þrettándi. Bókin bauð upp á góða byrjun en svo fjaraði undan söguþræðinum. Þó ég hafi enga vitneskju um hvernig bókin var skrifuð eða á hvaða tíma þá hvarflaði sú hugsun að mér að höfundur hafi haft lítið fyrir stafni í Covid og að ritstjóri hafi verið í veikindaleyfi.
óvenju langt tímabil fyrir bók, greip mig aldrei þannig að ég gæti ekki lagt hana frá mér og las því aðrar á milli. smá langdregin, en goð og falleg saga - ótrúlega vel skrifuð og skilur mann eftir með eitthvað til umhugsunar 🙏🏻