Til að bregðast við yfirvofandi miðaldrakrísu, sem kemur ekki síst fram í eilífu tali um dren og skólplagnir, fær Halla vini sína sem öll eiga sér skrautlega fortíð til að stofna með sér metalband. Það þarf að redda mörgu en erfiðastur er alvarlegur skortur á tónlistarhæfileikum.
Samhliða sérkennilegum hljómsveitaræfingum geisa stormar í einkalífi Höllu. Leitin að ástinni í öllum sínum myndum krefst mikilla fórna og veldur stöðugu tilfinningatjóni.
Fyndin og grípandi en um leið sár og djúp saga um fólk sem reynir að finna fótfestu í glerhálu lífinu.
Hló mikið upphátt við að hlusta á þessa. Lét mig langa að stofna metalband með vinum mínum.
Svo kannski vegna þess hversu stutt það er síðan ég las Kópavogskróniku, en þá fannst mér ég finna samhljóm á milli bókana. Svolítið ljúfsár og líka tregi falinn í húmor um það að vera skotnari í manneskjum en þær eru í þér.
Mæli allavega mikið með og fannst lesturinn hjá Sögu Garðars á Storytel frábær!
Elska að lesa bækur þar sem sögusviðið er nútíminn og kunnuglegir staðir og karakterar koma við sögu án þess þó að vera beint nefnd á nafn, blandað við skáldskap og fyndnar pælingar. Kannski hjálpar að hafa fylgt Kamillu lengi á Twitter og líða smá eins og maður eigi að vita hverjir allar sögupersónur eru. Kamilla hefur einstakan ristíl og það er gaman að lesa bullið í henni, en stundum verð ég smá ringluð því hún hoppar á milli þráða.
Naut hverrar mínútu af lestrinum. Mwah! Hló upphátt á nokkrum stöðum á milli þess sem ég táraðist smá þegar skrifin hittu mann í hjartastað. Svo er bókin bara svo vel skrifuð. Engu ofaukið og hugsanir kláraðar. Ef það væri ekki svona leim að líkja bókum við konfektmola þá myndi ég hiklaust gera það.
Ef maður klórar sig í gegnum klunnalegan talmálstextann í "Tilfinningar eru fyrir aumingja" og í gegnum alla þessa útjöskuðu brandara um tíðarandann og hálfmiðaldra reykvíkinga og samfélagsmiðla og djammið og allt hitt, leynist... bara ekki neitt.
Drepfyndin skáldsaga sem segir frá snemmmiðaldra vinahópi sem stofnar metalband og dreymir um að komast í þáttinn hjá Gísla Marteini. Sagan byrjaði alls ekki vel með lýsingu á stofnun hljómsveitarinnar og miklu nafnarugli. Alla bókina átti ég aðeins erfitt með að halda í það hver væri hver enda stór vinahópur og karakterarnir margskonar. Aðalpersónan, Halla segir söguna í fyrstu persónu og slær hvergi af í lýsingu á misheppnuðum ástarævintýrum sem gerir frásögnin skemmtilega einlæga. Las þessa 16 ára frænda mínum til samlætis en hann valdi bókina af bókalista í íslenskuáfanga í Versló og skrifaði ritgerð um bókina. Á meðan ég hló ítrekað höfðaði bókin alls ekki til unglingsdrengsins, skiljanlega. Hann skrifaði þó góða ritgerð og fann það út að það sé ekkert aumingjalegt við að hafa tilfinningar.
Afar stutt en fyndin og mikið léttmeti. Ég hlustaði á þessa bók á storytel í lestri Sögu Garðarsdóttur. Ég er ekki viss um að karakter Höllu hefði verið sá sami hefði ég lesið hana sjálf. Frásögnin er í 1. persónu og höfundur notar mikið kaldhæðni sem kemur út sem einfeldni hjá Höllu, sem segir söguna, og Saga kemur persónu hennar listavel til skila. Halla lokar á og bægir frá sér erfiðum tilfinningum gagnvart mönnum sem hún fellur fyrir sem gerir það að verkum að hún er meðvirk og illa í stakk búin að standa með sjálfri sér í sambandi og/eða samskiptum við þá. Þetta er hnyttin samtímasaga um miðaldra konu í leit að ástinni. Höfundur nær að fanga áhrif samfélagsmiðla í tilhugalífinu og þær ranghugmyndir sem fólk þróar oft með sér byggðar á samskiptum þar í gegn.
Bara alveg hins fínasta bók. Skemmtileg og stutt. Lang flottast að það er búið að gera Stjána rokk ódauðlegan á prenti. Gaman að sjá hvernig fólk upplifir þungarokk sem einhverskonar senu sem þarf helst að hafa reglubók að til þess að finna sig í, sem er að mörgu leiti satt þegar það kemur að gatekeeping hálfvitum.
This entire review has been hidden because of spoilers.
Skemmtileg og launfyndin afþreying en situr kannski ekki mikið eftir. Varð svolítið rugluð í persónunum, þær voru hver annari líkar. Alltaf gaman að lesa eitthvað sem er algerlega beint úr samtímanum, þó það eldist kannski ekki vel.
Gamlir miðaldra skólafélagar ákveða að stofna þungarokksveit. Las bókina í einni beit enda frásögnin lífleg og stíllinn áreynslulaus. Efnistökin einföld, fáar persónur. Góð afþreying.
Þetta er rosalega góð bók. Sögumaðurinn hefur svo sterka og þægilega rödd. Hún er stútfull af óöruggri einlægni og einlægu óöryggi sem kjarnar svo vel hvað það er að vera manneskja.
Þetta er skemmtileg samtímalýsing sem var gaman að lesa. Reyndar samtími kynslóðar sem er talsvert yngri en sá sem þetta skrifar. Var semsagt skemmtilestur en það situr ekki mikið eftir.