Pétur er nýfluttur heim frá París til að hefja nám í menntaskóla og fær inni hjá gamalli frænku. Hann eignast strax vini í skólanum, þau Konál og Soffíu, og einnig hinni fögru Dagnýju sem sveipuð er dulúð eftir að litli bróðir hennar hvarf sporlaust tíu árum áður. Ekki líður á löngu þar til Pétur áttar sig á að einhver fylgist með hverju skrefi hans. Hverjir sitja um hann og hvers vegna? Af hverju er Sæunn frænka alltaf að tala um álfasteina … álfar eru bara til í sögum – ekki satt?
Án efa með bestu barna- og unglingabókum sem ég hef lesið nýlega og satt besta að segja bíð ég spennt eftir næstu bók, Risanum, í þessari fjögurra bóka seríu. Margt skrýtið og skemmtilegt í gangi, unnið með álfatrú okkar Íslendinga og þulur bland við hversdagslegri málefni eins og vináttu og samskipti á unglingsárunum. Heimarnir tvennir tengdir saman á áhugaverðan hátt og dass af spennu hent inn við og við. Flott og fjölbreytt persónusköpun, lipur texti og hnyttin tilsvör og samskipti milli söguhetja. Ekta kjörbókarlesefni fyrir grunnskóla með margar vísanir út fyrir efnið, tímaflakk og fjölbreytt sögusvið. Nú er bara að fara á rúntinn og leita að álfasteininum "herforingjanum" vestur í bæ og leggja eyrað upp að honum.