Vilji maður hrapa í gegnum veft tímans og koma út á athyglisverðum tímum, þá er fjórtánda öldin óvitlaus viðkomustaður. Árið 1346 lagði kaupskip að kajanum í Messina á Sikiley. Í kvið skipsins voru rottur og á rottunum voru flær og flærnar voru með Yersinia pestis. Nei, Yersinia pestis er ekki meinlaus rússnesk húsmóðir sem vinnur við að klakaberja sporvagnateina á vetrum. Hún er sýkillinn sem ber svartadauða. Og fáum árum síðar voru 35–60% íbúa Evrópu látnir úr plágunni. Það er einmitt á tíma plágunnar í Englandi sem Guðbjörg, skrifstofukona í Reykjavík, lendir á óumbeðnu tímaflakki. Og þar má doka við og velta fyrir sér hverju nútímavitneskja bjargi þegar nútíminn fylgir ekki með.
Miðaldra bókhaldari vaknar skyndilega upp sem gjafvaxta ungmey í Englandi á fjórtándu öld. Þar bíða hennar ýmis vandræði: vafasamar hreinlætisvenjur, brúðgumar til að bíta af sér og heil manndrápsplága sem breiðist út með ógnarhraða. En lífsreynd 20. aldar kona hefur ýmis ráð undir rifjum. Bleksvartur og beittur Auðarhúmor eins og hann gerist bestur.
Auður Haralds er íslenskur rithöfundur. Fyrsta skáldsaga hennar, Hvunndagshetjan: þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn árið 1979, vakti mikla athygli sem opinská grátbrosleg lýsing á hlutskipti kvenna við upphaf ákveðins kafla í kvennabaráttu á Íslandi. Hún fylgdi henni eftir með Læknamafían árið 1980 og Hlustið þér á Mozart? 1982. Skömmu síðar komu út þrjár bækur hennar um Elías sem byggðu á innslögum sem hún skrifaði fyrir Stundina okkar, sem Sigurður Sigurjónsson lék, og unglingabókin Baneitrað samband á Njálsgötunni. 1987 kom svo út síðasta skáldsaga hennar til þessa, Ung, há, feig og ljóshærð.
Kaffiþyrst kaldhæðin miðaldra kona sem endar á miðöldum. Bættu við plágunni miklu og guði, annað hvort með stórum eða litlum staf og útkoman er bráðskemmtileg og spennandi saga. Hló oft upphátt og las í einum rykk. Mikið er þetta hressandi lestur á tímum Covid.
Kannski er þessi bók 25 ára, miðað við óáreiðanlegar heimildir höfundar, en kannski er hún glæný. Í mínum lestraraugum er hún ný og ég hugsaði mér aldeilis gott til glóðarinnar þegar ég frétti af henni. Ég skemmti mér konunglega yfir fyrsta kaflanum en svo súrnaði aðeins í mér þegar miðaldra, firnafyndni bókhaldarinn lognaðist út af í veikindum í Reykjavík og rumskaði næst í Miðlöndunum á miðöldum með alla sína 21. aldar þekkingu á fúkkalyfjum og smitleiðum. En svo fjörgaðist ég aftur þegar á leið og húmor höfundarins reyndist óbjagaður með öllu.
Ég átti dýrlegar kvöldstundir með sögunni af hinum lata og sérhlífna drottni.
þessi er búin að liggja í ferðatöskunni í 3 löndum en ég tók hana loks upp á spáni og kláraði, takk f pent.
mjög skemmtilegt concept og aðalpersónan frábær. var samt svolítið lengi að koma mér inn í söguna og sumir kaflar hægari en aðrir (þegar hún er að labba td:’))
Mér fannst þessi saga bara stórskemmtileg. Skellti oft upp úr, sem var hressandi. Hreinlega "neyddist" til að kynna mér sögu svarta dauða til að vita hvort hún færi með rétt mál - og hún gerir það alveg nægilega vel. Bruno ferðafélagi var kannski svolítið mikið rugl, en maður sættir sig við hann sem auðvelda reddingu á ýmsum vandamálum.
Djöfull sem Auður var fyndin. Og alltaf með skýra og skemmtilega sögumannsrödd.
Tímaflakk aftur til miðalda klassísk sögugrein og þessi bók er skemmtileg viðbót í flóruna. Ógeðslega fyndin en líka með andrúmsloft sem verður á köflum kæfandi.
Eina sem mætti setja út á er að hún staldrar stundum of lengi við, upphafsruglingurinn pínu langdreginn og ferðalagið með Bruno líka. Endar nokkuð skyndilega þegar maður hefði viljað fá að njóta hennar aðeins lengur.
Mest hafði ég gaman af andsetnu Önnu sem sá djöfulinn í hverju skoti.
Vel skrifuð, fyndin og skemmtileg bók um áhugavert efni. Hefði vel má vera lengri, en gengur samt alveg upp eins og hún er. Sagan var fyrst birt á Strik.is árið 2000 en kemur nú út í prentaðri útgáfu. Auður Haralds hefur engu gleymt og það er eiginlega synd að hún hafi ekki gefið út fleiri bækur, en síðasta skáldsaga Auðar fyrir fullorðna á undan þessari kom út árið 1987. Vonandi eigum við eftir að fá fleiri sögur frá Auði en í það minnsta mæli ég eindregið með þessari bók.
Skemmtilegt að leyfa sér að fara í tímaflakk án þess að vera of mikið að velta fyrir sér hvort það geti í rauninni gerst.
Að vanda er frásögnin hispurslaus og aðalsöguhetjan kaldhæðin með eindæmum. Frásögnin hélt mér vel við efnið - staldraði aðeins við þegar Bruno ferðafelagi bættist við, en það var skemmtilegt krydd inn í söguna.
Átti erfitt með að leggja hana frá mer og skellti þó nokkrum sinnum uppúr
8,5/10 Byrjaði mjög vel. Ótrúlegt hvað höfundi tekst að vera hnyttin í hverri einustu setningu. Listilega skrifað, langaði að verða rithöfundur sjálf eftir fyrsta kaflann ef það fylgir þessi kímnigáfa. Svo svona um miðbik var mér aðeins farið að leiðast og þegar svona 5/7 var búið af bókinni var ferðalagið orðið ansi langdregið og ég var bara að klára bókina til að klára hana. Hins vegar varð endirinn óvænt skemmtilegur undir lokinn og spólaði í gegnum hann.
Eins og að lesa Elías, Ísfólkið og Outlander í einum yndislegum graut. Sérstaklega gaman að sjá þarna tímaflakkarann Brúnó. Ekki fullt hús því mér fannst hún ögn endaslepp, hefði alveg þolað að verða lengri eða jafnvel framhaldssería.
Frábær bók. Ég las hana fyrst þegar hún var birt í köflum á netinu og hef hugsað til hennar öðru hvoru síðan, alltaf að vona að hún dúkkaði upp einhver staðar aftur. Og þegar það loksins gerðist var hún alveg jafn góð og í minningunni.
Þessi kom mér skemmtilega á óvart. Vissi lítið um hana og söguþráðinn, sem er held ég besta leiðin til að demba sér inní hana. Vissi bara að hún hafði fengið góðar viðtökur og það er ekki af ástæðulausu. Mæli hiklaust með. Stórskemmtileg saga með áhugaverðu twisti.
Þetta er mjög mannleg og hlýleg bók með fínlegum húmor. Hún er spennandi og líka fræðandi og gefur góða innsýn í erfiða tíma í sögunni þegar pestir herjuðu án þess að menn hefðu mikla möguleika til varna.
Áhugaverð pæling að láta nútímakonu vakna á plágutímum fyrri alda með alla sína nútímavitneskju sem veldur því að hún verður ofsótt sem norn. Ítök kirkjunnar eru mikil. Er langsótt á köflum en góð heild. Áhugaverð notkun á birninum þegar hún er á flótta.
Fyndin og kaldhæðin saga þar sem Guðbjörg ferðast óvænt aftur um nokkrar aldir í líkama tvítuga stúlku. Á meðan Guðbjörg sem Elísabet hugsar/nýtir sér hugmyndir nútímans í fortíðinni velti ég fyrir mér hvað vitum við ekki sem kemur í ljós á næstu öldum.
Var smà àttavillt í byrjun sögunnar en smàm saman nàpi sagan heljartökum à mér. Skemmtilegt samspil nútímans og fortíðar. Mæli eindregið með lestri þessarar bókar.
Ágætis skemmtilestur en náði mér ekki alveg. Fannst sögur um samskiptin áhugaverðust en minna þegar hún var ein. Hefði verið hægt að gera meira úr fínni hugmynd
Var fyrir smá vonbrigðum með þessa. Fannst hún eins og allar bækurnar hennar hrikalega vel skrifuð og fyndin á köflum en sagan sem slík hélt mér ekki nógu vel við efnið því miður.
Ætli þetta hafi verið draumur eða alvöru tímaflakk? Kímni skín í gegn þegar söguhetjan flyst óvænt aftur á 14. öld, til Miðlanda Englands, þar sem hún þarf að forðast svartadauða með öllum ráðum.
This entire review has been hidden because of spoilers.
Í heildina þá var þetta ljómandi skemmtileg bók unnin útfrá snilldar hugmynd. Ég fíla húmorinn hennar Auðar, hvernig hún laumar að skemmtilegu orðavali svo það er ekki hægt annað en að brosa útí annað. Það var eitt og annað sem dró þessa bók niður, aðallega að sumir hlutar hennar voru ansi langdregnir á meðan aðrir liðu fyrir að vera ekki gerð betri skil. Ég þarf að kíkja á eldri bækurnar hennar. 3,5*
Alveg frekar light-hearted. Ég var mjög hrifin og áhugasöm um miðaldalífið – my toxic trait er að ég gleymi að skáldsögur eru ekki sögulegar heimildir. Fyndin og góð bók sem nhittir mann samt í hjartastað. Bókin fær meðmæli mín.