Af einstakri einlægni og ósérhlífni opnar knattspyrnukonan Lára Kristín Pedersen sig upp á gátt og segir hér frá átakanlegri baráttu sinni við matarfíkn, sem hún hefur glímt við um árabil meðfram því að stunda íþrótt sína af kappi hér heima og erlendis.
Með Verunni í moldinni ljær Lára baráttunni við matarfíkn mikilvæga og dýrmæta rödd. Lesendur skyggnast inn í hugarheim matarfíkils þar sem Lára skrifar í dagbókarformi um leit sína að bata, vöxtinn sem fylgdi í kjölfarið, föllin sem geta fylgt sjúkdómnum og hvernig unnt er að blómstra þrátt fyrir að glíma við fíknisjúkdóm.
Ótrúlega einlæg skrif, frábær innsýn í hugarheim einhvers með fíknisjúkdóm. Framsetningin á þróun sjúkdómsins mjög sniðug. Örugglega gott að lesa fyrir flesta til að skilja betur matarfíkn og aðra fíknisjúkdóma. Líka bara margt sem ég tengdi við og hugsa að flestar konur myndu tengja við, þrátt fyrir að hafa ekki glímt við matarfíkn, í því samhengi fannst mér “hann á betra skilið” kaflinn um líkamann mjög fallegur. Mamma meðleigjanda míns hámlas þess þegar hún var í heimsókn, vinkona mín sem bjó hjá okkur í nokkra daga gerði slíkt hið sama og núna líka ég. Ég get því nokkuð örugglega mælt með henni fyrir hönd okkar þriggja. Ég er skáldsögu kona through and through og gef sönnum eða sannsögulegum bókum eiginlega aldrei 5 stjörnur því þær ná bara ekki þannig til mín - hef þó ekkert út á þessa bók að setja.
Einlæg og hreinskilin frásögn Láru af glímu sinni við matarfíkn meðfram því að stunda fótbolta í efstu deild. Virkilega lærdómsrík og fræðandi frásögn. Flott skrif sem ég mæli með fyrir alla.
Algjörlega mögnuð bók! Láru tekst einstaklega vel til við að koma lesandanum inn í hugarheim matarfíkilsins. Virkilega áhrifarík og einlæg frásögn sem er allt í senn átakanleg, sorgleg, falleg og hjartnæm. Lára afhjúpar sig á aðdáunarverðan hátt, sem mun án vafa hjálpa fólki í sömu sporum og öðrum sem ekki þekkja til við að skilja sjúkdóminn. Svo er bókin um leið falleg þroskasaga ungrar konu, heimspekileg og hnyttin. Einstaklega vel skrifuð bók sem fær fimm stjörnur frá mér.
Frábær og einlæg bók um veruleika sem erfitt er að ímynda sér. Ég valdi þessa bók vegna þess að ég hélt að mögulega ætti ég við matarfíkn að stríða Komst að því að ég á ekki við matarfíkn að stríða heldur einungis stjórnleysi. Saga Láru vekur mann til umhugsunar um fíknisjúkdóminn óháð fíkninni sjálfri og hversu heppinn maður getur talist að þurfa ekki að berjast við þann djöful. Á einhvern undraverðan hátt er bókin hvetjandi fyrir lesandann þrátt fyrir erfitt umfjöllunarefni og erfiða upplifun höfundar.
Hrá og heiðarleg frásögn Láru. Heimur (matar)fíkils en líka hversu erfitt það er oft að vera manneskja. Góð innsýn í heim íþróttakonunnar líka. Mjög upplýsandi!