Við erum farin að eyða sífellt fleiri stundum í að þræða stafrófið endilangt. Eftir að hafa farið í gegnum A-ið og mátað nafnið „Arndís“ er sem eitthvað standi í henni. Hún stynur: „Bl… Bl… Bla…“ Ég er snöggur að grípa boltann á lofti og kalla: „Blær!“ í þann mund sem ég held aftur af mér í eitt sekúndubrot til að kippa honum út. En þá læsir hún fótunum um mig og hrópar: „Ekki!“ Getnaður sigraði í handritasamkeppni Forlagsins, Nýjar raddir, árið 2022. Hér eru á ferðinni hispurslausar og bráðfyndnar ástarsögur um þrítugt fólk í Reykjavík sem fléttast saman á óvæntan hátt. Djammið dunar en fullorðinspressan fer sívaxandi: Íbúð, barn og bíll vofa yfir – en er tímabært að búa til barnabarn handa mömmu þegar ekki er einu sinni hægt að vera sammála um sjónvarpsdagskrána? Og hver ber ábyrgð á öllu sæðinu sem streymir linnulaust fram í miðborginni um helgar? Getnaður er fyrsta skáldsaga Heiðu Vigdísar Sigfúsdóttur.
Vá, ég skemmti mér svo vel allan tímann við að lesa þessa, varð smá leið þegar hún kláraðist. Þvílík snilldarflétta, frásagnargleði og næmni fyrir mannlegum samskiptum. Algjör snilld. Get ekki beðið eftir að lesa næstu bók eftir Heiðu Vigdísi!!
Getnaður er mjög fín frumraun Heiðu Vigdísar með skemmtilega raunsæjum atburðum. Einstaka staðir og aðstæður voru óþægilega kunnuglegar. Átti síst von á að mis dannaðar vísindaferðir háskólanema, sem eitt sinn voru stundaðar af kappi, myndu rata inn í bókmenntirnar en hér erum við.
æjj hvað er huggulegt að lesa um samtíma sinn eða sko hún endurspeglar svo mikið lífið fyrir 2 árum ❤️ knús og reykjavík, vinkonur og vibeið þið skiljið
Grípandi skáldsaga sem tvinnar listilega saman sögur nokkurra einstaklinga á þrítugs(soon to be fertugs)aldri. Höfundi tekst vel að nota hversdagslegt mál í bland við fagurt ritmál og fær mann oft til að staldra við skemmtilegan orðaleik og pælingar. Bókin heldur manni frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu og vekur upp raunverulegar tilfinningar svo sem hlátur og grátur. Fimm stjörnur!
Þetta er rosa flott bók til að endurspegla tíðarandann og hugmyndir og líf þrítugra í Reykjavík.
Mér fannst líka eitthvað svo áhugavert að allir séu að eltast við/hafa áhuga á Soffíu en vita ekkert í raun um hana.
Soffía er á vissan hátt methaphor fyrir það að okkar kynslóð er alltaf að leita að einhverju betra, ekkert það sátt í bara einhverju starfi, íbúð, bíl og sambandi þó að Siggi og Gerður séu alltaf að reyna að sannfæra sig um það!