Auðlesin er bráðfyndin og beitt samfélagsádeila sem tekst á við þær stóru siðferðis- og sjálfsmyndarspurningar sem þúsaldarkynslóðin stendur frammi fyrir.
Hugsjónaskáldið Nína Kristín ætlar að bjarga heiminum með ljóðum sínum en allt gengur á afturfótunum og við blasir að hún neyðist til að flytja aftur inn á forpokaða foreldra sína. Bjartur er verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg; réttsýnn og vinsæll umhverfisverndarsinni sem bjargar hunangsflugum í beinni útsendingu á samfélagsmiðlum. En hversu djúpt rista hugsjónir þeirra beggja þegar virkilega reynir á?
Frábær skemmtilesning, góð persónusköpun og gott plott. Ég gat ekki hætt þegar ég var byrjuð. Ekki laust við að maður kannist við sjálfan sig í sumum þessum persónum og aðrar minntu á ýmsa sem standa manni nærri. Vel gert!
Sögupersónur minna óneitanlega á allt castið í “Search party”, óþolandi sjálfhverf, sem er augljóslega punkturinn. Ádeilan er full mikið on the nose fyrir minn smekk, aðeins of augljós og of lítið subtext.
Ádeilan stundum beint í andlitið en margt listilega skrifað og fyndið. Óx ásmegin eftir því sem á leið og hver kafli bætti í. Hló oft upphátt og tengdi. Frábær frumraun.
Bók sem vann á. Var þristur framan af en svo breyttist eitthvað. Þeir sem eru hressir og lesa mína dóma hér vita að ég kalla gjarnan eftir breyskleika. Hér er hann svo sannarlega að finna ásamt hégómanum og uppgerðagóðmennskunni. Þó þannig að pælingarnar minntu svolítið á 107 Reykjavík, en ekki um of. Dystópíski undirtónninn var sömuleiðis kunnuglegur en samt með hressandi vinkli á samtímann. Adolf Smári fær plús fyrir að pönkast aðeins í hljóðbókasöfnuðinum sem enginn má styggja.
Ég veit ekki almennilega ennþá hvað mér finnst um þessa bók. Tengdi engan vegin við neinar persónur en fannst þær samt vel geta verið til. Margar skemmtilegar pælingar og hló alveg upphátt tvisvar sem er klárlega meðmæli. Góðar pælingar en hefði viljað vita meira um hvernig saga stúlkunnar færi á endanum. Smá svekkt þegar bókin var búin.
Þetta er mjög gott hjá ungum höfundi og góður spegill á samtímann. Vantar stundum svolítið upp á flæði en samt fjórar stjörnur og eftirtektarverð saga.